Annríki
Faldbúningar, skautbúningar, kyrtlar, upphlutir, peysuföt og karlbúningar kallast gersemarnar sem taka á móti manni hjá Annríki - Þjóðbúningar og skart á Suðurgötunni.
Við hittum hjónin Guðrúni Hildi Rosenkjær (Hildi) og Ásmund Kristjánsson (Ása) til að kynnast starfseminni.
Fyrirtæki vikunnar
Listaverk unnin með þræði hjá Annríki - þjóðbúningar og skart
Fræðasetur fyrir íslenska þjóðbúninga
Hildur er klæðskeri og kjólameistari og er að leggja lokahönd á meistararitgerð sína í sagnfræði. Hún sérhæfði sig mjög fljótt í þjóðbúningum og öllu sem þeim viðkemur og hefur verið að kenna þjóðbúningasaum allt frá árinu 1997. Ási er vélvirki en ákvað fyrir tíu árum að fara í gullsmíði til að geta smíðað allt fallega skartið sem fylgir þjóðbúningunum.
Árið 2011 ákváðu þau að stofna Annríki en þá voru þau bæði búin að vera í námi og við það opnuðust nýjar víddir og þau tilbúin að taka skref út á við. Hildur segir að starfsemin sé mjög fjölþætt. „Við erum í raun fræðasetur fyrir íslenska þjóðbúninga enda höfum við ákaflega mikla þekkingu á því sviði, höfum gert ýmsar rannsóknir, eigum orðið mikið safn búninga og höldum vinsæl námskeið“, segir Hildur. „Hér er einnig gullsmíðaverkstæði þar sem ég smíða skartið fyrir búninga en einnig ýmis verkfæri og svo erum við einnig með sérhæfða verslun“, segir Ási. Þau segja annars að þjóðbúningaveröldin sé ekki stór hér á landi en þau séu vissulega stærst í þeirri veröld.
Annríki til heiðurs Guðrúnu
Þegar kom að því að velja nafn á fyrirtækið var Hildur strax nokkuð ákveðin í hvað það ætti að vera. „Guðrún Skúladóttir, dóttir Skúla fógeta sem er fædd árið 1740 var með saumastofu í Viðeyjarstofu sem hún kallaði Annríki og þaðan kemur nafnið“, segir Hildur en Guðrún hefur verið nokkurs konar samstarfskona Hildar frá árinu 2000. „Árið 1999 þegar ég starfaði hjá Heimilisiðnaðarfélaginu fórum við á Victoria Albert safnið í London til að skoða íslenskan brúðarbúning sem var saumaður af Guðrúnu á árunum 1790 til 1800 en seldur úr landi árið 1809“, segir Hildur. Hún heillaðist greinilega mjög af búningnum og ákváð árið 2000 að hefja endurgerð á honum og lagðist í mikla rannsóknarvinnu til þess. „Ég er búin að fara aftur til London til að skoða búninginn en það er að mörgum smáatriðum að huga og í raun stórundarlegt hvað Guðrún lagði mikið í verkið“, en Hildur stefnir að því að klára búninginn fyrir tíu ára afmæli Annríkis næsta sumar.
Rannsóknir og námskeið
Hluti starfs þeirra hjóna eru rannsóknir en þau þurfa að finna út hvernig hlutirnir voru gerðir á árum áður. Ási rannsakar skartið sem enginn veit hvernig var smíðað fyrir 200 árum. Hann skoðar gripina, teiknar þá upp og hefst síðan handa við endurgera þá. Meistaraverkefni Hildar í sagnfræði er rannsókn á prjóni í íslenskri búningasögu. Hún fer þar yfir hvað var prjónað en stór hluti af rannsókninni er að endurgera hlutina til að skilja hvernig þeir voru gerðir og þá þarf oft að gera margar tilraunir. Þau segjast bæði gjarnan vilja hafa meiri tíma fyrir rannsóknir en nóg sé að gera í námskeiðahaldi og fleiru. „Ég vil heldur ekki hætta að kenna, það gefur mér mikið“, segir Hildur.
Á hverju misseri eru haldin tvö eða þrjú þjóðbúninganámskeið sem standa í ellefu vikur. Þar sauma þátttakendur 20. aldar búning á sjálfa sig eða einhvern annan en Hildur sér þá um að mæla alla og sníða búningana fyrir hvern og einn. Námskeiðin eru jafnframt haldin á landsbyggðinni og eru þá yfir fjórar helgar. Annríki er einnig með námskeið í gerð fald- og skautbúninga en þau taka þrjú ár enda mikil vinna sem felst í því að sauma þannig listaverk.
Ási segir að sumir þátttakendur komi alltaf aftur og aftur og dæmi eru um að einhverjir hafi saumað hátt í 20 búninga undir leiðsögn Hildar.
Búningar til sýnis
Hjá Annríki eru tæplega 50 búningar á gínum en þau segjast þó eiga enn fleiri. Aðspurð hvað hún hafi saumað marga búninga í gegnum tíðina segir Hildur það eiginlega vera óvinnandi veg að segja til um. „Ég hef allavega komið að gerð á um annað þúsund búninga í gegnum tíðina. Þetta eru þá búningar sem hafa orðið til undir minni leiðsögn og eru núna í eigu viðskiptavina okkar“.
Á hverjum föstudegi eftir hádegi taka Hildur og Ási búningana fram og fólk getur komið og skoðað þá hjá þeim á Suðurgötunni. Þann 17. júní hafa þau einnig undanfarin ár verið með sýningu á búningum í Hafnarborg og Hildur þá jafnframt verið með kynningu á þeim.
Áhrif Covid
Covid hefur haft lítil áhrif á reksturinn ef eitthvað er hefur orðið aukning. „Við óttuðumst að þurfa að fella niður námskeiðin í haust en þátttakendur vildu ólmir mæta og vera bara með grímur“, segir Hildur en þau voru með þrjá hópa í stað tveggja til að hver og einn fengi meira pláss. „Fyrir marga þátttakendur er það nokkkurs konar heilun eða þerapía að koma hingað“, segir Ási.
Þau þurftu reyndar að fresta námskeiði sem átti að vera á Patreksfirði og geta heldur ekki verið með útskrift þann 1. desember eins og vanalega. „Við verðum þá bara með enn stærri útskrift á tíu ára afmælinu okkar þann 1. júní næstkomandi“, segir Hildur með bros á vör.
Dreymir um nýtt húsnæði
Hildur fædd og uppalin í Hafnarfirði og segist vera ein af frumbyggjunum á Hvaleyrarholtinu. Hún segir að Hafnarfjörður sé góður bær til að búa í og hún vilji helst hvergi annars staðar vera. „Þetta er enn bær út af fyrir sig og hér fæ ég allt sem ég þarf“, segir Hildur og bætir við að nálægðin við náttúruna sé henni mikils virði.
Ási er austan úr Flóa og segir að Hafnarfjörður sé eini staðurinn á höfuðborgarsvæðinu sem hann gæti hugsað sér að búa á. „Hér er enn viss bæjarbragur og hægt að tala við fólk“, segir hann.
Þau segjast bæði vona innilega að geta verið áfram með fyrirtækið sitt hér í bænum en þau dreymir um að finna hentugt húsnæði fyrir alla starfsemina. Ítreka samt að þeim líði vel á Suðurgötunni og í þessu húsnæði hafi alla tíð verið atvinnustarfsemi af ýmsu tagi.
Áhugamálin og vinnan nátengd
Hildur og Ási segja bæði að vinnan og áhugamálin séu að miklu leiti nátengd. „Við ferðumst mikið um landið en áfangastaðirnir reyndar oft valdir útfrá einhverju vinnutengdu“, segir Hildur en bætir síðan við að þau séu fastagestir í Suðurbæjarlauginni.
„Við förum líka alltaf í berjatínslu á haustin vestur á firði og ég sinni heimaslátrun á æskuslóðunum“, segir Ási að lokum.