Markaðsstofa Hafnarfjarðar Markaðsstofa Hafnarfjarðar

Zkrem

Í litla húsinu við Strandgötu 17 er verslunin Zkrem sem selur ákaflega vinsælar pólskar snyrtivörur frá merkinu Ziaja. Við hittum eigandann Huldu Björk Sveinsdóttur til að kynnast rekstrinum.

Í litla húsinu við Strandgötu 17 er verslunin Zkrem sem selur ákaflega vinsælar pólskar snyrtivörur frá merkinu Ziaja. Við hittum eigandann Huldu Björk Sveinsdóttur til að kynnast rekstrinum.  

Fyrirtæki vikunnar

Í litla húsinu við Strandgötu 17 er verslunin Zkrem sem selur ákaflega vinsælar pólskar snyrtivörur frá merkinu Ziaja.

Staðsetningin frábær

„Ég er búin að eiga Zkrem frá árinu 2017. Keypti það af hjónum sem ég vann hjá, en þau stofnuðu fyrirtækið árið 2013,“ segir Hulda en fyrstu mánuðina var þetta aðallega netverslun ásamt mjög lítilli verslun í forstofuherberginu heima hjá henni. Í lok árs 2017 opnaði hún síðan verslun í Súðavogi og var þar í rúm tvö ár þangað til hún kom á Strandgötuna í febrúar 2020.

„Það varð gífurleg aukning í sölu eftir að ég kom hingað á Strandgötuna og greinilega að staðsetningin hefur mikið að segja. Aukning á sölu milli áranna 2019 og 2020 var tæplega 600% sem er í raun ótrúlegt og þau í Ziaja í Póllandi voru vissulega mjög undrandi en á sama tíma ákaflega glöð,“ segir Hulda en samkvæmt henni hjálpar það mikið að fólk labbi fram hjá, kíki inn og uppgötvi vöruna og verslunina og það sé þá oft verðið sem kemur fólki skemmtilega á óvart.

Með 360 vöruliði

Ziaja er pólskt fjölskyldufyrirtæki, stofnað árið 1989 af tveimur lyfjafræðingum. Markmiðið var frá upphafi að búa til snyrtivörur með einföldum en áhrifaríkum formúlum byggðum á lyfjafræðilegri reynslu þeirra. Að sögn Huldu eru þetta því ákaflega hreinar vörur en fyrsta krem Ziaja var ólífuolíukremið sem er eins enn þann dag í dag og alltaf jafn vinsælt.

„Ég er með um 360 vöruliði í þessari litlu verslun minni og þar á meðal eru sturtusápur, body lotion, sjampó, hárnæring, dag- og næturkrem, lituð dagkrem, maskar, fótakrem, ljúfsápur, sólarvörn, tannkrem, munnskol, svitalyktaeyðir já og líkamsskrúbbar (Body scrub) sem og olíur.“  Vörunum er skipt niður í um 15 vörulínur en þar á meðal eru berja-, geitamjólkur-, vegan- sem og olífuolíulína svo eitthvað sé nefnt.

Að sögn Huldu eru sítrónu líkamsskrúbburinn og þykka kakókremið (body butter) vinsælustu vörurnar og eins og hún segir sjálf frá „vörur sem verða að vera til á þessu heimili.“  

Frá bossakremi yfir í hrukkukrem

Ziaja vörurnar eru hannaðar til að hjálpa öllum húðgerðum og eru fyrir alla fjölskylduna. „Ég er með vörur sem henta mismunandi aldri alveg frá bossakremi yfir í hrukkukrem og sem dæmi með sérstaka barnalínu og aðra fyrir karlmenn en reynslan mín er reyndar sú að karlmenn nota margar aðrar línur. Unglingalínan er einnig vinsæl en hana byrja foreldrar oft að kaupa fyrir sinn ungling sem eftir einhvern tíma kemur svo hingað sjálfur að versla.“  

Hulda segir að viðskiptavinahópurinn sé því ákaflega breiður. Flestir líklega á milli 30 og 60 ára en hún hafi hér á árum áður verið reglulega með kynningar á Hrafnistu og fái í raun enn fyrirspurnir þaðan. Krakkarnir úr skólunum eru líka gjörn á að koma til hennar rétt fyrir jólin eða á vorin þegar þau eru að kaupa gjöf fyrir kennarann sinn og fá þá stundum líka prufu fyrir sig. Þá á Hulda líka mikið af pólskum viðskiptavinum og segir að sá hópur fari líka ávallt vaxandi.

Persónuleg þjónusta

Hulda stendur að mestu vaktina sjálf í búðinni sem er opin sex daga vikunnar. „Persónuleg þjónusta er ákaflega mikilvæg og ég finn það sterkt að mínir viðskiptavinir vilja líka hitta mig, þó svo að þeir séu ef til vill bara alltaf að kaupa aftur og aftur sömu vöruna. Margir eru líka ævintýragjarnir og vilja prófa eitthvað nýtt og fá að heyra um nýjar vörur.“

Allar vörurnar eru fáanlegar í vefverslunni en að sögn Huldu fer rúmlega 80% af sölunni í gegnum verslunina á Strandgötunni. „Það eru helst viðskiptavinir úti á landi sem nýta sér vefverslunina en ég sendi vörur til þeirra án endurgjalds. Mikið af þessu fólki kemur þó oft við ef það er á höfuðborgarsvæðinu, finnst þægilegt að koma hingað í Hafnarfjörð, engir stöðumælar og gott aðgengi.“

Allir fara út glaðir

Aðspurð um hvað sé skemmtilegast við vinnuna brosir Hulda og segir fljótt: „Vá! Það er bara allt skemmtilegt enda aldrei leiðinlegt hjá mér.“ Eftir smá umhugsun segir hún að það sé samt skemmtilegast að frá henni fari allir glaðir út og margir hissa á hvað verðið er gott, sérstaklega nýir viðskiptavinir. Hún bætir síðan við að hún sé líka farin að þekkja flesta og margir komi því inn og segi hæ frekar en góðan daginn, eitthvað sem henni þykir vænt um.

Úti á landi bragurinn bestur

Hulda er fædd og uppalin í Skagafirðinum en hefur búið í Hafnarfirði frá árinu 2010 og bjó líka hér í nokkur ár í kringum aldarmótin og lærði í Iðnskólanum. „Hafnarfjörður hefur því einhvern veginn alltaf togað í mig og hér finnst mér gott að búa. Þetta er ofsalega fallegur bær, stutt í allt og ég get í raun labbað í allt, geri það samt ekki alltaf,“ segir Hulda og brosir. Hún bætir við að hérna sé líka svona úti á landi bragur sem sé líklega ástæðan fyrir því að henni líði svona vel hérna.

Hamarinn er annars í nokkru uppáhaldi hjá Huldu. „Mér finnst alltaf æðislegt að fara þangað, fallegt umhverfi og flott útsýni. Fyrst þegar ég bjó í Hafnarfirði var ég rétt fyrir neðan Hamarinn og þaðan kemur líklega þessi góða tenging við hann.“

Saumar, bakar og eldar

Þegar Hulda er spurð út í áhugamálin segir hún strax að sér þyki ákaflega gaman að sauma og búa eitthvað til. „Ég er alltaf með eitthvað í höndunum, en er samt alls ekki að prjóna. Ég er mikið í að breyta og bæta og hanna einhverja hluti. Saumaði sem dæmi alla púðana sem voru hjá mér í búðinni fyrir síðustu jól. Geri líka gjarnan flókna og skemmtilega búninga fyrir hrekkjavökuna og öskudaginn.“

Þá segist hún vera ákaflega heimakær og hafi gaman af því að baka og elda. „Ég elda hrikalega góðan mat. Sesarsalatið mitt er í miklu uppáhaldi hjá fjölskyldunni enda svakalega gott og folaldasnitselið mitt er líka mjög vinsælt,“ segir Hulda að lokum.

Read More
Markaðsstofa Hafnarfjarðar Markaðsstofa Hafnarfjarðar

Allora Bambino

Allora Bambino á Stakkahrauni leigir út veisluskraut og selur einnig ýmsa muni sem tengjast veisluhöldum. Við hittum eigandann Sigríði Arnfjörð Ólafsdóttur til að kynnast rekstrinum.

Allora Bambino á Stakkahrauni leigir út veisluskraut og selur einnig ýmsa muni sem tengjast veisluhöldum. Við hittum eigandann Sigríði Arnfjörð Ólafsdóttur til að kynnast rekstrinum.  

Fyrirtæki vikunnar

Allora Bambino á Stakkahrauni leigir veisluskraut og selur einnig ýmsa muni sem tengjast veisluhöldum.

Allt frá bumbuboðum í brúðkaup

„Ég var búin að halda mörg bumbuboð fyrir vinkonur mínar og var alltaf fremst í flokki þegar kom að því að skreyta. Ég byrjaði því að safna skrautinu og nýta það aftur og aftur enda ekki bara ódýrara heldur líka minni sóun og því umhverfisvænna. Hugmyndin um að stofna fyrirtæki í tengslum við þetta varð til og ég ákvað bara að taka skrefið og byrjaði að leigja út veisluskraut,“ segir Sigríður um upphafið af Allora Bambino sem hefur verið starfandi frá því í mars 2021.

Í upphafi var fyrirtækið með fjóra mismunandi pakka sem hægt var að leigja fyrir bumbuboð og fékk strax góðar viðtökur. Stuttu seinna bættust við vörur fyrir barnaafmæli, skírnir og fermingar og á þessu ári komu fallegu brúðkaupspakkarnir. „Ég hef leigt út skraut fyrir margar brúðkaupsveislur í sumar. Það er ótrúlega gaman og ég með endalaust margar hugmyndir.“

Leigir út blöðrur

Blöðrur, blöðrubogar, borðbúnaður, bakgrunnar fyrir alls kyns tilefni eru meðal þess sem hægt er að leigja hjá Allora Bambino. „Já ég leigi út blöðrur en þær geta staðið í allt að tvær til þrjár vikur og ég er orðin ansi sjóuð í að gera blöðruboga úr latex blöðrum. Ég get notað hvern blöðruboga í nokkur skipti, fríska þá bara upp á þær blöðrur sem eru orðnar lúnar og bæti ef til vill við nokkrum nýjum.“

Sigríður ítrekar að hún vilji minnka sóun og vera umhverfisvænni kostur og reyni því alltaf að endurnýta allt sem hún setur frá sér. Framboðið aukist þó jafnt og þétt hjá fyrirtækinu og hún segir að nýverið hafi hún sem dæmi byrjað að selja pappadiska, servéttur og ýmsa skrautmuni s.s. í barnaherbergi. Þá leggi hún sig líka fram við að hvetja fólk til að reyna að endurnýta hlutina.

Þjónustar líka fyrirtæki

Stærsti hluti viðskiptavina Allora Bambino í dag eru einstaklingar sem eru að fara að halda veislur en eitthvað er um að fyrirtæki fái Sigríði til að skreyta fyrir sig. „Ég vil gjarnan fá að vinna fyrir fleiri fyrirtæki og skreyta fyrir árshátíðir, afmæli, starfsmannaboð eða aðra viðburði sem fyrirtæki standa fyrir.“

Hún segist þá geta veitt ráðgjöf og ýmis hagnýt ráð. Þá komi hún einnig á staðinn og setji allt upp ef þess sé óskað. Hún ítrekar þó að mikilvægt sé að hafa góðan fyrirvara þegar um stærri viðburði er að ræða til að tryggja að allar vörur séu til og hægt að panta það sem upp á vantar.

Jæja strákur

Okkur leikur forvitni á að vita um valið á nafninu á fyrirtækinu Allora Bambino, hvað það þýði og hvaðan það komi. „Mig langaði í eitthvað öðruvísi nafn og var strax spennt fyrir því að hafa það á frönsku eða ítölsku og fór því að grúska í bókum og á netinu. Ég datt þá inn á Allora sem er ítalskt og þýðir jæja og þar sem áherslan var á bumbuboð í upphafi og ég var nýbúin að eignast strák kom þá bambino aftan við. Þetta þýðir því í rauninni jæja strákur en mætti líka útfæra sem jæja barn … farðu nú að koma þér, eitthvað sem heyrist oft í bumbuboðum. Vissulega hefur reksturinn þó stækkað og þjónustan orðið víðtækari og því aldrei að vita nema ég láti Allora bara nægja í framtíðinni,“ segir Sigríður og brosir.

Umkringd fagnandi fólki

Aðspurð um hvað sé skemmtilegast við vinnuna segir hún að það sé að hún sé alltaf umkringd fólki sem sé að fara að fagna og það sé vissulega ákaflega skemmtilegt. „Mér finnst líka bara svo gaman að skreyta og frábært þegar aðrir vilja taka þátt í geðveikinni minni,“ segir Sigríður og hlær og bætir við að það sé líka skemmtilegt að geta verið umhverfisvænn.

Allt best við Hafnarfjörðinn

Sigríður hefur búið í Hafnfirði frá því hún var fimm ára og vill hvergi annars staðar vera. Þegar hún er spurð hvað sé best við Hafnarfjörðinn segir hún strax: „Allt“ og brosir.

Miðbærinn er annars í miklu uppáhaldi hjá Sigríði og þau fjölskyldan hafa alltaf búið í göngufæri við hann. „Við erum dugleg að fara í göngutúra um miðbæinn, setjast á kaffihús og njóta. Þá er VON Mathús í miklu uppáhaldi og við reglulega þar. Maturinn klikkar aldrei, ótrúlega góður fiskur og sanngjarnt verð.“

Hún bætir við að þau fari líka mikið með börnin og hundinn á Víðistaðatún. „Það er algjör perla, hoppukastalinn og leiktækin en líka bara allt opna svæðið þar sem börnin fá að hlaupa um og hjóla alveg frjáls.“

Ævintýraheimar, hreyfing og ferðalög

Þegar kemur að áhugamálum þá segir Sigríður að þau tengist nú sterkt vinnunni en hún elskar innanhússhönnun og að skreyta. „Ég hef haft gaman að því að skreyta allt frá því að ég man eftir mér og fæ þennan áhuga beint frá mömmu. Hún var alltaf að gera einhverja ævintýraheima fyrir okkur systkin þegar við vorum lítil. Ég geri slíkt hið sama og í dag er herbergi sonar míns eins og frumskógur.“

Sigríður segist í grunninn líka vera mikil íþróttamanneskja en hún æfði og spilaði handbolta með FH í yfir 20 ár og í dag reynir hún að mæta í ræktina en hlaupi líka mikið á eftir stráknum sínum. Ferðalög eru einnig eitthvað sem hún elskar og fari þá gjarnan til útlanda.   

Read More
Markaðsstofa Hafnarfjarðar Markaðsstofa Hafnarfjarðar

Stjörnustál

Stjörnustál á Rauðhellu sinnir bæði nýsmíði og viðhaldi en er þessa dagana jafnframt að byggja nýtt hús við Dofrahellu. Við hittum framkvæmdastjórann og eigandann Grétar Jón Elfarsson til að kynnast rekstrinum.

Stjörnustál á Rauðhellu sinnir bæði nýsmíði og viðhaldi en er þessa dagana jafnframt að byggja nýtt hús við Dofrahellu. Við hittum framkvæmdastjórann og eigandann Grétar Jón Elfarsson  til að kynnast rekstrinum.  

Fyrirtæki vikunnar

Stjörnustál á Rauðhellu sinnir bæði nýsmíði og viðhaldi en er þessa dagana jafnframt að byggja nýtt hús við Dofrahellu.

Aukin þjónusta í Hellnahverfinu

Stálsmiðjan Stjörnustál hefur verið starfandi frá árinu 2004 og mestan tímann í Hafnarfirði. „Við vorum fyrst í Kaplakrikanum, þá tíu ár í Trönuhrauni, nú erum við á Rauðhellu en stefnum á að flytja á Dofrahellu á næsta ári þar sem við erum að byggja okkar eigið húsnæði,“ segir Grétar Jón sem kann orðið ákaflega vel við sig í Hellnahverfinu enda mikil uppbygging og þjónusta þar í kring. „Iðnaðurinn er að flytjast hingað og maður flytur þá bara með.“

Nýsmíði og viðhald

Stjörnustál tekur að sér alla almenna stálsmíði, hvort sem er það er nýsmíði, viðhald eða viðgerðir. Þá vinnur fyrirtækið jafnt á stáli, áli eða rústfríu efni. „Þetta skiptist nokkuð jafnt milli viðhalds og nýsmíði en við vinnum sem dæmi fyrir nokkur stórfyrirtæki eins og Húsasmiðjuna, Samskip og Skeljung sem og fyrir ýmsa byggingaverktaka. Við erum sem dæmi í viðhaldsvinnu í vöruhúsum, gerum við gáma og sjáum líka töluvert um uppsetningu og viðhald á rekkakerfum á lagerum og vöruhúsum.“

Þegar kemur að nýsmíði þá eru samkvæmt Grétari Jóni svalir, handrið og stigar oft meðal verkefna en Stjörnustál útbýr einnig mikið af stálbitum þegar kemur að breytingum á húsnæðum.  

Byggja eigið húsnæði

Stjörnustál vinnur alla jafna á nokkuð breiðum grunni og nú er fyrirtækið að einhverju leiti komið í byggingageirann þar sem þeir eru sjálfir að byggja nýja húsið við Dofrahellu. „Ég var búinn að horfa á þessa lóð í langan tíma þegar ég ákvað síðan að láta slag standa. Þessa dagana erum við á fullu að vinna í grunninum en ég flyt húsið sjálft, sem er 1400 fm, inn frá Tyrklandi í fjölmörgum gámum sem koma til landsins í nóvember,“ segir Grétar Jón sem er greinilega spenntur fyrir þessu verkefni. Ætlunin er að nýta hluta hússins fyrir Stjörnustál og svo leigja eða selja restina af húsinu.    

Getur bætt við sig starfsfólki

Í dag er fyrirtækið með fjóra starfsmenn í vinnu en í gegnum árin hafa starfsmenn verið á bilinu þrír til sjö. „Ég hef líka verið með skólastráka hjá mér í gegnum árin sem vinna hér á sumrin og með skóla og gott að eiga þá að þegar á þarf að halda. Það er annars töluverður skortur á faglærðu fólki á þessu sviði og ég gæti sannarlega bætt við mig hæfu starfsfólki,“ segir Grétar Jón sem ræður þó einnig til sín verktaka í tímabundin verkefni eins og núna í nýbyggingunni.

Fjölbreytileikinn skemmtilegastur

Aðspurður um hvað sé skemmtilegast við vinnuna segir Grétar Jón strax að það sé svo margt. „En ætli það sé ekki helst fjölbreytileikinn. Ég er að fást við svo mörg mismunandi verkefni og það er skemmtilegt. Þá er einnig gaman að takast á við ýmsar áskoranir. Fólk kemur oft til mín með einhverjar hugmyndir og þá er það mitt að finna út úr verkefninu með þeim, þróa og leita lausna.“

Fínt að reka fyrirtæki í Hafnarfirði

Grétar Jón segir að það sé fínt að reka fyrirtæki í Hafnarfirði. Það séu mörg fyrirtæki að flytja hingað og hann þurfi því oft ekki að leita langt að þjónustu. „Ég sæki flest allt mitt stál hjá hafnfirsku fyrirtæki og á í góðu samstarfi við ýmsa nágranna. Þetta er líka fallegur bær og við vinnufélagarnir skreppum nú stundum inn í hjarta bæjarins í hádeginu og fáum okkur að borða.“

Mótorsport og ferðalög

Þegar kemur að áhugamálum þá segist Grétar Jón að vinnan taki ákaflega mikinn tíma, sérstaklega núna þegar hann sé að byggja. „Ég reyni þó að vera með fjölskyldunni í frítíma mínum og hef líka verið í mótorsporti í gegnum árin, mótorhjól á sumrin og snjósleði á veturna. Þá er líka alltaf gaman að ferðast þá sérstaklega til útlanda. Ég er einmitt á leiðinni til Tyrklands í næstu viku í tengslum við nýbygginguna en ætla að lengja þá ferð og fara í smá frí í leiðinni,“ segir Grétar Jón að lokum.  

 

 

 

 

Read More
Markaðsstofa Hafnarfjarðar Markaðsstofa Hafnarfjarðar

Fegurð snyrtistofa

Á snyrtistofunni Fegurð á Linnetstígnum má m.a. fara í andlitsmeðferð, vöðvabólgunudd og kaupa ýmsar húðlæknavörur. Við hittum hjónin og eigendurna Berglindi Sveinu Gísladóttur og Viktor Reinoldsson til að kynnast rekstrinum.

Á snyrtistofunni Fegurð á Linnetstígnum má m.a. fara í andlitsmeðferð, vöðvabólgunudd og kaupa ýmsar húðlæknavörur. Við hittum hjónin og eigendurna Berglindi Sveinu Gísladóttur og Viktor Reinoldsson til að kynnast rekstrinum.  

Fyrirtæki vikunnar

Á snyrtistofunni Fegurð má m.a. fara í andlitsmeðferð, vöðvabólgunudd og kaupa ýmsar húðlæknavörur.

Fjölbreyttar meðferðir og ráðgjöf

Fegurð hefur verið starfandi frá árinu 2005 og var fyrstu árin í Grafarvoginum. „Þegar okkur bauðst hentugt húsnæði hér í Hafnarfirði árið 2015 vorum við ekki lengi að taka því,“ segir Berglind sem hefur alla tíð búið í Hafnarfirði og vildi gjarnan vera með snyrtistofuna sína hér í bænum.

Berglind er snyrtifræðingur með meistarabréf og hefur starfað í faginu í um 20 ár en Viktor er nuddari og verið á stofunni í tíu ár. „Við erum með fjölbreytt úrval meðferða og veitum einnig mikið faglega ráðgjöf, bæði varðandi meðferðir á stofunni eða vörunotkun heima fyrir,“ segir Viktor og Berglind bætir við að stór hluti rekstrarins sé verslunin bæði á staðnum og á vefnum en þau keyra sjálf út vörur á höfuðborgarsvæðinu á kvöldin eða fara með pakka á pósthúsið.

Sérfræðingur í andlitsmeðferðum

Á stofunni starfar ásamt Berglindi annar snyrtifræðingur og bjóða þær upp á fjölmargar gerðir af andlitsmeðferðum, fót- og handsnyrtingu, litun og plokkun sem og vaxmeðferðir. „Ég er mest í sérhæfðum andlitsmeðferðum og til mín kemur gjarnan fólk sem er að kljást við einhver húðvandamál og ég hjálpa þeim sem dæmi að leiðrétta rósaroða eða vinna á bólum. Margir koma þá til mín vikulega í einhvern tíma en þar á milli er ströng heimavinna og mikilvægt að fólk sé tilbúið að skuldbinda sig í meðferðina. Ég get bara gert vissa hluti, viðkomandi verður að sinna meðferðinni þess á milli,“ segir Berglind ákveðin.

Sérhæft nudd

Að sögn þeirra hjóna bjóða margar snyrtistofur upp á nudd enda það hluti af námi snyrtifræðinga. Þau eru aftur á móti með fjölbreyttara úrval af nuddi og ýmsar sérhæfðar meðferðir þar sem Viktor er sérfræðingur í því fagi. „Klassískt vöðvabólgunudd er vinsælast en ég er einnig með íþróttanudd, sogæðanudd og svokallaða kínverska bollameðferð eða cupping,“ segir Viktor sem á marga viðskiptavini sem hafa komið til hans í mörg ár og þeir á ýmsum aldri, mikið til fólk sem vinnur á skrifstofu en einnig ungt fólk í íþróttum sem er að glíma við einhver meiðsli.

Ampúlur vinsælastar

Í vefverslun Fegurðar, þar sem nú er haustútsala, sem og á stofunni er hægt að kaupa mikið af af húðlæknavörum frá Þýskalandi sem og ýmsar naglavörur. „Ampúlurnar eru vinsælastar og við með margar mismunandi gerðir. Ampúla er nokkurs konar orkuskot fyrir húðina sem dregur úr þreytumerkjum og gefur húðljóma. Þá hindrar virka efnið í henni niðurbrot kollagens og örvar nýmyndun,“ segir Berglind og bætir við að vinsæla jóladagatalið þeirra fari bráðum að koma en í því eru mismunandi gerðir af ampúlum.

Þarfir breytast með árunum

Snyrtistofan á mjög marga fasta viðskiptavini sem koma til þeirra reglulega. „Reksturinnn byggist í raun að mestu leiti á viðskiptavinum sem hafa verið hjá okkur í langan tíma. Til mín koma enn í dag konur sem ég tók í meðferðir fyrir 20 árum og margir sem voru hjá mér í Grafarvoginum koma bara núna hingað til mín í Hafnarfjörðinn,“ segir Berglind og gantast með að þarfirnar breytist þó með árunum. „Tvítuga stelpan sem kom til mín fyrir 20 árum sækir í aðra þjónustu í dag. Hlutir og þarfir breytast hjá fólki með aldrinum.“

Viktor segir að biðtími sé því oft um fjórar til sex vikur fyrir þá sem eru að koma nýir inn. Fastaviðskiptavinir bóki hins vegar vanalega strax næsta tíma og sumir eigi sem dæmi nú þegar bókaða nokkra tíma fram að jólum.

Hjálpin og samskiptin skemmtilegust

„Það er ákaflega gefandi að hjálpa fólki og geta sérsniðið meðferðir að þeirra þörfum. Sumir vilja bara slökun meðan aðrir vilja að ég taki vel á þeim,“ segir Viktor aðspurður um hvað sé skemmtilegast við vinnuna.

Berglind segir að fyrir sig sé starfið afar félagslegt og hún hafi myndað vinskap við marga viðskiptavini. „Það er því skemmtilegast að eiga samskipti við fólk. Kæta, bæta og leiðrétta en einnig að kenna fólki húðumhirðu. Verandi líka kennaramenntuð þá er einmitt kennsluhluti starfsins ákaflega gefandi.“

Jákvæður smáborgarabragur

Aðspurð um hvað sé best við Hafnarfjörðinn er Berglind fljót að svara að það sé sjórinn og miðbærinn. „Ég verð að sjá sjó en síðan er það miðbærinn þar sem hjartað slær og sál bæjarins er að finna. Bland af þessu gamla og nýja er eitthvað sem ég kann að meta.“ Viktor nefnir að hér ríki fallegur smáborgarbragur. „Þetta er smábær mínus allt það neikvæða sem í þeim má stundum finna. Þetta er nefnilega jákvæður bær.“

Þau hjónin búa á Völlunum og segja að þar sé dásamlegt að vera með alla óspilltu náttúruna í bakgarðinum sem þau nýta óspart þegar þau fara út með hundinn.

Listleikföng og ferðalög

Þegar Berglind og Viktor eru ekki í vinnunni þá snýst lífið um fjölskylduna og leikfangasmíði Viktors. „Ég hanna, smíða og mála action fígúrur og styttur sem eru í raun handgerðir listmunir. Þetta er stór markaður í Bandaríkjunum, Þýskalandi og Brasilíu og ég sel í raun flest þangað og fer reglulega til LA og Las Vegas á sýningar,“ segir Viktor sem hefur safnað gömlum leikföngum frá því hann var krakki.

„Þetta er mjög spennandi heimur og ég og krakkarnir förum oftast með honum á þessar sýningar. Í eitt sinn hittum við sem dæmi Matt Groening, höfund Simpson þáttanna og hann var ákaflega ánægður með Simpson fígúrurnar sem Viktor hefur útbúið,“ segir Berglind greinilega stolt af sínum manni sem hefur líka selt Snoop Dogg eina styttu.

 

Read More
Markaðsstofa Hafnarfjarðar Markaðsstofa Hafnarfjarðar

Og synir

Byggingaverktakafyrirtækið Og synir ehf starfaði til fjölda ára á Reyðarfirði en flutti í Hafnarfjörðinn árið 2020. Við hittum hjónin og eigendurna Þorstein Erlingsson og Heiði Hreinsdóttur til að kynnast rekstrinum.

Byggingaverktakafyrirtækið Og synir ehf starfaði til fjölda ára á Reyðarfirði en flutti í Hafnarfjörðinn árið 2020. Við hittum hjónin og eigendurna Þorstein Erlingsson og Heiði Hreinsdóttur til að kynnast rekstrinum.  

Fyrirtæki vikunnar

Byggingaverktakafyrirtækið Og synir ehf starfaði til fjölda ára á Reyðarfirði en flutti í Hafnarfjörðinn árið 2020.

Húmor sem festist

Starfsemi Og synir má rekja aftur til ársins 2003 þó fyrirtækið hafi ekki verið formlega stofnað fyrr en árið 2007 og þá fengið nafnið sitt. Aðspurður um nafnið segir Þorsteinn að öll nöfn sem hann var spenntur fyrir hafi verið í notkun og þá hafi hann farið að fíflast með að vera bara Og synir og vísa þar með í fjölmörg fyrirtæki sem eru með það í seinni hluta síns heitis. „Þetta var því í raun smá húmor í upphafi en svo fannst okkur þetta bara vera hið fínasta nafn og ég ávallt verið sáttur við það.“

Fyrirtækið hefur í gegnum árin sinnt fjölbreyttum viðhaldsverkefnum, unnið í nýbyggingum, tekið þátt í útboðsverkefnum og þjónustað húsbyggjendur við byggingarstjórn og verkefnastýringu. Þá taka þau einnig að sér ástandsskoðanir fasteigna og mygluskoðanir til dæmis með hitamyndavélum, rakamælum og öðrum mælitækjum.

Auknir vaxtarmöguleikar

Fyrirtækið var orðið rótgróið á Reyðarfirði og starfaði með mörgum góðum iðnaðarmönnum þegar þau hjónin tóku ákvörðun um að flytja á höfuðborgarsvæðið. „Þetta var vissulega mjög stórt skref og við þurftum í raun að byrja upp á nýtt. Finna nýja samstarfsaðila, byggja upp nýtt tengslanet og leita eftir verkefnum á alveg nýjum markaði,“ segir Heiður en í dag hefur fyrirtækið náð að koma sér upp góðum hóp af samstarfsaðilum en fyrir byggingaverktakafyrirtæki eins og þau er nauðsynlegt að eiga í góðu samstarfi við iðnmeistara í öllum greinum sem koma að byggingum ásamt jarðverktökum og öðrum þjónustuaðilum.

Á sama tíma eru að sögn Þorsteins mun meiri vaxtarmöguleikar hér á höfuðborgarsvæðinu og í raun hafi flutningurinn gert fyrirtækinu gott og áherslur þess breyst. „Við getum tekið þátt í mun fleiri útboðum en áður og þurfum ekki heldur að eiga eins mikinn lager enda stutt að nálgast birgðir, eitthvað sem var ekki raunin fyrir austan.“

Stórir verkkaupar

Og Synir leggur áherslu á að vera með heildarlausnir og hafa umsjón með verkefni frá A til Ö. „Okkar stærstu verkkaupar eru Kópavogsbær, Reykjavíkurborg, Ofanleiti og Landspítalinn en öll þau verkefni snúast um viðhald á byggingum,“ segir Heiður og bætir við að stærsta verkefnið þeirra þessa dagana sé Verzlunarskólinn en þar er verið að skipta um alla glugga og sinna öðru viðhaldi. Þorsteinn nefnir í því samhengi að þau hafi keypt gluggauppsetningardeild fyrirtækisins Megna í fyrra og þeim kaupum hafi fylgt ýmis tæki og tól sem og verkefni.

Þá er fyrirtækið einnig með nokkur verkefni fyrir einstaklinga og húsfélög sem snúa bæði að viðhaldi og nýbyggingum.

Nýtt gæðakerfi

Stefna fyrirtækisins í gæðamálum er mjög skýr, allur frágangur og efnisval fullnægir ströngustu kröfum kaupenda og til að tryggja gæði vinnur fyrirtækið eftir gæðahandbók. „Við vorum líka að taka nýtt gæðakerfi í notkun fyrir tveimur mánuðum og það er gjörbylting í utanumhaldi og rekjanleika,“ segir Þorsteinn og bætir við að kröfurnar séu orðnar afar strangar og skýrar frá verkkaupum. Heiður bætir við að það sé mikið öryggi fólgið í því að vera með allt verkferli rekjanlegt. „Ef eitthvað kemur upp á er mjög gott að geta farið inn í kerfið og sótt allar upplýsingar á einu stað.“

Flokkun úrgangs og vistvæn hús

Umhverfismál eru Þorsteini hugleikinn og hann segir að það sé nauðsynlegt að huga að þeim af fjölmörgum ástæðum. „Eitt stærsta skrefið er að flokka úrganginn á vinnustöðum og setja ekki allt í einn gám eins og venja var áður. Þetta hefur reynst auðveldara á nýbyggingasvæðum en erfiðara í viðhaldsverkefnum. Við leggjum okkur núna fram við að flokka byggingaúrganginn í sundur og farga því í sitthvoru lagi s.s. málma, plastefni, timbur og urðun. Þó það taki stundum tíma þá fylgir því fjárhagslega mikill sparnaður. Það er sem dæmi hátt í 70% dýrara að henda timbri í bland/urðunar gáminn í staðin fyrir timburgáminn,“ segir Þorsteinn.

Þá vilja Þorsteinn og Heiður taka að sér fleiri verkefni sem tengjast byggingu vistvænna húsnæða. „Það er bullandi þróun í gangi, sólarselluþök, hreinsibúnaður fyrir klósett og ýmis byltingarkennd hönnun sem við viljum gjarnan fá að taka þátt í.“

Á teikniborðinu er núna parhús sem Þorsteinn hannaði með vistvænar lausnir að leiðarljósi ásamt því að hönnunin á að fyrirbyggja myglumyndun.

Skemmtilegast að sjá árangur

Aðspurð að því hvað sé skemmtilegast við vinnuna segja þau eftir nokkra umhugsun að það sé að sjá árangurinn af því sem maður er að gera. Hlutir sem maður hefur stefnt að gangi upp. „Við erum núna sem dæmi að sjá árangurinn að því að hafa flutt, þetta var erfitt en árangur erfiðisins er að skila sér og við munum skila hagnaði á þessu ári.“

Hraunvallaskóli og Hvaleyrarvatn

Fjölskyldan býr á Völlunum og kann mjög vel við sig. „Við höfðum heyrt góðar sögur af Hraunvallskóla og það var í raun ástæðan fyrir því að við komum í Hafnarfjörðinn,“ segir Þorsteinn og bætir við að honum finnist geggjað að búa hérna og vilji núna alls ekki fara eitthvað annað. Heiður segir að það sé þeim líka mikilvægt að vera nálægt náttúrunni, eitthvað sem margir sem koma utan af landi leggja áherslu á. „Hvaleyrarvatnið er æði og þangað fer ég oft,“ segir hún og er einnig ánægð með að hafa skrifstofuna nálægt heimilinu, eins og þau voru vön fyrir austan.

Veiði og fjallgöngur

Þegar spurt er um áhugamál er Þorsteinn fljótur að svara og segir veiði. „Ég fer bæði í skot- og  stangveiði en nú er vissulega oft aðeins lengra að fara í skotveiði.“  Heiður segir að þau fjölskyldan séu mikið fyrir útivist og ferðalög og sjálf fari hún mikið í fjallgöngur. „Ég er búin að kynnast fullt af nýjum fjöllum að undanförnu og dásamlegt að hafa nokkur hér í nágrenninu,“ segir Heiður að lokum.

Read More
Markaðsstofa Hafnarfjarðar Markaðsstofa Hafnarfjarðar

Litla gæludýrabúðin

Litla gæludýrabúðin á Strandgötunni er með afar fjölbreytt úrval af vörum fyrir gæludýr af öllum stærðum og gerðum og þar er einnig hægt að baða hundinn sinn. Við hittum Önnu Ólafsdóttir, eiganda verslunarinnar til að kynnast rekstrinum.

Litla gæludýrabúðin á Strandgötunni er með afar fjölbreytt úrval af vörum fyrir gæludýr af öllum stærðum og gerðum og þar er einnig hægt að baða hundinn sinn. Við hittum Önnu Ólafsdóttir, eiganda verslunarinnar til að kynnast rekstrinum.  

Fyrirtæki vikunnar

Í Litlu gæludýrabúðinni er fjölbreytt úrval af vörum fyrir gæludýr af öllum stærðum og gerðum og þar er einnig hægt að baða hundinn sinn.

Byrjuðu í bílskúrnum

Sögu Litlu gæludýrabúðarinnar má rekja aftur til ársins 2005 þegar systkinin Anna og Kjartan byrjuðu að flytja inn hundamat og selja í gegnum netverslun. „Við vorum fyrst í bílskúrunum okkar en það sprakk fljótt utan af sér enda oft á tíðum mjög stórar pakkningar. Við keyptum þá húsnæði á Lónsbraut sem varð líka fljótlega of lítið og við enduðum því á Melabrautinni þar sem við erum einmitt með lagerinn okkar í dag,“ segir Anna.

Hundabaðið vinsælt

Eftir að hafa verið með net- og heildverslun í yfir tíu ár segir Anna að þau hafi ákveðið að opna sína eigin verslun. „Hugmyndin þar á bakvið var í raun sniðuga hundabaðið sem við vorum búin að uppgötva og vildum bjóða Íslendingum upp á. Þegar við opnuðum þann 1. október 2016 var þetta  fyrsta hundabað sinnar tegundar hér á landi. Snilldin við það er að hundaeigandinn getur sjálfur baðað hundinn og blásið feldinn með aðstoð starfsfólks í fullkominni aðstöðu. Hundarnir eru nefnilega miklu afslappaðri ef eigandi sér um þvottinn og eru ekki skildir eftir í ókunnugu umhverfi.“

Að sögn Önnu er hundabaðið ákaflega vinsælt og margir viðskiptavinir sem koma reglulega með hundinn sinn í bað og panti þá tíma í Noona appinu. „Stundum gerast þó einhver slys og fólk kemur hlaupandi inn með afar skítugan hund og þá reynum við oftast að bjarga málinu,“ segir Anna og brosir. Í baðinu stendur hundurinn í góðri vinnuhæð fyrir eiganda sinn, sjampó og næring blandast í sturtuhaus sem tryggir jafna dreifingu um feld og svo er öflugur blásari til að þurrka feldinn í lokin. Í herberginu er að sögn Önnu einnig fín aðstaða til að greiða hundunum og dúlla við þá. Hún ítrekar jafnframt að baðið sé ávallt sótthreinsað eftir hvern hund og þau séu með rekstrarleyfi frá Heilbrigðiseftirlitinu.  

Hollur matur

Í Litlu gæludýrabúðinni má annars fá margar gerðir af gæludýrafóðri fyrir hunda, ketti og smádýr eins og fugla og fiska. Anna segir að þau flytji vörurnar inn sjálf og leggi upp úr gæðum. „Allur matur sem við seljum er hollur, það eru engar aukaafurðir, litarefni eða rotvarnarefni í hunda- og kattamatnum okkar. Þá fór ég einnig að heimsækja þá sem gera fuglanammistangirnar okkar og sá hversu vel var staðið að öllu og stangirnar bakaðar á staðnum í verksmiðju rétt fyrir utan Barcelona.“

Hunda- og kattamaturinn sem seldur er í Litlu gæludýrabúðinni kemur annars allur frá Ameríku og þau búin að vera með sömu merkin allt frá upphafi enda nýtur hann mikilla vinsælda. Þá selst einnig mikið af íslenskum þurrkuðum lambahornum og Anna segir að hún vildi gjarnan vera með meira af íslensku hundanammi en því miður sé lítið framleitt af því í dag.

Fatnaður, leikföng ofl.

Í versluninni er mikið úrval af fatnaði, leikföngum, þjálfunarvörum, taumum og ólum svo eitthvað sé nefnt og vöruúrvalið hefur aukist jafnt og þétt í gegnum árin. „Hundaföt eru alltaf að verða vinsælli og seljum við töluvert af hlífðarfatnaði, úlpum og regnkápum fyrir hunda í öllum stærðum. Þá eru sumir einnig að kaupa skó fyrir hunda í fjallgöngurnar enda geta þeir orðið sárir á fótunum.“

Að sögn Önnu er salan ögn meiri í versluninni heldur en á netinu en fólk vill greinilega koma og skoða, máta og snerta sérstaklega þegar kemur að hundafötum.

Samskiptin skemmtilegust

Aðspurð um hvað sé skemmtilegast við vinnuna segir Anna að það séu samskiptin við dýraeigendur sem komi til þeirra. „Það er oft mikið fjör hérna sérstaklega þegar verið er að baða hundana. Það er gaman að aðstoða fólk við það og fylgjast með því að spjalla við hundinn sinn og taka kannski myndir af honum. Fólkið sem kemur hingað hugsar líka greinilega ákaflega vel um dýrin sín, enda eru þau oft á tíðum eins og börnin þeirra.“

Rólegheit og allt til alls

Það besta við Hafnarfjörð að mati Önnu eru rólegheitin og að rölta um miðbæinn. „Það er svo notalegt að búa hér. Ég er búin að vera á Völlunum í nokkur ár og finnst ég eiginlega vera upp í sveit sérstaklega þegar ég heyri fuglasönginn,“ segir Anna sem hefur búið hér síðan árið 1988 og gæti ekki hugsað sér að fara héðan.

Þá segist hún stundum ekki fara út úr bænum svo vikum skipti enda allt til alls hér og hún leggi sig fram við að beina viðskiptum sínum til hafnfirskra fyrirtækja. „Ég hef verið að uppgötva nokkur góð þjónustufyrirtæki í Hellnahverfinu að undanförnu en ég varð líka vör við það í Covid að margir uppgötvuðu Litlu gæludýrabúðina á Strandgötunni í göngutúrum sínum um bæinn, eitthvað sem var jú vinsælt í Covid,“ segir Anna og brosir.

Desember í Hafnarfirði er einnig í uppáhaldi hjá Önnu. „Það er gaman að vera í búðinni rétt fyrir jólin sérstaklega á Þorláksmessu þegar það er vín- og skötulykt af mörgum og fólk að kaupa jólagjafir handa gæludýrunum sínum en í búðinni er hægt að fá sérstaka jólapoka fyrir hunda og ketti.“

Fjölskyldan og gönguferðir

Þegar Anna er ekki í vinnunni þá nýtur hún þess að vera með fjölskyldunni. „Við hjónin eigum fimm börn og litla kjarnafjölskyldan telur orðið 25. Nýverið varð ég líka langamma og finnst frábært að vera með fjölskyldunni, borða saman og sækja barnabörnin á leikskólann,“ segir Anna stolt.

Þegar hún þarf að hreinsa hausinn verða göngutúrar oftast fyrir valinu og leiðin liggur þá oft að Ástjörn eða Hvaleyrarvatni. „Í sumar gekk ég líka 270 km á Jakobsveginum sem var stórkostleg upplifun og mjög gefandi,“ segir Anna að lokum.

Read More
Markaðsstofa Hafnarfjarðar Markaðsstofa Hafnarfjarðar

Véltak

Véltak hefur verið starfandi í yfir 50 ár og var á sínum tíma með verslun og vélsmiðju en í dag framleiðir fyrirtækið mengunarbúnað fyrir vélarrúm skipa og flytur inn ýmsar vörur í tengslum við mengunarvarnir. Við hittum Guðbjart Einarsson eigenda fyrirtækisins til að kynnast rekstrinum.

Véltak hefur verið starfandi í yfir 50 ár og var á sínum tíma með verslun og vélsmiðju en í dag framleiðir fyrirtækið mengunarbúnað fyrir vélarrúm skipa og flytur inn ýmsar vörur í tengslum við mengunarvarnir. Við hittum Guðbjart Einarsson eigenda fyrirtækisins til að kynnast rekstrinum.  

Fyrirtæki vikunnar

Véltak hefur verið starfandi í yfir 50 ár en í dag framleiðir fyrirtækið mengunarbúnað fyrir vélarrúm skipa og flytur inn vörur í tengslum við mengunarvarnir

Varð að hætta á sjó

Guðbjartur er vélstjóri og starfaði sem slíkur á sjó til nokkurra ára en varð að hætta út af of mikilli mengun í vélarúminu, eitthvað sem lungun hans þoldu ekki. Eftir nokkur ár í landi stofnaði hann því fyrirtækið Véltak sem hefur verið á Hvaleyrarbraut 3 frá árinu 1976 en hóf starfsemi sína í Reykjavík árið 1970. „Ég var að leita að húsnæði fyrir fyrirtækið í nálægð við höfn og hafði oft keyrt hér framhjá á leið minni um hafnarsvæðið og svo fór að ég keypti allt húsnæðið, en hér var þá starfandi netaverkstæði,“ segir Guðbjartur um komu fyrirtækisins til Hafnarfjarðar og bætir við að húsnæðið hafi verið afar illa farið og hann hafi í raun þurft að rífa niður helming þess og endurbyggja.

Vélsmiðja og verslun

Véltak var fyrstu árin aðallega að framleiða vélar og vélarhluti í skip og þjónusta þau í tengslum við þessa smíði og almennt viðhald. Vélar þeirra fóru víða og voru meðal annars seldar til Hollands, Noregs og Bretlands. Árið 1980 opnaði fyrirtækið síðan verslun á jarðhæðinni sem seldi meðal annars háþrýstrivökvabúnað, flutti inn krana og var með úrval verkfæra og tækja til iðnaðar sem og ýmsar pappírsvörur. „Á þessum tíma vorum við með um 20 til 25 manns í vinnu og nóg að gera,“ segir Guðbjartur en bætir þó við að stærsta verkefni fyrirtækisins á þessum rúmum 50 árum er smíði á tveimur stórum asfalttönkum og bygging malbikunarstöðvar árið 1973 fyrir Reykjavíkurborg.

Heilsufar sjómanna

Mengunarvarnir hafa verið Guðbjarti afar hugleiknar til fjölda ára og svo fór að hann smíðaði sérstaka vél sem hreinsar andrúmsloftið í vélarrúmi stærri skipa og flytur inn mengunarbúnað á minni vélar. „Olíumettað andrúmsloft í vélarúmum getur valdið ýmsum kvillum og jafnvel krabbameini og það er betra að hreinsa vélina en lungun,“ segir Guðbjartur ákveðinn og bendir á úttekt Dr. Vilhjálms Rafnssonar sem finna má á vefsíðu Véltaks.

Vélin sem hann kallar OGS (Oil/Gas Crank Case Separator) kom fyrst á markað árið 2000 en um er að ræða sjálfstæða einingu til uppsetningar í vélarrúmi og hægt er að tengja við allar tegundir véla. Hún dregur úr smurolíunotkun og kemur í veg fyrir olíueim í vélarúmi sem og minnkar hættu á eldi svo eitthvað sé nefnt. „Við erum nú komin með OGS 2 tölvuútgáfu af búnaðinum en það er stöðug þróun í gangi enda fleytir tækninni ört áfram.“

Vélar smita út frá sér með aldrinum

Véltak flytur einnig inn vökvakerfi, hreinsibúnað og eldsneytissíur frá Bandaríkjunum, Þýskalandi og Bretlandi sem varna mengun í skipum. Guðbjartur segir að þó vélar í skipum séu orðnar minna mengandi í dag þá eigi sér alltaf stað viss mengun inn í sjálfu vélarrúminu og sérstaklega þegar vélar eru orðnar fimm til tíu ára gamlar þá byrji þær að smita út frá sér. Hann segir að sem betur fer séu útgerðir orðnar meðvitaðar um þetta og vélin hans komin í þónokkur skip bæði hér heima sem og erlendis. „Það er samt mikilvægt að vera alltaf á verða og minna á mengunarvarnir en fólk á það til að verða bara samdauna. Það er jú mikið rætt um mengun á götum borga en innri mengun í skipum er því miður alls ekki minni. Þetta snýr að heilsu fólks og í loftmengun eru allskyns efni sem eru ekki góð fyrir fólk,“ segir Guðbjartur.

Skemmtilegast að hitta fólk

Þó Guðbjartur sé orðinn rúmlega áttræður vill hann alls ekki hætta að vinna og segir að hún gefi sér enn ákaflega mikið. Það skemmtilegasta sé að hitta fólk og hafa eitthvað að sýsla. „Mér finnst frábært að umgangast fólk sem maður þekkir og talar mitt mál, þá á ég við fagmál,“ segir Guðbjartur sem hefur alla tíð verið öflugur í félagsmálum tengdu starfinu og var meðal annars forseti iðnnemasambandsins þegar hann var að læra, formaður félags járniðnaðarnema og sat í  stjórn meistarafélagsins í mörg ár og hittir enn í dag mánaðarlega hóp skólabræðra sinna úr vélskólanum.

Höfnin og upplandið

Guðbjartur hefur búið í Hafnarfirði frá árinu 1974 og kann ákaflega vel við sig og segir að stór hluti  fjölskyldu sinnar búi í bænum. Aðspurður um uppáhaldsstaðinn er hann fljótur að nefna höfnina. „Ég held að það sé með mig eins og marga sem koma frá litlum sjávarplássum úti á landi að höfnin sé visst aðdráttarafl og ég fer líka oft í göngutúr út á manir til að vera nálægt sjónum,“ segir Guðbjartur sem ólst upp á Patreksfirði.

Þá er upplandið honum jafnframt mikilvægt en hann gengur reglulega á Helgafellið og segist í raun alltaf fara í um fjögurra tíma göngu á sunnudögum í upplandinu og það hafi hann gert í mörg ár. „Ég geng reyndar minna á sumrin en finnst eiginlega best að ganga í stormi og rigningu á veturna, þá er sérstaklega gaman.“

Útivist og félagsmál

Þegar Guðbjartur er ekki í vinnunni þá nýtur hann þess að vera úti. Gengur mikið, eins og kom fram hér að ofan, og ferðast líka gjarnan um landið og segist hafa farið nokkra hringi í kringum það í gegnum árin. „Við erum líka með sumarbústað í Stykkishólmi og eyðum mörgum stundum þar með fjölskyldunni.“

Guðbjartur er einnig félagi í Rótarýklúbb Hafnarfjarðar og búinn að vera þar í 44 ár og segir þann félagsskap vera ákaflega gefandi. „Þegar ég var forseti komum við fallegu útsýnisskífunni fyrir upp á Helgafellið, eitthvað sem ég er ákaflega stoltur af,“ segir Guðbjartur brosandi að lokum.

Read More
Markaðsstofa Hafnarfjarðar Markaðsstofa Hafnarfjarðar

GO Campers

GO Campers í appelsínugula húsinu á Helluhrauni leigir út bíla sem þeir innrétta sjálfir svo fólk geti sofið í þeim. Við hittum Benedikt Helgason framkvæmdastjóra og einn af tveimur eigendum fyrirtækisins til að kynnast rekstrinum.

GO Campers í appelsínugula húsinu á Helluhrauni leigir út bíla sem þeir innrétta sjálfir og fólk getur sofið í. Við hittum Benedikt Helgason framkvæmdastjóra og einn af tveimur eigendum fyrirtækisins til að kynnast rekstrinum.  

Fyrirtæki vikunnar

GO Campers leigir út bíla sem þeir innrétta sjálfir og fólk getur sofið í.

Úr 24 bílum í 220

GO Campers leigir út sendibíla í mismunandi stærðum sem fólk getur jafnframt gist í. „Við erum búin að vera starfandi frá árinu 2014 en fyrsta árið var ég eini starfsmaðurinn, alltaf á hlaupum og svaf frekar lítið. Þá vorum við með 24 bíla og opið allan sólarhringinn,“ segir Benedikt og bætir við að það hafi verið mikill vöxtur í upphafi og fyrirtækið strax komið með helmingi fleiri bíla árið eftir en í dag eru þeir með um 220 bíla til leigu.

Fyrstu árin var fyrirtækið að kaupa notaða sendibíla og lét breyta þeim fyrir sig. Í dag kaupa þeir hins vegar einungis nýja bíla og eru með sitt eigið breytingaverkstæði sem sér um að strípa bílanna alveg að innan, síðan eru þeir einangraðir og innréttaðir allt frá gólfi upp í topp. „Það er misjafnt hvað þetta ferli tekur langan tíma, stundum tvo til þrjá daga en getur farið upp í tvær vikur, allt eftir stærð og gerð bílsins,“ segir Benedikt en fyrirtækið er með tvo til þrjá starfsmenn á breytingaverkstæðinu í fullri vinnu allan ársins hring.

Starfstöðvar víðsvegar um Hafnarfjörð

Höfuðstöðvar GO Campers eru á Hellnahrauni en þar er móttakan, skrifstofur, verkstæði, þvottastöð og bílaplan fyrir hluta flotans. „Við erum samt á nokkrum stöðum í Hafnarfirði enda með okkar eigið breytingaverktæði sem og dekkjaverkstæði og þá þurfum við líka að leigja nokkur bílaplön, bæði hér í bænum en einnig suður með sjó í nálægð við Leifstöð.“ Benedikt á fyrirtækið ásamt Steinarri Lár, en þeir hafa þekkst frá unglingsaldri en þó ekki verið áður saman í rekstri. Á Hellnahrauni er jafnframt systurfyrirtæki GO Campers sem er GO Car Rental sem Steinarr á jafnframt ásamt öðrum og fyrirtækin samnýta ýmsa aðstöðu sem og starfsfólk.

„Ég er núna með 22 starfsmenn í vinnu enda háannatími en í vetur verðum við líklega með um 10 starfsmenn en flestir þeirra hafa verið hjá okkur í nokkur ár og einhverjir alveg frá upphafi,“ segir Benedikt og talar um mikilvægi þess að hafa gott starfsfólk enda ákaflega mikilvægt að veita framúrskarandi þjónustu og skila af sér ánægjum viðskiptavinum.

Átta ára rússibanareið

Á þessum átta árum sem fyrirtækið hefur verið starfandi hefur ýmislegt gengið á og margir óvæntir utanaðkomandi atburðir haft mikil áhrif á reksturinn. Eins og fyrr segir óx fyrirtækið hratt í byrjun en staðan var orðin nokkuð góð og þægileg árið 2019 þegar WOW fer á hausinn og ferðamannastraumurinn snarminnkaði. „Við vorum því ekki sáttir við árið 2019 en vissum þá ekki hvað beið okkar með komu Covid. Eins og gefur að skilja var árið 2020 það allra versta frá upphafi en við reyndum samt að klóra í bakkann með því að leigja bílana út til Íslendinga um sumarið sem gekk mjög vel en tekjurnar voru vissulega bara brotabrot af því sem við höfðum reiknað með. Síðasta sumar var ágætt og við náðum að standa þetta erfiða Covid tímabil af okkur án þess að segja upp fólki, eitthvað sem ég er ákaflega stoltur af. Úrræði stjórnvalda komu sér mjög vel fyrir okkur en annars nýttum við líka tímann í almenna tiltekt í rekstri, fórum í verkefni sem höfðu legið á hakanum, skárum niður allan óþarfa kostnað og fórum í góða naflaskoðun.“

Árið 2022 hefur gengið ákaflega vel og stefnir í að verða metár þeirra í rekstri. Samkvæmt Benedikt hafa áætlanir gengið eftir og sumarið var að mestu fullbókað strax í vor en flestar bókanir koma vanalega inn í apríl og maí. Varðandi framtíðina þá segir Benedikt að ætlunin sé ekkert endilega að stækka flotann mikið heldur leggja upp úr því að endurnýja bílana og halda sömu gæðum í allri þjónustu.

Minnstu bílarnir vinsælastir

Nær allir viðskiptavinir GO Campers eru erlendir ferðamenn og þá eru Bandaríkjamenn stærsti hópurinn en Frakkar og Þjóðverjar fylgja þar strax á eftir, eitthvað sem er í samræmi við þann hóp sem sækir landið heim. „Við höfum verið að fá fólk til okkar alls staðar að úr heiminum en á einu ári voru viðskiptavinir okkar frá um 60 mismunandi þjóðum.“

Flestir bóka bílana með um tveggja til þriggja mánaða fyrirvara og oft í tengslum við bókun sína á flugi en meðallengd bókana er um átta dagar. „Minnstu bílarnir okkar eru vinsælastir en í þeim geta tveir gist og þeir nokkurs konar kúlutjald á hjólum,“ segir Benedikt en í stærri bílunum er svefnpláss fyrir allt að fimm manns. Þá er fyrirtækið líka með nokkra fjórhjóladrifna jeppa sem hægt er að gista í.

Skemmtilegast að sjá hluti ganga upp

Aðspurður um hvað sé skemmtilegast við vinnuna segir Benedikt það vera þegar hann sjái sumarið vera að ganga upp. „Allir bílarnir eru tilbúnir, starfsfólkið komið til starfa, viðskiptavinirnir mættir og þar er allt að gerast sem ég var búinn að vera að ímynda mér og stefna að. Mitt helsta hlutverk sem stjórnandi er nefnilega að skipuleggja og sjá til að allt gangi upp. Þó að mesti annatími fyrirtækisins sé vissulega á sumrin þá er oftast meira að gera hjá mér í aðdraganda sumarsins.“

Hann segist þó alltaf af og til hoppa í hin ýmsu störf, afgreiði sem dæmi eða þrífi bíla. „Það er líka stundum fínt að fara á skutluna en þá er ég að sækja og skila viðskiptavinum og fæ að heyra af þeirra upplifunum sem getur verið afar gefandi. Fæstir vita þá líka að ég sé framkvæmdastjóri fyrirtækisins heldur bara gaurinn á skutlunni,“ segir Benedikt og brosir.

Gott að reka fyrirtæki í Hafnarfirði

Benedikt býr ekki í Hafnarfirði, eins og stendur, en segist samt hafa annað hvort búið hér eða unnið síðan á unglingsaldri og þekki því bæinn orðið ansi vel. „Þetta er frábær og fallegur bær með góðu fólki og bæjarbrag. Æðislegir veitingastaðir og menningin blómstrar, sérstaklega núna með Bæjarbíó og svo fer ég náttúrulega í Hellisgerði fyrir jólin.“

Hann er annars ákaflega ánægður með að reka fyrirtæki í bænum. „Það er afar þægilegt að vera í bílatengdum rekstri hér enda mikið um frábær fyrirtæki allt í kring og við þurfum sjaldan að leita út fyrir Hafnarfjörðinn með aðföng eða þjónustu.“

Leikur sér úti í náttúrunni

„Ég hef átt allskyns hjól í gegnum tíðina, mótorkross og fjallahjól en nú er ég einna helst á Enduro hjóli  sem sérstök týpa af mótorhjóli sem hentar vel í náttúrulegu landslagi,“ segir Benedikt þegar hann er spurður út í áhugamálin. Þá segist hann líka gjarnan þeytast um á vélsleða og fari einnig á ýmsar veiðar þá oft með vinnufélögunum en fjölskyldan elski að ferðast bæði um landið og um heiminn.

Read More
Markaðsstofa Hafnarfjarðar Markaðsstofa Hafnarfjarðar

Sassy

Verslunin Sassy á Flatahrauni selur meðal annars undirföt og aðalhaldsfatnað fyrir öll kyn en allt hófst þetta með leitinni að hinum fullkomu leggings. Við hittum Anítu Guðnýjardóttur eiganda verslunarinnar til að kynnast rekstrinum.

Verslunin Sassy á Flatahrauni selur meðal annars undirföt og aðalhaldsfatnað fyrir öll kyn en allt hófst þetta með leitinni að hinum fullkomu leggings. Við hittum Anítu Guðnýjardóttur eiganda verslunarinnar til að kynnast rekstrinum.  

Fyrirtæki vikunnar

Verslunin Sassy á Flatahrauni selur meðal annars undirföt og aðalhaldsfatnað fyrir öll kyn en allt hófst þetta með leitinni að hinum fullkomu leggings.

Leitin að fullkomnum leggings

Upphafið af Sassy ævintýri Anítu má rekja til ársins 2019 þegar hún var að leita að leggings þar sem aðhaldið er frá lífbeini og alla leiðina upp. „Ég eignaðist þrjú börn á þremur árum og líkami minn breyttist mikið á stuttum tíma. Ég var búin að leita og leita og prófa margar gerðir en engar þeirra hentuðu mér. Ég var því komin á það að láta framleiða svona buxur en áttaði mig fljótt á því að það væri of langt og flókið ferli. Þegar ég var við það að gefast upp datt ég niður á leggings frá kólumbíska merkinu Leonisa og sá strax að þarna væri þetta komið,“ segir Aníta sem ákvað að hafa samband við framleiðandann og spyrja hvort hún gæti ekki fengið að selja þær hér á landi. Úr varð að hún pantaði 20 stykki, beið í sex vikur og hoppaði af gleði þegar hún mátaði.

Stór fylgjendahópur á samfélagsmiðlum

Aníta hafði í nokkur ár verið virk á samfélagsmiðlum og hélt meðal annars út mömmubloggi og var  dugleg á Snap Chat og var með nokkuð stóran fylgjendahóp. „Ég kynnti mínum fylgjendum buxurnar og áhuginn lét ekki á sér standa. Ég pantaði því fleiri og enn og aftur kláraðist lagerinn strax. Fyrir jólin 2019 pantaði ég því 200 leggings og allt fór á fullt, ég var komin í business og heim til mín streymdu konur sem fengu að máta. Á þessum tíma starfaði ég sem dagforeldri en er faglærður þjónn og var í þeim geira í tíu ár,“ segir Anita sem ætlaði sér aldrei í búðarrekstur og segist bara einhvern veginn hafa lent í þessu af hreinni tilviljun.

Flutti á Flatahraunið

Eftir að hafa verið með netverslun í um 18 mánuði og mikið með konur heima hjá sér að máta ákvað hún að leita eftir húsnæði fyrir verslunina. Úr varð að Sassy opnaði á Flatahrauninu í júlí árið 2021 enda einnig farin að selja aðhaldsnærbuxur, aðhaldssamfellur, sundboli og hjólabuxur frá Leonisa. „Á þessu tæpa ári erum við tvisvar búin að breyta og stækka verslunina enda framboðið alltaf að verða meira og fjölbreyttara,“ segir Aníta sem er annars sátt við staðsetninguna, hér séu næg bílastæði og auðvelt að finna verslunina en viðurkennir þó að hana dreymi um enn stærra húsnæði.

Aðgerðarfatnaður

Eitt að því sem hægt er að fá í Sassy er svokallaður aðgerðarfatnaður sem nýtist ákaflega vel og er í raun nauðsynlegur eftir hinar ýmsu lýtaraðgerðir. „Þetta gerðist eins og svo margt annað hér í Sassy hálf óvart. Viðskiptavinur sem var að fara í aðgerð sá á netinu að Leonisa væri einnig með aðgerðarfatnað og spurði hvort ég gæti pantað fyrir sig. Ég gerði það að sjálfsögðu og er í dag komin með fjölbreytt úrval af aðgerðarfatnaði og lýtalæknar farnir að benda á mig.“

Aðhaldsfatnaður fyrir karlmenn

Karlmenn eru einnig velkomnir í Sassy en Aníta segist vera sú eina á Íslandi sem selji aðhaldsfatnað fyrir karlmenn. „Ég varð vör við eftirspurn og ákvað að taka inn þessar vörur. Af hverju eiga karlmenn ekki að nýta sér aðhaldsfatnað eins og konur? Þetta snýst oft á tíðum ekki einungis um útlit heldur einnig um stuðning. Til mín koma sem dæmi margir sjómenn sem eru að vinna erfiðisvinnu og kaupa sér aðhaldsvesti sem veitir góðan stuðning við bakið. Þá er einnig hægt að fá aðhaldsboxers yfir magann og hlýraboli sem veita gott aðhald,“ segir Aníta sem skipulagði m.a. vel heppnað karlakvöld í versluninni í vetur og fékk manninn sinn til að standa vaktina. Hún segir að karlmenn séu í auknum mæli farnir að þora að koma í búðina en meirihlutinn versli þó í gegnum netið.

Brjóstaheilsa mikilvæg

Talandi um stuðning og aðhald þá er Anítu mjög umhugað að konur séu í réttum brjóstahaldarastærðum og þá sérstaklega þær sem eru með stærri brjóst. Hún fór nýverið til New York á undirfataráðstefnu og þar á meðal á brjóstahaldaranámskeið og lærði ótrúlega mikið um brjóstaheilsu. „Það minnkar sem dæmi vöðvabólgu mjög mikið að vera í réttri brjóstahaldarastærð þar sem áherslan er á að ummálið beri brjóstin frekar en axlirnar. Þetta skiptir svo miklu máli og mér finnst í raun ætti konum að vera kennt í grunnskóla hvað það gerir að vera í réttum haldara og mig langar svo að ná til þeirra allra yngstu með þetta mál,“ segir Aníta ákveðin og mælir jafnframt með að konur láti mæla brjóstaummálið reglulega þar sem brjóstin breytist og það sé ákaflega mismunandi hvaða brjóstahaldaragerð passar hverri og einni.

Fleiri merki og margar stærðir

Á ráðstefnunni í New York kynntist Aníta jafnframt mörgum nýjum merkjum og ákvað að taka nokkur þeirra inn í búðina. Þar á meðal er Nessa, pólskt brjóstahaldarafyrirtæki með skálastærðar frá B til S og nærbuxurnar má fá allt upp í 5 XL. Þá tók hún einnig inn nokkrar vörur frá bandaríska gæðamerkinu Commando, ásamt samfellum fyrir brúðarkjóla frá brasilíska merkinu Plie og þá er sending af brjóstahaldaralími frá Nood á leiðinni til landsins.

Aníta segist annars fá mikla aðstoð við val á vörum frá viðskiptavinum og fylgjendum sínum á samfélagsmiðlum. „Ég sýni oft vörurnar fyrst á Instagram og athuga viðbrögðin og ákveð þá í kjölfarið hversu mikið ég eigi að panta inn. Þessa dagana er ég að bíða eftir að fá samfellu sem fékk svo hrikalega góð viðbrögð að það duttu strax inn 70 forpantanir og enn fleiri sem vilja kaupa og ég þarf því að gera aðra pöntun strax,“ segir Aníta sem er sjálf mjög dugleg að sýna vörurnar á Instagram og fagnar sínum mjúku línum.

Persónuleg þjónusta

Viðskiptavinir Sassy eru á öllum aldri og þá á hún mjög dyggjan hóp viðskiptavina sem kemur alltaf aftur og aftur. „Ég legg mikið upp úr því að veita góða og persónulega þjónustu enda skiptir hún höfuðmáli. Ánægðir viðskiptavinir eru mín besta auglýsing og það er í raun ósjaldan sem vinnustaðahópar koma til mín en þá hefur ein í hópnum verið að dásama einhverja vöru og hinar vilja prófa,“ segir Aníta sem stendur mikið til vaktina sjálf.

Þá hefur hún einnig verið að fara út á land að selja og var sem dæmi um síðustu mánaðarmót með markað á Selfossi, Egilsstöðum og í Grundarfirði. „Ég tek þá bara búðina niður og kem öllu í bílinn og bruna af stað. Verandi sjálf utan af landi finnst mér þessi þjónusta vera mikilvæg og hluti af landsbyggðarástinni minni.“ Þá tekur Aníta einnig gjarnan við hópum í versluninni, svo sem mömmu- eða vinkonuhópum og þá komi reglulega til hennar gæsunarhópar. „Ég loka þá bara búðinni og hér myndast skemmtileg stemmning, hóparnir mega koma með veitingar og ég tek ekkert gjald og býð upp á afslátt.“

Fólkið og Skarðshlíðin

Aníta hefur búið í Hafnarfirði í átta ár en kemur frá Grundarfirði. „Maðurinn minn er úr Hafnarfirði og mér finnst frábært að búa hér og vil hvergi annars staðar vera með verslunina mína.“ Aðspurð um hvað sé best við Hafnarfjörðinn er hún fljót að svara að það sé fólkið. „Hér eru allir svo vinalegir og hér búa líka margir Grundfirðingar,“ segir Aníta og hlær.

Ef hún ætti að nefna einhvern uppáhalds stað í bænum er það í raun Skarðshlíðin en þar eru þau fjölskyldan að byggja hús. Þá finnst henni miðbærinn og höfnin líka ávallt heillandi og hér ríki einhver  sjarmerandi bæjarandi.

Ferðalög og söngur

Aníta segist elska að ferðast og hafi alltaf gert mikið af því. „Ég er mikill farfugl í mér og finnst frábært að upplifa ný lönd.“ Þá segist hún gjarnan syngja og kemur frá mjög söngelsku heimili. „Ég hef verið að syngja í brúðkaupum og öðrum veislum en það hefur reyndar eitthvað minnkað enda mikið að gera á stóru heimili og í eigin rekstri,“ segir Aníta með bros á vör að lokum.

Read More
Markaðsstofa Hafnarfjarðar Markaðsstofa Hafnarfjarðar

Lilja Boutique

Kvenfataverslunin Lilja Boutique á Strandgötunni á marga trygga viðskiptavini sem koma víða að. Við hittum Lilju Ingvarsdóttir, eiganda verslunarinnar til að kynnast rekstrinum.

Kvenfataverslunin Lilja Boutique á Strandgötunni á marga trygga viðskiptavini sem koma víða að. Við hittum Lilju Ingvarsdóttir, eiganda verslunarinnar til að kynnast rekstrinum.  

Fyrirtæki vikunnar

Kvenfataverslunin Lilja Boutique á Strandgötunni á marga trygga viðskiptavini sem koma víða að.

Alltaf blundað í mér kaupmaður

„Það hefur alltaf blundað í mér kaupmaður, allt frá því ég var krakki hef ég vitað að ég vildi eiga eigin verslun,“ segir Lilja sem lærði blómaskreytingar í Svíþjóð og var með sína eigin blómaverslun þar í nokkur ár. Við heimkomuna starfaði hún í Burkna sem og í Blómaval en skipti yfir í fatnaðinn þegar hún var ráðinn sölustjóri í Debenhams og starfaði þar í fimm ár. „Í því starfi fékk ég mjög góða reynslu sem var til þess að ég ákvað að taka skrefið og opna mína eigin verslun með vönduðum og fallegum fatnaði.“

Fyrsta árið var Lilja Boutique í mjög litlu rými á Linnetstígnum en fluttist yfir á Strandgötu 21 árið 2011 þegar Lilja og eiginmaður hennar keyptu allt húsið. „Þó við séum nýbúin að selja húsið þá verður verslunin hér áfram enda besti staðurinn í bænum og ákaflega góður andi,“ segir Lilja.

Áhersla á gæði

Í versluninni má finna fjölbreytt úrval af fatnaði og fylgihlutum en Lilja flytur allar vörur inn sjálf. Stærsti hlutinn kemur frá París en hún segir að á undanförnum árum hafi danskar vörur líka verið að bætast við sem veki mikla lukku. „Ég sel kjóla, buxur, skyrtur, peysur og boli en líka veski, töskur, hatta, höfuðskraut, silkislæður og skartgripi. Þá eru frönsku ilmvötnin afar vinsæl og nokkrar konur í áskrift af sínum ilmi en herrar geta líka fundið góðan ilm hjá mér,“ segir Lilja.  

Hún segist leggja mikið upp úr því að vera með gæðaefni og hennar reynsla er að konur sækist enn meira eftir þeim í dag. Þá verði fatnaður úr endurunnum efnum jafnframt vinsælli. „Ég bendi líka mörgum konum á að það sé óþarfi að vera að þvo flíkur oft, stundum dugi bara að viðra þær vel,“ segir hún.

Hörfatnaðurinn vinsæll

Aðspurð um vinsælustu vöruna stendur ekki á svari. „Hörfatnaðurinn er eitt af því sem dregur konur í verslunina og ég sel mikið af honum. Ég er með kjóla, skyrtur, mussur og buxur í mörgum mismunandi litum og nokkrum sniðum,“ segir Lilja en hörin er ræktuð í Frakklandi og send til Ítalíu þar sem hún unnin og saumuð.

Hún segir að hörin sé bæði góð í hita og kulda en sé sérstaklega vinsæl hjá íslenskum konum sem eru að fara í hita erlendis. Fyrstu árin var hún bara með svartar, hvítar, rauðar og hörlitaðar vörur en í dag má fá hörfatnað í öllum regnbogans litum í versluninni en þessa dagana eru bláu tónarnir vinsælastir.

Persónuleg þjónusta

Lilja segist elska vinnuna sína og standi mikið vaktina sjálf. „Ég á marga trygga viðskiptavini og hluti þeirra kemur langt að. Hingað koma sem dæmi margar konur frá Akureyri og Vestfjörðum og þeim og öllum öðrum vil ég veita persónulega og góða þjónustu. Þegar ég er að versla inn fyrir búðina þá ímynda ég mér oft viðskiptavini mína og veit hvað heillar vissar konur. Það mætti segja að ég taki í raun frá flíkur fyrir ákveðna viðskiptavini. Hringi í þær, sendi þeim myndir og spyr hvort þetta sé ekki eitthvað fyrir þær,“ segir Lilja og brosir.

Hún segir að mörgum konum líki sérstaklega vel að koma í Hafnarfjörð í fataleiðangur. Hér séu nokkrar verslanir sem hægt sé að ganga á milli, rólegt og gott andrúmsloft, engir stöðumælar og fullt af kaffihúsum. „Ég lít því ekki á hinar verslanirnar í nágrenninu sem samkeppnisaðila heldur styðjum við einmitt hvor aðra.“

Sumarið uppáhalds tíminn

Á sumrin birtir ávallt yfir búðinni þegar ljósir og bjartir litir eru allsráðandi. „Þetta er minn uppáhalds tími og þá er líka mesta salan og mikið um að vera í bænum. Núna eru sterkir litir mikið í tísku sem er ákaflega skemmtilegt og gaman að sjá konur prófa sig áfram. Hjá mörgum breytist líka litaflóran þegar hárið verður grátt þar sem grái liturinn kallar á aðra liti,“ segir Lilja sem er jafnframt ákaflega þakklát fyrir Jólaþorpið sem dregur fólk til Hafnarfjarðar og þá eignist hún oft nýja viðskiptavini.

Áhrif Covid

Heimsfaraldurinn hafði vissulega einhver áhrif á starfsemina. „Ég minnkaði eitthvað opnunina í upphafi enda þorði fólk varla að koma inn. Í upphafi þessa árs þegar mikið var um smit fannst mér fólk aftur orðið hrætt.“

Árið í fyrra var samt besta árið í sögu Lilju Boutique. Fólk fór ekki erlendis að versla sem hjálpaði mikið til. „Verslunin var samt aðeins öðruvísi. Tvö síðustu jól hefur sem dæmi lítið verið beðið um kjóla þar sem konur voru ekki að fara í jólaboð og eða á árshátíðir. Þær vildu því allt annað en kjóla þegar faraldurinn var sem skæðastur en núna er aftur á móti mikil eftirspurn eftir kjólum,“ segir Lilja sem auglýsir töluvert í gegnum Facebook sem hún segir að virki ákaflega vel og þar í gegn selji hún líka út á land.

Hellisgerði, hraunið og róin

Lilja er Hafnfirðingur, ólst upp á Holtinu og fór í Lækjarskóla og Flensborg. „Ég hef alltaf búið í Hafnarfirði fyrir utan árin í Svíþjóð og mér þykir vænt um fjörðinn minn.“

Hellisgerði er í dálitlu uppáhaldi en þangað segist hún hafa mikið farið sem barn og fari gjarnan með barnabörnin í dag. Úr hrauninu eigi hún líka margar góðar minningar. „Við týndum ber og lékum okkur í hrauninu, þar sem Vellirnir eru núna. Fórum á skauta á Ástjörn og hlupum bara yfir Reykjanesbrautina,“ segir Lilja sem kann ákaflega vel við rónna sem liggi yfir bænum.    

Listmálun og sumarbústaðurinn

Eitt kvöld í viku fer Lilja í Myndlistarskóla Kópavogs og búin að gera í 15 ár. „Ég mála aðallega með olíu en er eitthvað að leika mér með akrýl. Mála bæði persónur og hluti en er dálítið í abstrakt verkum um þessar mundir,“ segir Lilja sem hélt einmitt sýningu í Litla Gallerí í október í fyrra en í Lilju Boutique eru einnig nokkur verk eftir hana til sýnis.

„Við eigum sumarbústað í Húsafelli og þar líður mér ákaflega vel. Þar mála ég einnig myndir en hef líka gaman af því að kaupa gamla muni og gera upp og bústaðurinn okkar ber þess aldeilis merki,“ segir Lilja brosandi að lokum.

 

Read More
Markaðsstofa Hafnarfjarðar Markaðsstofa Hafnarfjarðar

Te & Kaffi

Fjölskyldufyrirtækið Te & Kaffi á Stapahrauni er framsækið fyrirtæki með langa sögu sem í dag leggur mikla áherslu á umhverfismál.

Við hittum Kristínu Maríu Dýrfjörð stjórnarformann og Guðmund Halldórsson framkvæmdastjóra til að kynnast rekstri Te & Kaffi sem er leiðandi á markaði í dag.

Fjölskyldufyrirtækið Te & Kaffi á Stapahrauni er framsækið fyrirtæki með langa sögu sem í dag leggur mikla áherslu á umhverfismál.

Við hittum Kristínu Maríu Dýrfjörð stjórnarformann og Guðmund Halldórsson framkvæmdastjóra til að kynnast rekstri Te & Kaffi sem er leiðandi á markaði í dag.  

Fyrirtæki vikunnar

Fjölskyldufyrirtækið Te & Kaffi er framsækið fyrirtæki með langa sögu sem í dag leggur mikla áherslu á umhverfismál.

Skapa nýja menningu

Sögu Te & Kaffi má rekja allt til ársins 1984 þegar Berglind Guðbrandsdóttir og Sigmundur Dýrfjörð, foreldrar Kristínar fluttust heim frá Svíþjóð og söknuðu te og kaffimenningarinnar þaðan. „Á þessum tíma var lítið sem ekkert úrval af kaffi og tei hér á landi og þau ákváðu bara að gera eitthvað í því og opnuðu fyrstu verslunina á Barónstíg. Hún fékk fínar viðtökur en tveimur árum seinna fluttu þau í bakhús á Laugarvegi 24 sem var ekki einungis verslun heldur einnig kaffihús og þá fór allt á fullt og listaspírur bæjarins voru meðal fastagesta,“ segir Kristín og bætir við að 11 árum seinna hafi þau flutt sig yfir götuna á Laugaveg 27 þar sem Te & Kaffi er enn í dag með kaffihús enda húsnæðið í þeirra eigu.  

Guðmundur segir að á þessu tíma hafi ýmsar kaffitengdar vörur í sínum víðasta skilningi verið seldar í Te & Kaffi. „Ljós, dúkkulísur, sultur, sælgæti og postulín var meðal þess sem hægt var að kaupa hjá þeim og svo voru pressukönnur seldar í mjög miklu magni. Sérstaðan lá í vörum sem fengust ekki annar staðar.“

Í Hafnarfirði frá 1986

Í dag er fyrirtækið í eigu mæðgnanna Berglindar, Kristínar Maríu og Sunnu Rósar en Sigmundur lést fyrir nokkrum árum. Ásamt þeim eiga Guðmundur framkvæmdastjóri, Stefán framleiðslustjóri og Halldór framkvæmdastjóri kaffihúsanna hlut í fyrirtækinu.

Framleiðslan og skrifstofur fyrirtækisins eru staðsett í Stapahrauni. „Þegar við byrjuðum að rista okkar eigið kaffi, árið 1986, vorum við í Skútuhrauninu en fluttum okkur hingað í Stapahraunið árið 1995, fyrst í eitt hús en í dag erum við með þrjú hús í götunni undir reksturinn,“ segir Kristín og bætir við að pabbi hennar hafi verið Hafnfirðingur og því gjarnan viljað hafa höfuðstöðvarnar hér. Þá hafi nágrannar þeirra í Fjarðarkaupum einnig selt þeirra vörur allt frá upphafi sem annars fengust einungis í verslunum Te & Kaffi og örfáum Hagkaupsverslunum.   

Breytingar í kringum 20 ára afmælið

Að sögn Kristínar og Guðmundar varð mikil bylting á kaffihúsamarkaðnum í kringum aldarmótin í Evrópu og víðar. „Kaffibarþjónamótin fara á fullt, það varð almennt meiri metnaður fyrir kaffilögun, mjólkurlistin fór að ryðja sér til rúms og við ákváðum að vera með í þessari byltingu,“ segja þau og bæta við að það hafi verið ákaflega gaman að verða aftur og aftur vitni að þeirri gleði sem braust út hjá fólki þegar það fékk kaffibolla með fallegri mjólkurlist, eitthvað sem er orðið eðlilegt í dag.

Í kjölfarið ákvað Te & Kaffi að einbeita sér enn frekar að kaffihúsarekstri og gera vörumerkið sýnilegra. „Á 20 ára afmælinu okkar árið 2004 kynntum við nýtt lógó og nýjar umbúðir og lögðum mikla áherslu á að kynna vörumerkið sem var byggt á 20 ára þekkingu.“

Á þessum tíma hafði framleiðslugetan ekki verið nægilega mikil og því var fjárfest í nýrri pökkunarvél og ákveðið að stefna á að koma vörunum í allar matvöruverslanir landsins. Guðmundur var ráðinn til fyrirtækisins sem þeirra fyrsti sölumaður og innan fárra ára var hægt að fá Te & Kaffi vörurnar í flestum verslunum. „Ég ætlaði nú bara að vera hér í tvö ár en hér er ég enn,“ segir hann og brosir.

Uppáhaldskaffi Íslendinga

Í kringum árið 2010 urðu kaffihúsin eins og fólk þekkir þau í dag og fyrirtækið hætti sérverslunarrekstrinum. „Við erum núna með átta kaffihús en síðustu tíu árin höfum við lagt mikla áherslu á útlit kaffihúsanna okkar og stækkað suma staðina til að gera upplifunina sem besta.“ Þá eru þau ákaflega stolt af því að fjögur ár í röð kemur uppáhaldskaffi Íslendinga frá Te & Kaffi samkvæmt neyslukönnun Zenter.

Umhverfismálin í öndvegi

Stjórnendur Te & Kaffi huga mikið að umhverfismálum og hafa verið með loftlagsbókhald frá árinu 2017. „Þegar Parísarsáttmálinn var undirritaður árið 2016 ákváðum við að taka þessi mál föstum tökum, enda mikilvægt að hver og einn hugsi hvað hann geti gert,“ segir Guðmundur og bætir við að þau hafi unnið með Unicef allt frá árinu 2008 og þar sé ávallt sagt að enginn getur gert allt, en allir geti gert eitthvað. Þetta hugarfar hafi orðið þeim viss hvatning og ýtt við þeim þegar kemur að umhverfissjónarmiðum.

Með loftlagsbókhaldinu náði fyrirtækið að kortleggja kolefnisfótspor sitt hérlendis og komst að því að rúmlega 80% af beinni losun komi í gegnum gasnotkun enda kaffið ristað með gasi. „Við ákváðum því að skipta út orkugjafa og frá og með september 2021 er allt gert með metangasi sem er umhverfisvænn orkugjafi unninn úr lífrænum úrgangi. Þetta var vissulega töluverð fjárfesting og heilmikil framkvæmd en við teljum þetta sannarlega vera rétt skref til framtíðar,“ segir Kristín stolt.

Lífrænar umbúðir

Allar umbúðir Te & Kaffi í dag eru vistvænar og jarðgeranlegar. Þær flokkast því með lífrænu sorpi þar sem þær brotna hratt niður og enda sem molta eða metan. Sé þess ekki kostur má flokka þær með almennu heimilissorpi. „Við erum kannski aðeins á undan eða erum allavega tilbúin þegar allir landsmenn fá til sín lífræna tunnu í janúar 2023,“ segir Kristín og bætir við að það sé ákaflega mikilvægt að gera vel í þessum málaflokki. Þeirra upplifun sé jafnframt að ungt fólk sem sæki kaffihúsin þeirra og starfi hjá þeim setji sérstaklega ákveðnar kröfur þegar kemur að umhverfismálum og með því að standa sig í þeim laði þau til sín gott starfsfólk.  

Áhrif Covid

Aðspurð um áhrif Covid á reksturinn segir Guðmundur að hann hafi vissulega komið sterkt við þau. „Þetta var sérstaklega erfitt fyrir kaffihúsin og fyrirtækjamarkaðinn, vinnustaðir tæmdust sem og veitingahúsin sem kaupa mikið af kaffi af okkur.“

Þau ákváðu snemma í fyrstu bylgjunni að loka kaffihúsunum enda fáir sem komu og starfsfólk óttaslegið. „Við stjórnendurnir ákváðum bara að leggjast undir feld og skoða hvernig við gætum framkvæmt þetta með kaffihúsin og opnuðum þau aftur mánuði seinna með ströngum sóttvarnarreglum. Þau voru samt eins og harmonikka í langan tíma, stöðugt verið að breyta reglunum sem við þurfum að fylgja,“ segir Kristín.

Á sama tíma var brjálað að gera í matvöruverslunum þar sem fólk var m.a. að hamstra kaffi. „Það var unnið myrkranna á milli í framleiðslunni á tvískiptum vöktum til að forðast smit. Skrifstofan tæmdist og ég var hér oftast einn meðan aðrir unnu að heiman enda fullt í gangi. Við þurftum að endursemja við birgja, fresta greiðslum, reyna að fá einhverja afslætti og bara sinna daglegum skrifstofurekstri,“ segir Guðmundur.

Þau segja að þetta hafi vissulega verið krefjandi tími en eftir á að hyggja komust þau samt nokkuð vel í gegnum þetta.

Miðbærinn og Fjarðarkaup

Kristín og Guðmundur búa hvorug í Hafnarfirði en segjast nú samt sem áður eyða mjög miklum tíma í bænum og kunni ákaflega vel við sig hér.

„Ég elska gamla bæinn og Strandgötuna og svo er Fjarðarkaup eitt það besta við Hafnarfjörð,“ segir Kristín og brosir. Þá segist hún líka fara gjarnan í Hellisgerði þaðan sem hún á margar góðar æskuminningar en amma hennar og afi bjuggu á Skúlaskeiðinu.

Guðmundur talar um að Hafnarfjörður búi yfir sögu og sál sem fá bæjarfélög geti státað sig af. „Það er eitthvað sérstakt við Hafnarfjörð, hann hefur eitthvað sem aðrir hafa ekki. Ég myndi samt vilja styrkja Strandgötuna enn frekar enda tækifæri til að veita miðbæ Reykjavíkur sterkari samkeppni.“

Útivera og ferðalög

Frítíma sínum verja Guðmundur og Kristín bæði gjarnan með útiveru. „Ég hreyfi mig mikið, spila golf á sumrin, geng á fjöll og eyði sumrunum helst fyrir vestan í Ísafjarðardjúpinu þar sem ég ólst upp og fer þar gjarnan út á sjó og róa kajak,“ segir Guðmundur.

Kristín segist gjarnan vera út í náttúrunni, stundi líka fluguveiði og fari á skíði. „Ég elska líka að skoða heiminn og landið okkar og vona að ég eigi eftir að gera enn meira af því í framtíðinni,“ segir hún að lokum.  

Read More
Markaðsstofa Hafnarfjarðar Markaðsstofa Hafnarfjarðar

Heimastyrkur

Í Lífsgæðasetri St. Jó má finna iðjuþjálfunarfyrirtækið Heimastyrk sem veitir afar fjölbreytta þjónustu, ráðgjöf og þjálfun til heilsueflingar.

Í Lífsgæðasetri St. Jó má finna iðjuþjálfunarfyrirtækið Heimastyrk sem veitir afar fjölbreytta þjónustu, ráðgjöf og þjálfun til heilsueflingar.

Við hittum Guðrúnu Jóhönnu Hallgrímsdóttur iðjuþjálfa og eiganda Heimastyrks til að kynnast rekstrinum.

Fyrirtæki vikunnar

Iðjuþjálfunarfyrirtækið Heimastyrkur í St. Jó veitir afar fjölbreytta þjónustu, ráðgjöf og þjálfun til heilsueflingar.

Aukavinnan varð aðal

Guðrún vann lengi á Hrafnistu hér í Hafnarfirði sem iðjuþjálfi og kunni ákaflega vel við sig. „Það var svo gaman að kynnast reynslumiklum Hafnfirðingum sem sögðu mér ótrúlega margar áhugaverðar sögur og yndislegt að vinna með þeim.“ Samhliða starfinu á Hrafnistu og síðar hjá Reykjavíkurborg tók hún jafnframt að sér ýmis önnur auka verkefni og ákvað loksins að taka skrefið og stofna sitt eigið fyrirtæki og vinna alfarið sjálfstætt. Heimastyrkur fékk nafnið sitt árið 2017 og flutti árið 2020 í St. Jó árið. 

Fjölbreytnin í fyrirrúmi 

Guðrún segir að nafnið á fyrirtækinu sé ákaflega lýsandi fyrir þá þjónustu sem hún veiti. „Mitt hlutverk sem iðjuþjálfi er að styrkja heilsu fólks. Heimastyrkur stendur fyrir að styrkja fólk að innan enda líkaminn heimastöðin en svo tengist þjónusta oft heimili þeirra, þar sem vani og rútína myndast sem þarf stundum að breyta. Ég þjálfa fólk í gegnum iðju og hjálpa því sem dæmi að einfalda hluti sem eru nauðsynlegir til að eiga orku í það sem veitir viðkomandi tilgang og nærir andlega eða félagslega. Sumir kalla mig því skemmtanastjóra í iðju,“ segir Guðrún og brosir.

Starfið er samkvæmt henni ákaflega fjölbreytt. „Á einum degi get ég verið að hjálpa einum við forgangsröðun í námi, þjálfa annan í fínhreyfingum, aðstoða þann þriðja við að panta hjálpartæki og að lokum farið í ökumat með þeim fjórða.“ Þá séu þjónustuþegarnir jafnframt á öllum aldri.

Forvarnir heilla

Hluti þeirra einstaklinga sem koma til Guðrúnar eru á vegum VIRK og hafa lent í kulnun, veikindum eða öðru og þurfa aðstoð iðjuþjálfa í sinni endurhæfingu. Þá vinnur hún jafnframt töluvert með  Parkinsonsamtökunum, Gigtarmiðstöð Íslands, Vigdísarholti og Vestmannabæ þar sem hún sinnir bæði þjálfun og fræðslu.

Fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög fá þá gjarnan Guðrúnu til sín bæði til að gera ýmsar úttektir en jafnframt veita mikilvæga forvarnarfræðslu til að bæta aðstæður og öryggi fólks. „Forvarnir heilla mig ávallt meir og meir enda ákaflega mikilvæg þjónusta. Ég er því sérstaklega ánægð þegar ég fæ að koma inn í fyrirtæki eða stofnanir og meta streituvalda á vinnustaðnum og hitta fólk áður en það lendir sem dæmi í stoðkerfisvanda eða kulnun,“ segir Guðrún og bætir við að annað dæmi um forvarnarstarf felist í að fara í heimilisathuganir og benda á lausnir og þjálfun sem geti seinkað búsetu á hjúkrunarheimili.

Trú á eigin getu

Eitt helsta markmið Heimastyrks er að veita stuðning til sjálfshjálpar, vellíðan og trú á eigin getu og áhrifamátt gegnum iðju og félagslega þátttöku. Guðrún segir að suma hitti hún einungis í eitt skipti en aðrir komi oftar. „Ég vil í raun gera mig óþarfa sem fyrst og reyni að kenna fólki sem mest, svo það geti sinnt öllu í sínu lífi með aðferðum sem henta þeim. Það mætti alveg kalla mig nokkurs konar lífsþjálfa, hjá mér gengur allt út á að finna tilgang hvers og eins og hvað viðkomandi finnst skemmtilegt og nærandi að iðka. Að vera iðjulaus getur nefnilega verið mjög erfitt enda myndum við sjálfstraust okkar í gegnum þá iðju sem við sinnum.“

Mörg járn í eldinum

Það má vissulega segja að Guðrún sé með mörg járn í eldinum en meðfram starfinu hjá Heimastyrk er hún aðjúnkt við iðjuþjálfunarfræðideild Háskólans á Akureyri og í handleiðslunámi við Háskóla Íslands. „Ég hef verið að kenna í nokkur ár og þykir það ákaflega gefandi en kennslan krefst þess að ég haldi mér vel upplýstri og fylgist vel með allri framþróun í faginu sem er af hinu góða,“ segir Guðrún sem skrifar jafnframt reglulega greinar fyrir veftímaritið Aldur er bara tala og var í stjórn Iðjuþjálfarafélags Íslands þar til nýverið en félagið berst m.a. fyrir því að þjónusta þeirra verði niðurgreidd af Sjúkratryggingum Íslands.

Áhrif Covid

Aðspurð um hvaða áhrif Covid hafði á reksturinn er Guðrún fljót að segja að þau hafi í raun verið engin. „Fólk heldur áfram að vera veikt og kljást við ýmis konar vandamál í daglegri iðju þó heimsfaraldur sé í gangi og ég fór því áfram í heimsóknir og fólk kom til mín, allir bara með grímur og vel sprittaðir,“ segir Guðrún en bætir við að vissulega hafi orðið einhver aukning í fjarþjónustu.

„Ég hef alltaf unnið mikið í gegnum netið og aldrei sett það fyrir mig. Við vorum því sem dæmi fljót að skella handaþjálfuninni fyrir Parkinsonsamtökin yfir á netið og uppskárum í raun mikla gleði með það frá aðilum sem búa út  á landi og gátu nú verið með.“

Guðrún segir að eftir Covid þá hafi hins vegar þörfin á iðjuþjálfun aukist. „Margir þurfa aðstoð við að koma sér aftur á stað við ýmsa iðju, komast í rútínu og vera í félagslegum tengslum sem minnkuðu gríðarlega á þessum tíma.“ Þá eru margir sem fengu veiruna að glíma við ýmsar afleiðingar s.s. viðkvæmni gagnvart birtu, hljóði og snertingu sem og að hafa misst bragð- og lyktarskyn. Í svona aðstæðum geta iðjuþjálfar aðstoðað við að draga úr skynáreiti, einfalda ýmsa iðju og veitt ráðgjöf t.d. varðandi hjálpartæki.

Best við Hafnarfjörð

Guðrún ólst upp á Hlíðarbrautinni með St. Jó í bakgarðinum og er mjög ánægð með að vera komin í það fallega hús með fyrirtækið sitt. „Ég er ákaflega þakklát fyrir að vera hluti af því góða samfélagi sem starfar hér í dag og finnst það vera mikill heiður að vera hér.“

Hún segist annars hafa búið á nokkrum stöðum í gegnum ævina en Hafnarfjörður hafi alltaf togað í hana. „Hér liggja mínar rætur og Hafnarfjörður er minn heimabær og að vera heima veitir mér styrk,“ segir Guðrún sem elskar að vera við sjóinn og horfa á Ásfjallið út um stofugluggann. Aðspurð um sinn uppáhaldsstað í Hafnarfirði nefnir hún fljótt Ástjörnina og einnig Keilissvæðið þar sem náttúran, ölduhljóð og fuglalíf veiti henni vissa hugarró.

Gaman að leika sér

Þegar kemur að áhugamálum segir Guðrún að hún hafi í raun sameinað vinnuna og áhugamálin. „Ég hef mikinn áhuga á fólki, vellíðan og heilsu. Útivera er mér því mikilvæg, ég elska að ferðast og svo er dásamlegt að vera í góðum vinahópum og ég á sem betur fer marga góða vini enda mikil félagsvera,“ segir Guðrún og bætir við að þá finnist henni líka alltaf gaman að leika sér og syngi jafnframt mikið en oftast bara þegar hún sé ein enda hálf laglaus og fölsk að eigin sögn.

Read More
Markaðsstofa Hafnarfjarðar Markaðsstofa Hafnarfjarðar

Vélsmiðjan Stálvík

Vélsmiðjan Stálvík á Hvaleyrarbrautinni er ungt fyrirtæki en þó með áratugareynslu.

Við hittum eigendurna Sigurð Kristinn Lárusson vélvirkja- og stálvirkjameistara og Jón Trausta Sverrisson vél- og orkutæknifræðing til að kynnast rekstrinum.

Vélsmiðjan Stálvík á Hvaleyrarbrautinni er ungt fyrirtæki en þó með áratugareynslu.

Við hittum eigendurna Sigurð Kristinn Lárusson vélvirkja- og stálvirkjameistara og Jón Trausta Sverrisson vél- og orkutæknifræðing til að kynnast rekstrinum.

Fyrirtæki vikunnar

Vélsmiðjan Stálvík á Hvaleyrarbrautinni er ungt fyrirtæki en þó með áratugareynslu.

Áratugareynsla í faginu

Stálvík hefur verið starfandi síðan haustið 2019 en Sigurður og Jón Trausti eru með áratugareynslu í faginu. „Við vorum búnir að vinna saman í rúm átta ár þegar hugmyndin vaknar að stofna sitt eigið fyrirtæki og þá var í rauninni ekki aftur snúið,“ segir Sigurður og bætir við að þeir hafi einnig skoðað það að kaupa annað fyrirtæki en töldu á endanum það vera of kostnaðarsamt sem og meiri áhætta. Þeir telja að það sé líka öllum hollt að byrja frá núlli þó að upphafskostnaðurinn sé vissulega mjög mikill og þeir hafi þurft að setja allt sitt sparifé inn í reksturinn. „Á þessum rúmu tveimur árum erum við búnir að kaupa verkfæri fyrir tugi milljóna en við leggjum líka upp úr því að vera með góð tæki og erum orðnir vel græjaðir í dag og í raun búnir að taka fram úr mörgum smiðjum á okkar stærðargráðu,“ segir Jón Trausti en það er þeim ákaflega mikilvægt að vera orðin svo til alveg sjálfstæð smiðja.

Hanna, teikna og smíða

Þeir í Stálvík taka að sér ýmsa nýsmíði en eru líka í viðhaldi og viðgerðum. „Við erum með  heildarlausnir, komum með hugmyndir, hönnum, teiknum og smíðum enda með stálsmiði, rafsuðumenn, vélvirkja, verkfræðing og tæknifræðing hér í vinnu,“ segir Sigurður en helstu viðskiptavinir þeirra eru stóriðjur, orkugeirinn og sjávarútvegsfyrirtæki. Þeir segjast einnig taka að sér verkefni fyrir minni aðila en að undanförnu hafi eftirspurnin verið það mikil hjá stórfyrirtækjum að áherslan sé mun meiri þar í dag.

„Síðustu tvær vikurnar höfum við verið í stóru verkefni fyrir Elkem á Grundartanga, sem er okkar stærsti viðskiptavinur, og þá höfum við í raun unnið dag og nótt og fengið fjölmarga verktaka með okkur til að klára verkið“, segir Jón Trausti en starfsmenn Stálvíkur í dag eru 14 talsins en í þessu tiltekna verkefni voru rúmlega 40 manns að störfum fyrir þeirra hönd.

Sturtuklefar og sjónarrönd

Eitt af verkum Stálvíkur sem almenningur getur borið augum er stálsmíði í Sky Lagoon. „Þetta var skemmtilegt verkefni en við hönnuðum og smíðuðum meðal annars sturtuklefana í samráði við eigendur, gerðum öll handrið og þá hönnuðum við og smíðuðum vél sem þurfti að nota til að slípa niður og stilla af frægu sjónarröndina þeirra,“ segir Sigurður og Jón Trausti bætir við að þeir hafi í gegnum tíðina mikið unnið með arkitektastofum og þá helst með Haf Studio, sem á og rekur einnig verslunina Haf Store, að ýmsum verkefnum.

Áreiðanleiki og fagmennska

„Allt sem við gerum, gerum við vel og oft betur en vel,“ segir Jón Trausti og Sigurður tekur undir þetta og bætir við að þeir leggi mjög mikið upp úr því að standa við það sem þeir segja. „Áreiðanleiki og fagmennska er í raun okkar sérstaða. Við erum í þessu af líf og sál og reynum að sinna okkar viðskiptavinum alltaf vel.“

Þeir gera því miklar kröfur til síns starfsfólks sem þurfi að skila verkefnum af sér í hæstu gæðum. En það að fá gott starfsfólk sé einmitt þeirra stærsta vandamál í rekstri. „Það er mikil vöntun í faginu og við að keppa við stór fyrirtæki sem eru í eigu sjóða, stofnana eða banka um hæft fólk sem getur verið ansi krefjandi. Við erum núna 14 en þyrftum helst að vera 20.“ Þeir eru þó ákaflega ánægðir með starfsfólkið sitt í dag og leggja mikið á sig til að vera með góð tæki og gott andrúmsloft. Þá segjast þeir vera að vinna í því að koma upp hobbý-aðstöðu fyrir sitt fólk þar sem hægt er að sinna ýmsum viðgerðum í tengslum við áhugamál.

Áhrif Covid

Aðspurðir um áhrif Covid á reksturinn segja þeir að faraldurinn hafi vissulega bitið í þá. „Við gerðum alls konar kúnstir enda ekki í þeirri aðstöðu að geta látið fólkið okkar vinna að heiman. Við leigðum meðal annars húsnæði út í bæ fyrir tvo starfsmenn með tilheyrandi kostnaði og við Sigurður héldum alltaf fjarlægð frá hvor öðrum,“ segir Jón Trausti og bætir við að þeir hafi samt í raun verið heppnir í upphafi þegar staðan var sem verst að geta unnið í stóru tveggja mánaða verkefni, en á þeim tíma hafi síminn varla hringt enda allir að halda aftur að sér.

Þegar líða tók á faraldurinn streymdu verkefnin svo til þeirra, sérstaklega í tengslum við fyrirtæki sem nýttu tækifæri til að fara í viðgerðir sem höfðu setið á hakanum. „Við höfðum líka mikinn meðbyr með okkur allt frá upphafi. Aðilar sem þekktu til okkar vinnu studdu okkur vel og fyrirtækið stækkaði því hratt í faraldrinum,“ segir Sigurður en í febrúar 2020 var Stálvík með fjóra starfsmenn en eru nú með fjórtán.

Hlúð að iðnaðarfyrirtækjum

Sigurður og Jón Trausti hafa báðir búið í Hafnarfirði en gera það ekki í dag. Þeir eru samt ákaflega sáttir með að vera með fyrirtækið sitt hér í bæ. „Okkur langaði ekki vera á of stóru iðnaðarsvæði og týnast einhvern veginn þar. Okkur þykir þessi hluti Hafnarfjarðar því henta okkur ákaflega vel,“ segir Sigurður og bætir við að honum finnist að hér í bæ sé að vissu leyti betur hlúð að iðnaðarfyrirtækjum en í ýmsum nágrannasveitarfélögum.

„Þetta er líka ákaflega sjarmerandi bær og ég gæti vel hugsað mér að flytja hingað í framtíðinni,“ segir Jón Trausti og bætir við með bros á vör að hann kunni líka vel að meta fiskilyktina komandi frá litlu sjávarþorpi á Vestfjörðum.

Mótorsport, hjól og útivist

Þeir félagar eru einnig nokkuð samstíga þegar kemur að áhugamálum og nefna báðir mótorsport og segjast gjarnan fara á mótorhjól, snjósleða og keyra stóra jeppa. „Helsta áhugamálið að undanförnu er samt sem áður Stálvík og öll ástríðan fer í að byggja fyrirtækið upp og hlúa að því,“ segir Sigurður og Jón Trausti tekur undir.

„Ég æfði blak með Haukum en varð að hætta því en núna er ég reyndar búin að kaupa mér fjallahjól og verð vonandi duglegur að hjóla í sumar, þó ekki sé nema til og frá vinnu,“ segir Jón Trausti. Sigurður segir að útivist gefi sér líka mikið og þau fjölskyldan fari gjarnan á fjöll á sumrin og ferðist líka um landið með hjólhýsi.

Read More
Markaðsstofa Hafnarfjarðar Markaðsstofa Hafnarfjarðar

Sundskóli Hörpu

Í Sundskóla Hörpu eru yngstu nemendurnir einungis tveggja mánaða en í skólanum er lögð sérstök áhersla á að börn og foreldrar eigi gæðastund saman í lauginni.

Við hittum Hörpu Þrastardóttur, eiganda og kennara sundskólans til að kynnast rekstrinum.

Í Sundskóla Hörpu eru yngstu nemendurnir einungis tveggja mánaða en í skólanum er lögð sérstök áhersla á að börn og foreldrar eigi gæðastund saman í lauginni.

Við hittum Hörpu Þrastardóttur, eiganda og kennara sundskólans til að kynnast rekstrinum.

Fyrirtæki vikunnar

Í Sundskóla Hörpu eru yngstu nemendurnir einungis tveggja mánaða.

Verkfræðingur sem kennir ungbarnasund

Harpa hefur verið í tíður gestur í Suðurbæjarlauginni allt frá því hún var barn. Fór þar á sitt fyrsta sundnámskeið fimm ára gömul, tók allt sitt skólasund í lauginni og byrjaði svo að æfa sund þegar hún var 10 ára. „Árið 2008 tók ég síðan við þjálfun hjá Sundfélagi Hafnarfjarðar og kenndi þar mikið yngstu börnunum,“ segir Harpa.  

Þegar hún eignaðist dóttur sína árið 2016 fór hún með hana í ungbarnasund og í kjölfarið hvatti  kennarinn Hörpu til að sækja námskeið hjá Busla, félagi ungbarnasundskennara þar sem þörf væri á enn fleiri ungbarnasundsnámskeiðum. „Ég ákvað að slá til en þurfti reyndar að fá undanþágu þar sem ég er verkfræðingur og ekki með bakgrunn í íþróttafræðum eða heilbrigðismenntun en áralöng reynsla af sundþjálfun vóg þar upp á móti,“ segir Harpa sem heldur að hún sé eini verkfræðingurinn sem kenni ungbarnasund í dag. Eftir námskeiðið var ekki aftur snúið og hún stofnaði Sundskóla Hörpu sem var með sitt fyrsta námskeið í upphafi árs 2018.

Úr tveimur hópum í sextán

Sundskóli Hörpu bíður upp á sundkennslu fyrir börn frá tveggja mánaða aldri og allt fram að upphafi grunnskólagöngu. Hún segir að námskeiðin veiti börnum alhliða örvun og styrki þau mikið og séu jafnframt afar jákvæð fyrir hreyfiþroskann enda mun auðveldara að hreyfa sig í vatni.

„Ég er alla jafna með fjórar mismunandi gerðir af námskeiðum. Fyrst er það ungbarnasundið, þar sem ég er bæði með byrjenda og framhaldsnámskeið og síðan er ég með sundskóla fyrir börn frá eins til þriggja ára annars vegar og hins vegar tveggja til sex ára. Þessa önnina er ég reyndar tímabundið einnig með 4-7 ára hóp“ segir Harpa sem í dag er með 16 mismunandi hópa í gangi, sex hópar á laugardögum í Suðurbæjarlauginni en tíu hópa í Mörkinni þar sem hún kennir á sunnudögum og mánudögum og stendur hvert námskeið yfir í sex vikur í senn.

„Þetta fór hægt af stað í upphafi en eftirspurnin hefur verið það mikil að ég fór úr tveimur hópum í 16 á fjórum árum. Nýjasti sundskólinn varð því mjög fljótt með þeim stærstu,“ segir Harpa ánægð og þakkar þetta vissulega ánægðum viðskiptavinum sem koma alltaf aftur og aftur en sum börn hafa verið í sundskólanum í nokkur ár og margir foreldrar komið með börn númer tvö og einhverjir núna að koma með það þriðja. Hún leggur þá áherslu á að þó að sum börnin byrji mjög ung þá sé aldrei of seint að byrja.

Leikir, söngur og köfun

Í sundskólanum er mikil áhersla lögð á að hafa gaman og leikir og söngur spila þar stórt hlutverk. „Það auðveldar kennsluna töluvert að vera í leik, börnin læra oft hraðar þannig og komast frekar yfir vatnshræðslu,“ segir Harpa.

Í ungbarnasundinu byrja allir tímar á söng og ákveðnar æfingar gerðar með hverju lagi. „Við syngjum og gerum þá vissar æfingar með hverju lagi og börnin læra hratt hverju þau eiga von á. Sem dæmi er alltaf sama lagið þegar við erum að fara að kafa.“

Það tengja ef til vill margir köfun við ungbarnasund og hafa séð myndir af litlum krílum í kafi. „Börn fæðast með köfunarviðbrögðin og þau eru  til staðar fyrstu mánuðina og með æfingum getum við viðhaldið þeim. Við blásum þá alltaf framan í þau fyrst svo þau dragi inn andann og fara síðan í kaf,“ segir Harpa en ítrekar að það sé þó engin skylda að kafa og sumir foreldar ákveði að sleppa því alfarið.

Gæðastundir í lauginni

Tilgangur allra námskeiða í sundskólanum er að barn og foreldri eða foreldrar eigi gæðastundir saman í lauginni á meðan barnið fær aðlögun og kennslu í vatni sem hentar aldri og getu. „Það er mikil nánd í lauginni, mikil snerting og foreldrar þurfa að horfa í augu barnsins þegar verið er að gera æfingar en aðalatriðið er að hafa gaman.“

Harpa segir foreldra vera jafn mismunandi og þeir eru margir. Sumir foreldrar eru sjálfir vatnshræddir en þá getur verið gott að koma og fá ráð hjá kennaranum og byggja upp sitt öryggi til að geta farið með barnið sitt í sund í framtíðinni. Þá segir hún að stundum sé annað foreldrið ofan í lauginni og hitt á bakkanum en það sé þó oftast skemmtilegast þegar bæði eru ofan í.

Ömmur og afar eða systkini koma stundum að horfa á eða leysa annað foreldrið af ef einhver forfallast. „Það eru annars oft afar sem eru ákaflega duglegir að koma með eldri börnunum á námskeið og dæmi um afa sem hefur komið með nær öll barnabörnin sín á sundnámskeið hjá mér og átt reglulegar gæðastundir með þeim í lauginni.“

Áhrif Covid

Aðspurð um áhrif Covid á reksturinn segir Harpa að þetta hafi vissulega verið erfitt, sérstaklega þegar Suðurbæjarlaug var lokuð í marga mánuði, fyrst vegna Covid en síðan vegna viðgerða. „Þetta var  erfiðast þegar lokað var á miðju námskeiði en við tókum svo upp þráðin á þeim námskeiðum þegar laugin opnaði aftur.“

Það kom nú samt eitthvað jákvætt út úr þessu þar sem Harpa ákvað að byrja líka með námskeið í Mörkinni vegna lokunar Suðurbæjarlaugar og starfsemin þar hefur vissulega blómstrað og aðstaðan til fyrirmyndar. Harpa ákvað jafnframt að hætta allri þjálfun hjá SH í upphafi Covid og hafði því tækifæri til að auka starfsemi sundskólans og sér alls ekki eftir því.

Góðar sundlaugar bestar

Harpa er Hafnfirðingur, ólst upp í Suðurbænum, var í Öldutúnsskóla og æfði sund með SH. Þegar hún er spurð hvað sé best við Hafnarfjörðinn er hún fljót að svara að það séu góðar sundlaugar. „Við erum með allar tegundir af laugum sem hver og ein hefur sinn sjarma og ég er ákaflega hrifin af þeim öllum.“ Þá bætir hún við að miðbærinn sé skemmtilegur og hún versli og sæki flesta þjónustu hér í bænum.

Útivist og pottarnir

Í frítíma sínum stundar Harpa gjarnan einhverja útivist. „Ég hef mjög gaman af því að fara í fjallgöngur og síðan erum við fjölskyldan að reyna að koma okkur á skíði sem mér finnst ákaflega heillandi.“ Þá segist hún líka gjarnan fara í sund en þá einungis í pottana. „Ég er alveg hætt að synda sjálf, hef gaman af því að kenna sund en finnst síður skemmtilegt að synda sjálf, nema þá helst með tónlist í eyrunum,“ segir Harpa að lokum með bros á vör.






Read More
Markaðsstofa Hafnarfjarðar Markaðsstofa Hafnarfjarðar

Ban Kúnn

Á Ban Kúnn á Tjarnarvöllum er Padthai vinsælasti rétturinn en hann er byggður á uppskrift frá tælenskri langömmu.

Við hittum eigendurna og hjónin Svavar G. Jónsson og Natthawat Voramool til að kynnast rekstrinum.

Á Ban Kúnn á Tjarnarvöllum er Padthai vinsælasti rétturinn en hann er byggður á uppskrift frá tælenskri langömmu.

Við hittum eigendurna og hjónin Svavar G. Jónsson og Natthawat Voramool til að kynnast rekstrinum.

Fyrirtæki vikunnar

Á Ban Kúnn er Padthai vinsælasti rétturinn en hann er byggður á uppskrift frá tælenskri langömmu.

Hófst á Austurgötuhátíðinni

Fyrir rúmri viku fagnaði Ban Kúnn átta ára afmæli en staðurinn opnaði þann 31. janúar árið 2014 og fékk strax mjög góðar viðtökur. Hugmyndin að opna veitingastað á sér þó lengri sögu og má rekja til fyrstu Austurgötuhátíðarinnar árið 2011 þar sem þeir slógu í gegn með matartjaldið sitt.

„Við búum á Austurgötunni og vildum að sjálfsögðu taka þátt í hátíðinni og Natthawat var fljótur að ákveða að við myndum selja mat og verslaði inn, að mér fannst, heil ósköp. Ásóknin varð hins vegar svo mikil að það var farið í búðina fimm eða sex sinnum þann daginn,“ segir Svavar. Þeir endurtóku leikinn ári seinna og þá segist Natthawat hafa bætt vorrúllum á matseðilinn en fyrsta árið voru þeir með eggjanúðlur og Panang karrí.

„Við fengum margar fyrirspurnir um hvort við værum með veitingahús og einhver sagðist hafa beðið í heilt ár eftir að fá núðlurnar okkar aftur. Í kjölfarið ákváðum við að hætta að spá og spekúlera og fara bara í að leita að húsnæði og eftir mikla og langa leit enduðum við hérna á Tjarnarvöllum.“

Heima hjá þér

Aðspurðir um nafnið á staðnum segir Natthawat að það þýði í raun heima hjá þér og að systir hans hafi rekið veitingahús á Tælandi með þessu nafni. Honum fannst ekkert annað nafn koma til greina á veitingastaðinn þeirra Svavars sem þeir reyna líka að hafa heimilislegan og skreyta með mörgum fallegum og táknrænum hlutum frá Tælandi. Þar á meðal eru myndir af tælenskum kóngum, bæði núverandi og fyrrverandi. „Kóngur númer tíu ríkir í dag en margir veitingastaðir á Tælandi eru líka með mynd af kóngi númer fimm þar sem hann var mikill matreiðslumaður,“ segir Natthawat og bendir einnig á aðrar myndir og muni sem eiga að færa staðnum velgengni samkvæmt tælenskri hjátrú. Þá bætir Svavar við að þeir hafi keypt öll húsgögnin fyrir staðin notuð og reyni að vera útsjónasamir.

Uppskriftin frá langömmu

Matseðilinn hjá Ban Kúnn er fjölbreyttur, þar er allt unnið frá grunni og allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. „Kjúklingurinn er vinsælastur en rækju-, svínakjöts- og grænmetisréttir eru líka alltaf á boðstólnum og það hefur orðið mikil aukning í sölu á veganréttum,“ segir Svavar en á matseðlinum eru enn eggjanúðlurnar sem og Panang karríið sem var selt á fyrstu Austurgötuhátíðinni. Upphaflega Panang-ið kemur reyndar og fer og gengur stundum undir nafninu 17. júní rétturinn.

Vinsælast á Ban Kúnn í dag er hins vegar Padthai sem er byggður á uppskrift frá langömmu Natthawat í Tælandi og er nokkurs konar leyniuppskrift staðarins. Þá er hnetusósan þeirra byggð á uppskrift frá ömmu hans sem eldaði afar góðan mat. „Fjölskylda mín hefur verið mikið í matargerð og ég á tvær systur sem hafa rekið veitingastaði, þar á meðal einn stóran í Bankok þar sem ég vann á árum áður meðfram námi,“ segir Natthawat.

Fólk kemur aftur og aftur

Í gegnum árin hefur Ban Kúnn eignast marga fastagesti sem koma alltaf aftur og aftur. „Sumir panta alltaf það sama en aðrir prófa gjarnan eitthvað nýtt. Við fáum líka mikið af fólki utan af landi hingað og sem dæmi ein fjölskylda frá Hellu sem kemur alltaf til okkar þegar hún kemur í bæinn,“ segir Svavar og bætir við að þá komi reglulega til þeirra ýmsir hópar á vegum ferðaskrifstofa og gestir á Hótel Völlum séu jafnframt duglegir að koma.   

Áhrif Covid

Þeir viðurkenna báðir að Covid tíminn hafi verið ansi erfiður. Þeir hafi þurft að segja upp fólki, stytt opnunartímann en sem betur fer alveg sloppið við að þurfa að loka vegna veikinda eða sóttkvíar.

„Föstu viðskiptavinirnir okkar hafa sem betur fer haldið áfram að koma en það er bara rólegra yfir öllu og fólk farið að elda meira heima. Þá eru fáir ferðamenn á ferli sem voru alltaf viss hluti af okkar viðskiptavinum. En við höfum annars verið strangir á öllum sóttvarnarreglum og fólk almennt verið ánægt með það.“

Búa í fjölskylduhúsinu á Austurgötu

Svavar og Natthawat búa á Austurgötunni í húsinu sem langamma Svavars keypti árið 1913 og hefur verið í fjölskyldunni með nokkrum hléum í gegnum árin. Þeim líður afar vel í miðbænum og Natthawat unir sér sérstaklega vel í garðinum þeirra þar sem þeir eru með gróðurhús og hann ræktar mikið af grænmeti og káli. „Þetta er fallegur bær, hér er rólegt og gott að vera,“ segir hann og ef hann ætti að nefna uppáhaldsstað þá yrði það Hellisgerði.

Svavar er fæddur og uppalinn í Hafnarfirði, frumbyggi í Kinnunum, og segir að það besta við bæinn sé í raun tilfinningin. „Hér er fólkið mitt, hér líður mér vel og hér á ég heima.“

Ljósmyndun, saga, spil og söngur

Svavar hefur mikinn áhuga á myndavélum og ljósmyndun og á Ban Kúnn má skoða glæsilegt myndavélasafn hans þar sem meðal annars eru yfir 100 ára gamlar myndavélar. „Ég byrjaði að safna myndavélum um fermingu, á enn mína fyrstu myndavél og safnið orðið ansi stórt og fjölbreytt. Ég er víst komin langt í 400 vélar,“ segir hann og brosir. Saga Hafnarfjarðar er Svavari jafnframt afar hugleikinn, þá sérstaklega saga húsa og fólks.  

Natthawat ræktar gjarnan blóm og grænmeti og spilar gjarnan á spil í frítíma sínum. „Ég söng líka mikið og dansaði á árum áður og hef tekið þátt í ýmsum sýningum en hef gert eitthvað minna af því undanfarið,“ segir hann brosandi að lokum.

Read More
Markaðsstofa Hafnarfjarðar Markaðsstofa Hafnarfjarðar

Kökulist

Í Kökulist í Firði eru ótrúlega breitt vöruúrval og alltaf einhverjar nýjungar.

Við hittum hjónin Jón Rúnar Arilíusson og Elínu Maríu Nielsen, til að kynnast rekstrinum.

Í Kökulist í Firði eru ótrúlega breitt vöruúrval og alltaf einhverjar nýjungar.

Við hittum hjónin Jón Rúnar Arilíusson og Elínu Maríu Nielsen, til að kynnast rekstrinum.

Fyrirtæki vikunnar

Í Kökulist í Firði eru ótrúlega breitt vöruúrval og alltaf einhverjar nýjungar.

25 ára saga

Í haust eru 25 ár síðan Jón opnaði sitt fyrsta bakarí, árið 1997 við Miðvanginn, en tveimur árum seinna færði hann sig yfir í Fjörðinn og hefur verið þar síðan. „Á þessum 25 árum hef ég í raun prufað allt og sjaldan setið auðum höndum. Hef verið með allt frá þrjá í vinnu til 100 manns. Rak kaffihús í miðbæ Reykjavíkur á tímabili, átti bakarí í Kringlunni, tvö í Garðabæ og við vorum á tímabili líka með tvö hér í Hafnafirði og þá höfum við keypt nokkur þrotabú í gegnum árin,“ segir Jón sem starfaði einnig með kokkalandsliðinu á árum áður, var eitt sinn Íslandsmeistari í kökuskreytingum og er í dag yfir sveinsprófsnefnd bakara.  

Síðastliðin sjö ár hefur Kökulist verið með bakarí í Firði sem og í Reykjanesbæ þar sem vinnslan er nú starfrækt þar sem rýmið hér í bæ var orðið alltof lítið.

Fyrstur með súrdeigsbrauðin

Sérstaða Kökulistar er að sögn Jóns hversu breitt vöruúrvalið er. „Við erum að baka á milli 80 og 100 vörutegundir í hverri viku og þar af eru 50 sem við bökum daglega. Það eru fáir með eins breiða flóru en við erum líka alltaf að koma með einhverjar nýjungar, einhver spennandi rjómastykki um helgar og í síðustu viku var ég sem dæmi með rúsínuvínarbrauð,“ segir Jón og Elín bætir við að þá séu þau líka að sinna ýmsum sérþörfum. „Við erum með vegan kleinuhringi um helgar og alltaf með nokkrar útgáfur af speltbrauði, laktósafríar kökur sem og aðrar eggjalausar.“

Elín segir að þau hafi líka verið langt á undan öllum varðandi ýmislegt í brauðgerð og verið sem dæmi fyrst með vinsælu súrdeigsbrauðin. „Ég byrjaði árið 1997 með langtímahefun og tók svo gerið alveg út nokkrum árum seinna. Við sjóðum líka fræin sem fara í brauðin okkar, þannig að steinefnin og olían úr fræjunum springa út og fara út í brauðið, sem er mjög hollt en öll okkar brauð eru sykurlaus, fitulaus og gerlaus,“ segir Jón.

Vinsælasta varan

Aðspurð hvaða vara sé vinsælust líta þau á hvort annað spyrjandi og segja eftir smá umhugsunarfrest að það sé erfitt að velja. „Sörurnar, franska bóndabrauðið, já og sólkjarnabrauðið hefur staðið upp úr í mörg ár svo er það náttúrulega núggat og skógarberjatertan,“ segir Jón og Elín samþykkir, þá sérstaklega hvað varðar sólkjarnabrauðið, en bætir við að samlokurnar þeirra séu líka svakalega vinsælar, hvítlaukssamlokan sem dæmi.

Fjölmargir fastagestir

Kökulist á afar marga fastaviðskiptavini sem koma aftur og aftur og sumir lengra að en aðrir. „Þýsk kona úr Kópavoginum kemur sem dæmi hingað reglulega til að kaupa rúnstykki en segist bara fá hjá okkur rúnstykki eins og heima í Þýskalandi. Þá hef ég ósjaldan hitt fólk sem talar um að við séum bakaríið með góðu brauðin,“ segir Jón og telur að margir kunni að meta það að þau geri enn ótrúlega margt á gamla mátann og það skili sér að hann hafi enn ástríðu fyrir starfi sínu.

Elín stendur reglulega fyrir aftan afgreiðsluborðið og þekkir orðið mjög marga viðskiptavini. Hún segir að meðal daglegra gesta séu Hafnfirðingar á eftirlaunum sem komi til þeirra og sitji saman í dágóða stund á kaffitorginu til að leysa heimsins vandamál. Annars séu viðskiptavinir þeirra á öllum aldri.

Veisluþjónusta, tyllidagar og netverslun

Kökulist hefur verið með veisluþjónustu til fjölda ára og þau segja að margar fjölskyldur sem og fyrirtæki snúi sér alltaf til þeirra þegar eitthvað stendur til. „Það eru ófáar fjölskyldurnar sem hafa keypt skírnarkökur, fermingarkökur og síðan brúðkaupstertur hjá okkur og önnur kynslóð fjölskyldunnar farin að taka við.“

Þá segja þau að salan í kringum hina ýmsu tyllidaga í kringum árið aukist jafnt og þétt. Næst á dagskrá sé Valentínusardagurinn, þá konudagurinn og í lok mánaðarins bolludagurinn sem sé vissulega stærstur. „Við bökum um 15 þúsund bollur og það eru mörg handtök við hverja einustu bollu og sá dagur krefst því mjög mikils undirbúnings,“ segir Jón.

Elín segir að í nokkur ár hafi þau verið að selja vörur í gegnum netverslun sína og það hafi orðið lygilega mikil aukning þar undanfarin ár, þá sérstaklega þegar kemur að myndskreyttum barnatertum.   

Áhrif Covid

Heimsfaraldurinn hefur vissulega haft sín áhrif hjá Kökulist en það hefur þó alls ekki verið samdráttur, ef eitthvað er þá frekar aukning. Elín segir að fólk sé greinilega meira í því að gera sér dagamun en sé einnig oft að kaupa eitthvað til að gleðja aðra. „Hingað koma margir sem vilja færa vinum eða ættingjum eitthvað í einangrun eða handa eldra fólki á dvalarheimilum eða sjúkrahúsum,“ segir Elín og Jón bætir við að þá séu margir ansi úrræðagóðir en nýverið hafi þau sem dæmi útbúið 100 manna erfidrykkju þar sem hver skammtur var settur í öskju sem fólk fékk þegar það gekk út úr kirkjunni. „Mér finnst líka að fólk hafi lært ákveðið æðruleysi og flestir kippa sér ekki lengur upp við það að þurfa að standa smá í röð, eitthvað sem reyndist mörgum erfitt áður fyrr,“ segir Jón.

Þau segjast annars hafa sett upp tvær aðskildar vaktir í vinnslunni snemma í faraldrinum og séu sérstaklega þakklát fyrir það núna undanfarnar vikur þegar omíkron afbrigðið hefur geysað yfir og stundum staðið tæpt með að halda öllu opnu.

Hafnfirðingar tryggir sínum

Aðspurð um hvað sé best við Hafnarfjörðinn er Jón fljótur að svara að þetta sé eitthvað fallegasta bæjarstæði á landinu og hér sé ótrúlega mikill bæjarbragur. „Ég hef sem dæmi verið kynntur af manni fyrir öðru fólki á 17. júní sem bakarinn minn,“ segir Jón og brosir.  

Elín segir að Hafnfirðingar séu einnig ákaflega tryggir fyrirtækjunum í bænum og versli helst í heimabyggð, eitthvað sem henni þykir vænt um. „Þó ég sé ekki fædd hér og uppalin þá finnst mér ég vera orðinn mikill Hafnfirðingur og farin að þekkja mjög marga og vil núna hvergi annars staðar búa.“

Ferðalög, fluguveiði og fjölskyldan

Jón og Elín segjast vera dugleg að ferðast, hafa nokkrum sinnum farið hringinn og skoða þá gjarnan ár og fossa og fara einnig á fjöll. „Við höfum í gegnum árin einnig verið dugleg að ferðast til útlanda, bæði í lengri og styttri ferðir,“ segir Elín og bætir við að þá fari þau gjarnan á skíði og séu í raun mjög aktív, alltaf eitthvað að gera.

„Ég fer einnig reglulega í fluguveiði í góðra vina hópi“, segir Jón en bætir við að fjölskyldusamvera sé þeim einnig afar kær en saman eiga þau stóran hóp, alls sex börn og sjö barnabörn.

Read More
Markaðsstofa Hafnarfjarðar Markaðsstofa Hafnarfjarðar

Markus Lifenet

Hafnfirska björgunarbúnaðsfyrirtækið Markus Lifenet ehf hefur verið starfandi í rúm 40 ár og selur vörur sínar um allan heim. Þökk sé Markúsarnetinu hefur þúsundum mannslífa verið bjargað.

Hafnfirska björgunarbúnaðsfyrirtækið Markus Lifenet ehf hefur verið starfandi í rúm 40 ár og selur vörur sínar um allan heim. Þökk sé Markúsarnetinu hefur þúsundum mannslífa verið bjargað.

Við hittum feðginin Pétur Theodór Pétursson og Rakel Ýr Pétursdóttur til að kynnast rekstrinum.

Fyrirtæki vikunnar

Markúsarnetið er hafnfirsk uppfinning sem hefur bjargað þúsundum mannslífa.

Hafnfirskur frumkvöðull

„Afi minn Markús B. Þorgeirsson, skipstjóri, var mikill frumkvöðull og hannaði upphaflega Markúsarnetið sem er nú selt um allan heim og það því nefnt eftir honum,“ segir Rakel en netið er fyrst og fremst hannað til að einn björgunarmaður geti komið manni í öryggi og tveir menn geti lyft einum manni í einu með handafli upp á björgunardekk.

Markús var að sögn Péturs alla tíð mjög björgunarsinnaður og telur að það að hafa misst félaga á sjó árið 1952, eftir að hafa sjálfur reynt að bjarga viðkomandi, hafi alla tíð setið í honum. „Árið 1979 var hann að vinna hjá Samskipum við að gera landgangsnet og þar kviknaði í raun hugmyndin að Markúsarnetinu og árið 1981 var hann byrjaður að kynna það og framleiða,“ segir Pétur og bætir við að ári seinna hafi hann hlotið styrk frá Alþingi og fór um landið til að kynna búnaðinn sem leiddi til þess að árið 1986 voru íslensk skip orðin skyldug til að vera með svona björgunarbúnað um borð.

Pétur og Katrín taka við

Markús lést árið 1984 aðeins sextugur að aldri en árið áður hafði Pétur byrjað að aðstoða tengdapabba sinn við þróun og framleiðslu á netinu samhliða starfi sínu sem smíðakennari í Víðistaðaskóla. „Eftir andlát Markúsar ákváðum við hjónin, Katrín og ég, að stökkva út í djúpu laugina og taka við rekstrinum, sem var samt alls ekki sjálfgefið enda við með litla reynslu af rekstri og bæði ánægð í okkar kennarastörfum. Í kjölfarið fór ég í nám hjá Iðntæknistofnun og áttaði mig þá fljótlega á því að ég yrði að hugsa þetta allt í stærra samhengi,“ segir Pétur og á þá við að þetta snerist ekki bara um að framleiða björgunarnet heldur hvernig eigi að bjarga mönnum úr sjó og þeirra hlutverk væri jafnframt að koma þeirri þekkingu áfram.

„Á þessum tíma sá mamma um saumaskapinn, sem lá aldeilis vel fyrir handavinnukennaranum en pabbi einbeitti sér meira að því að betrumbæta hönnunina og sækja ný efni,“ segir Rakel og pabbi hennar skýtur inn í að á þessum tíma hafi rauði kassinn eða hylkið sem enn í dag er notað undir Markúsarnetið orðið til en frummyndin myndaðist í smíðastofunni í Víðistaðaskóla.

Mikil þróun og breiðari framleiðslulína

Fyrirtækið fór mjög fljótt að hugsa út í heim og til urðu fleiri björgunarvörur. Í dag framleiða þau fyrir utan Markúsarnetið, neyðarstiga, kastlínu og klifurnet í mörgum stærðum. „Við byrjuðum á því að gera veltinet í slöngubáta en þau hafa þróast í mjög stór klifurnet. Við framleiðum sem dæmi net fyrir olíupramma sem eru þrír metrar á breidd og 25 metrar á lengd,“ segir Pétur en björgunarvörur þeirra eru nú fáanlegar fyrir allar tegundir báta, skip, borpalla og hafnarsvæði, virkjanir og brýr.

„Markúsarnetið hefur verið stöðluð vara frá árinu 1998 og því aðeins verið gerðar á því smávægilegar breytingar þá sérstaklega í takt við þróun í efnum sem hefur hjálpað okkur,“ segir Rakel en netin skemmast ekki eða morkna ef rétt farið með þau og 30 ára gömul net, sem hugsað hefur verið um, virka því enn vel.

Öflugt gæðastarf

Pétur hefur sérhæft sig í viðfangsefnum sem varða maður fyrir borð öryggi og björgun og meðal annars verið tæknilegur ráðgjafi í sendinefnd Íslands á tækninefndarfundum Alþjóða Siglingastofnunarinnar. „Í dag þurfa, samkvæmt alþjóðalögum, öll skip að vera með áætlun og framkvæmdarplan um hvernig þau ætli að bjarga fólki. Þar er stuðst við alþjóðastaðlinn ISO 19898, sem er í grunninn alíslenskur staðall sem ég vann meðal annars að. Að mínu mati þá hafði Markúsarnetið mikið að segja í þeirri vinnu og hafði áhrif á þessi alþjóðalög,“ segir Pétur.

Viðskiptavinir um allan heim

Markus Lifenet á í dag viðskiptavini um allan heim, s.s. í Ástralíu, Dubai, Rotterdam, Kína og Bandaríkjunum. „Söluaðili okkar í Bandaríkjunum selur mikið til bandarísku strandgæslunnar og þá  notar taívanski herinn og taívanska strandgæslan mikið vörur frá okkur,“ segir Pétur og Rakel bætir við að þau selji líka mikið til olíuborpalla í Nígeríu.

Þau segjast annars auglýsa vöruna lítið, treysti á sín gæði og þetta sé mest nokkurs konar word of mouth sala. „Gott dæmi er þegar Íslenska strandgæslan var við störf við Miðjarðarhafið og notaði netin okkar varð í kjölfarið mikil aukning í eftirspurn. Við eigum þó vissulega nokkra samkeppnisaðila víðs vegar um heiminn en netin okkar eru léttari og meðfærilegri og þar af leiðandi oft vinsælli,“ segir Rakel og brosir.

Þriðji ættliðurinn tekur við

Rakel sér í dag að mestu leiti um allan daglegan rekstur fyrirtækisins. „Ég sinni enn vissri þróunarvinnu og vinnslu staðla en þarf ekki lengur að mæta hingað á hverjum degi,“ segir Pétur ánægður. Rakel segist hafa verið alin upp í fyrirtækinu, enda yngst í systkinahópnum og þegar hún lauk viðskiptafræði árið 2008 bauðst henni vinna í fyrirtækinu og hún sló til. „Ég bjóst kannski ekki við því þá að vera hérna svona lengi en þetta er mjög gaman. Þetta er mín fjölskyldusaga, ég er með þetta í blóðinu. Þá þykir mér ekki síður gaman að sjá hluti verða til, ná að hafa áhrif út á við, sérstaklega þegar kemur að allri hugsun tengdri björgun.“

Hún segir að fjölbreytnin í starfinu henti henni ákaflega vel, það sé fínt að sitja við tölvuna í tvo tíma en skella sér þess á milli í saumaskapinn, í pökkun eða gera prófanir. „Ég brenn annars fyrir því að betrumbætur verði gerðar varðandi reglulega skoðun á búnaði hér á landi. Bretar og Japanir eru orðnir mjög öflugir á þessu sviði og það er viss vakning í gangi í heiminum varðandi þetta og við Íslendingar eigum að gera betur,“ segir Rakel ákveðin en skoðunarþjónusta hefur aukist töluvert í þeirra rekstri undanfarin ár.

Áhrif Covid

Að sögn Rakelar hefur áhrif Covid á reksturinn í raun bara verið jákvæður þar sem margir nýttu tímann til að gera upp bátana sína og keyptu nýjan búnað. „Við vorum sem dæmi með heilmikla sölu í Bandaríkjunum og stóru flutningafyrirtækin í Rotterdam voru einnig mikið að yfirfara sín skip og endurnýja búnað.“

Hún segir að þau hafi sem betur fer aldrei þurft að loka og enginn starfsmaður smitast. „Við höfum líka verið á fullu að koma okkur fyrir í nýja húsnæðinu okkar hér á Hvaleyrarbrautinni sem við fluttum inn í upphafi faraldursins í febrúar 2020.“ Hún segir að þó hafi vissulega verið meiri óvissa með afhendingu á birgðum erlendis frá en þau hafi sem betur fer aldrei lent í því að eiga ekki hráefni, þó stundum hafi það staðið tæpt.

Þytur og Hellisgerði í uppáhaldi

Pétur hefur búið í Hafnarfirðinum frá árinu 1969 og kann ákaflega vel við sig. „Þetta er fallegur bær, hér er allt til alls og stutt að fara.“ Aðspurður um uppáhaldsstað sinn í bænum er Pétur fljótur að nefna siglingaklúbbinn Þyt, sem hann stofnaði á sínum tíma og veitti forstöðu til margra ára.

Rakel er fædd og uppalin á Hverfisgötunni og segist varla hafa farið út úr bænum til tvítugs. Í dag býr hún þó í Reykjavík en dreymir um að flytja aftur í Hafnarfjörðinn. „Hér er skemmtilegur miðbær og ég sæki mikið í alla þjónustu hér og verð að viðurkenna að stundum er ég nú abbó út í vini mína sem geta bara labbað heim eftir tónleika í Bæjarbíó eða góðan kvöldverð á VON,“ segir Rakel og bætir við að Hellisgerði sé líka í uppáhaldi og þangað sé alltaf gott að koma.

Siglingar, ættfræði og matur

Pétur segist eiga fjölmörg áhugamál en siglingar séu þar fremstar, bæði módelsiglingar og alvöru siglingar. „Ég hef siglt um heimsins höf og reyni að sigla sem oftast. Þá finnst mér ákaflega gaman sjá krakka þroskast í siglingum,“ segir Pétur og bætir við að þessa dagana sé hann líka á bólakafi í ættfræði og hafi ákaflega gaman af því.

„,Matur er mitt áhugamál, þá sérstaklega að prófa eitthvað nýtt og njóta hans,“ segir Rakel en maðurinn hennar er matreiðslumaður og hún segir að þau fari mikið út að borða og líka til útlanda til að njóta matar. Þá segist hún vera fótboltamamma og eiga hund sem dragi hana í fjallgöngur. Hún láti hins vegar sjóinn alveg eiga sig, ólíkt föður sínum og kunni mun betur við sig á landi.   

Read More
Markaðsstofa Hafnarfjarðar Markaðsstofa Hafnarfjarðar

Bæjarbúð

Bæjarbúð á Strandgötunni er að sögn eiganda fljótandi rými fyrir allskonar uppsprettu hönnunar en búðin á eldri systir á Djúpavogi sem kallast Bakkabúð.

Við hittum eigandann Guðmundu Báru Emilsdóttur til að kynnast rekstrinum.

Bæjarbúð á Strandgötunni er að sögn eiganda fljótandi rými fyrir allskonar uppsprettu hönnunar en búðin á eldri systir á Djúpavogi sem kallast Bakkabúð.

Við hittum eigandann Guðmundu Báru Emilsdóttur til að kynnast rekstrinum.

Fyrirtæki vikunnar

Bæjarbúð á Strandgötunni er að sögn eiganda fljótandi rými fyrir allskonar uppsprettu hönnunar

Fjárfestu í Strandgötunni

Sögu Bæjarbúðar má rekja til Bakkabúðar á Djúpavogi þar sem Guðmunda er fædd og uppalin. „Við mamma heitin keyptum saman gjafavöru- og minjagripaverslunina Bakkabúð árið 2016 og í kjölfarið ákváðum við fjölskyldan að stofna heildsölu með ýmsar hönnunarvörur.“

Eftir að hafa verið í nokkur ár að leigja húsnæði undir skrifstofu og lager hér í Hafnarfirði sáu þau húsnæðið á Strandgötu 43 til sölu og ákváðu að festa kaup á því. „Við fjárfestum sem sagt í Strandgötunni en upphaflega ætluðum við bara að vera með nokkurs konar sýningarsal fyrir heildverslunina en verandi komin í svona flott rými ákváðum við frekar að opna verslun,“ segir Guðmunda og bætir við að baka til séu þau einnig með skrifstofu sem nýtist vel.

Öðruvísi heimur hönnunar

Viðtökurnar við versluninni hafa verið mjög góðar að sögn Guðmundu. Hún segir að Hafnfirðingar séu duglegir að koma og þeir hafi sem dæmi haldið uppi þorranum af jólaverslun. Það hefur komið henni á óvart hvað margir koma hingað úr Reykjavík og greinilegt að fólk vilji koma í öðruvísi verslanir, sjá eitthvað nýtt.

„Ég segi oft að við séum öðruvísi heimur hönnunar, hér sér fólk merki sem það sér ekki annars staðar. Ég er mikill grúskari og er alltaf að leita að einhverju nýju, það er mitt áhugamál og margir ánægðir með það. Þá skiptir persónuleg þjónusta miklu máli og ég er því mikið sjálf í búðinni,“ segir Guðmunda og bætir við að enginn dagur sé eins í versluninni, stundum komi margir en aðra daga sé rólegt en þá gefist henni tími til að vinna að eigin hönnun og sinna öðrum verkum.

Vinsælustu vörurnar

Roka töskurnar og bókaljósin eru vinsælustu vörurnar í Bæjarbúð. „Við erum búin að vera með töskurnar í heildsölu í nokkur ár. Erum fyrsti heildsalinn á heimsvísu sem fór að selja þessar töskur en við kynntumst hönnuðinum á hans fyrstu sýningu. Salan fór samt hægt af stað en þegar þær komu í gluggann á Strandgötu urðu þær fljótt mjög vinsælar hér á landi. Töskurnar eru úr endurunnu efni og í dag seldar um allan heim.“

Þá segir Guðmunda að bókaljósin frá enska merkinu Gingko séu mjög vinsæl og hafi farið í marga jólapakka. „Þetta eru endurhlaðanlegir lampar til í ýmsum útfærslum og eru nokkurs konar skúlptúrar sérstaklega stærri gerðin.“

Eigin hönnun

Guðmunda hefur í nokkur ár unnið að hönnun vörumerkisins Krækiberið sem þau fjölskyldan eiga og selja mikið af á Djúpavogi og í verslanir víðs vegar um landið. Þar er aðaláherslan á vörur fyrir ferðamenn s.s. lundavörur, slæður, viskustykki og fleira.

„Á síðasta ári ákvað ég síðan að stofna nýtt merki sem sérhæfir sig í vörum úr íslenskri ull. Ég gaf því nafnið Ahoj og hef nú þegar hannað og látið framleiða hér á Íslandi húfur og sokka. Þessa dagana er ég að teikna peysur og hef ákveðið að gefa sköpuninni meira pláss á þessu ári,“ segir Guðmunda sem hefur verið að teikna og skapa síðan hún var lítil.

Góð jólaverslun og aukning í netverslun

Jólaverslunin í Bæjarbúð var góð og nokkur aukning frá árinu áður. „Verslunin var samt mjög dreifð yfir allan mánuðinn og fullt af fólki sem var að koma í fyrsta sinn í búðina. Þetta var skemmtilegur desember og greinilegt að fólk vildi versla við kaupmanninn á horninu.“

Að sögn Guðmundu var einnig mikil aukning í netversluninni en það sé hennar reynsla að nauðsynlegt er að sinna þeirri verslun vel. „Við settum mikið púður í netverslunina síðustu þrjá mánuði ársins og það skilaði sér greinilega. Ég sé því fyrir mér að halda áfram að vera dugleg að klappa henni,“ segir Guðmunda og bætir við að margir velji að koma í búðina og sækja vöruna og þá myndist líka persónuleg og góð samskipti við viðskiptavini.  

Bæjarbúð á nú þegar marga góða og trygga viðskiptavini sem eru spenntir að fylgjast með nýjum hönnunarvörum sem Guðmunda finnur. „Ég fer allavega tvisvar á ári á sýningar erlendis og uppgötva þar margar vörur. Tek oftast inn vörur í litlu magni í upphafi, sé hvernig gengur og ef mér líst vel á merkið þá sækjum við um umboðið. Við erum því mikið að rótera vörum og alltaf að koma með eitthvað nýtt.“ Hún er einmitt á leið til Parísar í vikunni en sækir annars mikið sýningar á Englandi og á Norðurlöndunum.  

Áhrif Covid

Aðspurð um áhrif Covid á reksturinn segir Guðmunda að verslunin hafi opnað í blússandi Covidástandi og því lítið um samanburð. Hún hafi þó alltaf haldið í trúnna um að þegar fólk sé mikið heima þá kaupi það sér gjarnan eitthvað fallegt og það hafi raungerst. Það hafi þó vissulega komið vikur þegar enginn var á ferli en þá hafi hún bara nýtt tímann í að vinna að öðrum verkefnum. Í heildina hafi tekjumissirinn allavega ekki verið mikill.

Hálfur Hafnarfirðingur

Eins og fram hefur komið er Guðmunda fædd og uppalin á Djúpavogi en segist samt vera hálfur Hafnfirðingur. „Afi minn er héðan og stór hluti fjölskyldu minnar býr hér og svo er ég gift inn í hafnfirska fjölskyldu og ég vil hvergi annars staðar vera,“ segir Guðmunda sem hefur núna búið í firðinum fagra í um tólf ár.

„Ég þarf að vera nálægt sjónum og höfninni og komandi frá litlu bæ finnst mér geggjað að upplifa hlýleikann og smábæjarbraginn.“

Jóga við eldavélina

Guðmunda segir að það sé erfitt að aðgreina vinnuna frá áhugamálunum þar sem hönnun sé hennar helsta áhugamál. „Ég elska líka að elda og segi stundum að mitt jóga fari fram við eldavélina. Þar geri ég alls konar tilraunir og tek viss tímabil, elda kannski mikið indverskt einn mánuðinn en fer í einhverja allt aðra átt í næsta mánuði.“ Aðspurð um uppáhalds matinn sinn segir hún það vera lasagne. „Ég er búin að mastera það og geri besta lasagne í heimi en leyndarmálið er góð tómatpúrra og nautakraftur.“

Þá segir Guðmunda að náttúran sé henni jafnframt ákaflega mikilvæg. „Ég er samt alls engin útivistartýpa en finnst gott að vera úti og týni mjög gjarnan steina og skeljar og er í raun alltaf með einhverja steina á mér,“ segir Guðmunda brosandi að lokum.

Read More
Markaðsstofa Hafnarfjarðar Markaðsstofa Hafnarfjarðar

Bifvélavirkinn

Bifvélavirkinn á Norðurhellu sérhæfir sig í viðgerðum á Volvo og til hans koma bílar víðs vegar af landinu.

Við hittum eigandann Jóhann David Barðason til að kynnast rekstrinum.

Bifvélavirkinn á Norðurhellu sérhæfir sig í viðgerðum á Volvo og til hans koma bílar víðs vegar af landinu.

Við hittum eigandann Jóhann David Barðason til að kynnast rekstrinum.

Fyrirtæki vikunnar

Bifvélavirkinn á Norðurhellu sérhæfir sig í viðgerðum á Volvo og til hans koma bílar víðs vegar af landinu.

Bifvélavirkinn laus

Jóhann hafði í nokkurn tíma hugsað um að fara út í eigin rekstur þegar hann lét loksins verða að því árið 2017 og fékk þá húsnæðið á Norðurhellu. „Ég var búin að vinna á bifreiðaverkstæðum til fjölda ára, bæði sem bifvélavirki og yfirmaður, lauk sveinsprófi í faginu árið 2006 og var kominn með meistarabréf árið 2013. Það var því kominn tími til að vera sjálfstæður“. Í upphafi vann hann á sinni eigin kennitölu en árið 2018 stofnaði hann loks fyrirtæki utan um reksturinn. „Stærsti hausverkurinn var að finna nafn. Ég sat hjá bókaranum mínum og spurði meira í gríni en alvöru hvort Bifvélavirkinn væri ekki bara laust. Okkur báðum til undrunar reyndist svo vera og ég var ekki lengi að taka ákvörðun,“ segir Jóhann og brosir.

Hann segir að einn helsti kosturinn við að vera með lítið verkstæði er að geta veitt persónulega þjónustu og eiga í nánara sambandi við viðskiptavini. „Það voru líka viss vinnubrögð sem ég vildi viðhafa en á stærri verkstæðum getur verið erfitt að koma breytingum í gegn. Þó flestir væru sammála þá gerðist bara ekkert“ segir Jóhann ánægður með að vera sinn eigin herra.

Vélaáhuginn vaknaði í tívolíinu

Áhugi Jóhanns á tækjum og bílum vaknaði strax á barnsaldri. „Pabbi var vörubílstjóri og ég á margar góðar minningar af bifreiðaverkstæðum. Við bjuggum meðal annars í Hveragerði og í nokkur ár sá pabbi um öll tækin í tívolíinu þar í bæ. Meðan aðrir krakkar fóru í tækin þá var ég meira í því að vera inni í tækjunum með pabba, yfirfara vélarnar og gera við“. Hann byrjaði því í vélfræði strax eftir grunnskólann en áttaði sig fljótt á því að hann vildi ekki vera vélstjóri á sjó og skipti yfir í bifvélavirkjann og sér alls ekki eftir þeirri ákvörðun.

Sérfræðingur í Volvo

Bifvélavirkinn tekur að sér allar hefðbundnar viðgerðir, bilanagreiningu, smurþjónustu, olíuskipti á sjálfskiptingum, ljósastillingar og þjónustu við loftkælingar (AC-kerfi). Verkstæðið hefur sérhæft sig í Volvo og Ford bifreiðum en tekur vissulega á móti öðrum gerðum bíla.

„Sérhæfingin felst einna helst í því að við eigum öll sérhæfðu verkfærin sem þarf til að gera við Volvo og kaupum jafnframt aðgang að tækniupplýsingum sem nauðsynlegt er að hafa við bilanagreiningu“. Hann segir að meirihluti viðskiptavina sinna séu því á Volvo og margir komi ansi langt að til að láta laga bílinn sinn. „Við erum í raun orðið landsþekkt verkstæði þegar kemur að Volvo en hingað hafa komið bílar frá Ísafirði, Akureyri, Egilsstöðum, Sauðárkrók og Höfn í Hornafirði. Þá eigum við líka ansi marga fasta viðskiptavini frá Akranesi og af Reykjanesinu fyrir utan alla á höfuðborgarsvæðinu“, segir Jóhann en samkvæmt honum spyrst þjónustan út meðal Volvo-eiganda en hann passar líka upp á að auðvelt er að finna upplýsingar um verkstæðið á netinu.

Gæðavottun og snyrtimennska

Bifvélavirkinn er gæðavottað verkstæði sem Jóhann telur vera ákaflega mikilvægt. „Til að hljóta svona vottun þarf að vera starfandi meistari á staðnum, starfsleyfi og tryggingar að vera í lagi og nauðsynlegt að fara eftir öllum lögum og reglum“, segir Jóhann en gæðavottunin er gefin út af Bílgreinasambandinu og hana þarf að endurnýja árlega.

Þá er mikið lagt upp úr snyrtimennsku í starfsemi Bifvélavirkjans. „Þetta er ekki eins sóðaleg starfsemi og var hér áður fyrr. Mér finnst því að ímyndin sem bílaverkstæði hafa, oft á tíðum vera orðin gömul og ekki sanngjörn. Það hefur orðið viss vitundarvakning og verkstæði þarf ekki að vera skítugt en starfsmenn þurfa vissulega að vera meðvitaðir og leggja sig fram við að lágmarka óþrifnað“, segir Jóhann og útskýrir hvernig sé til dæmis hægt að vera með ruslatunnu undir bílnum þegar verið er að vinna í óhreinum bremsum.

Lánar viðskiptavinum bíl  

Fyrir um einu ári síðan ákvað Jóhann að kaupa tvo bíla sem viðskiptavinir geta fengið að láni, meðan á viðgerðum stendur, þeim að kostnaðarlausu. „Með þessu erum við að auka þjónustustigið til muna og hefur oft á tíðum orðið til þess að fólk hefur ákveðið að koma með bílinn hingað. Þetta eykur sveigjanleika fólks en ég veit ekki um önnur verkstæði sem bjóða upp á þessa þjónustu“, segir Jóhann og býst við því að auka við lánsbílaflotann í framtíðinni.

Leitar að stærra húsnæði

Bifvélavirkinn hefur frá upphafi verið á Norðurhellu, hefur stækkað við sig einu sinni en þarf á enn stærra húsnæði að halda. „Ég er byrjaður að leita að nýju húsnæði, þarf um 300 fermetra en gengur því miður illa að finna eitthvað hentugt. Fann reyndar eitt gott um daginn en það var því miður í Kópavogi og þangað vil ég ekki fara“, segir Jóhann sem telur ákaflega mikilvægt að vera í svona rekstri í sama sveitarfélagi og hann býr í og ef einhver veit um eitthvað heppilegt húsnæði má endilega hafa samband.

Áhrif Covid

Aðspurður um áhrif Covid á reksturinn segir Jóhann að þau hafi verið engin, ef einhver þá bara jákvæð. „Það var rosalegur vöxtur á síðasta ári sem má kannski rekja til þess að Íslendingar voru meira heima að ferðast á sínum bílum“.

Giftur inn í Hafnarfjörð

Eins og fram kom hér á undan er Jóhann uppalinn í Hvergerði en hefur búið lengst í Hafnarfirði. „Ég er giftur inn í Hafnarfjörð og það kom aldrei neitt annað til greina en að búa hér, nú eða vera í fjarbúð“, segir Jóhann og hlær. Það sem honum finnst annars best við Hafnarfjörðinn er smábæjarbragurinn og þorpsstemmningin. „Það koma jú margir Hafnfirðingar hér á verkstæðið og byrja að spjalla og það er einhver sjarmi yfir því að geta fundið einhverja tengingu við flesta. Við búum í sama hverfi eða erum með börn í sama skóla eða íþróttastarfi“, segir Jóhann sem er nýfluttur í Norðurbæinn eftir mörg ár í Setberginu.

Handverk, ferðlög og veiðar

Þegar Jóhann er ekki að sinna bílum þá segist hann hafa gaman að ýmislegu sýsli og handverki. „Ég hef eitthvað verið í járnsmíði en einnig verið að föndra við tré og smíðaði sem dæmi sófaborðið heima sjálfur.“ Undanfarna mánuði hefur mikið af frítímanum annars verið nýttur í að sinna húsinu sem þau fjölskyldan fluttu í núna í sumar.

„Við ferðumst líka mikið innanlands með fellihýsið í eftirdragi og ég fer á veiðar, bæði skot og stöng. Þá reyni ég að verja sem mestum tíma með börnunum og fylgist með þeim í þeirra íþróttum sem felur í sér mikið áhorf á handbolta-, körfubolta og fótboltaleiki“, segir Jóhann að lokum.

Read More
Markaðsstofa Hafnarfjarðar Markaðsstofa Hafnarfjarðar

Málmsteypan Hella

Fjölskyldufyrirtækið Málmsteypan Hella á Kaplahrauni hefur verið starfandi í yfir 70 ár og framleiðir fjölbreyttar vörur fyrir iðnaðarfyrirtæki en einnig frægu íslensku pönnukökupönnuna, leiðisplötur og húsnúmer.

Við hittum bræðurna Grétar Má og Leif Þorvaldssyni til að kynnast rekstrinum.

Fjölskyldufyrirtækið Málmsteypan Hella á Kaplahrauni hefur verið starfandi í yfir 70 ár og framleiðir fjölbreyttar vörur fyrir iðnaðarfyrirtæki en einnig frægu íslensku pönnukökupönnuna, leiðisplötur og húsnúmer.

Við hittum bræðurna Grétar Má og Leif Þorvaldssyni til að kynnast rekstrinum.

Fyrirtæki vikunnar

Fjölskyldufyrirtækið Hella framleiðir fjölbreyttar vörur fyrir iðnaðarfyrirtæki en einnig frægu íslensku pönnukökupönnuna, leiðisplötur og húsnúmer.

Íslenska pönnukökupannan

Hella hefur verið starfrækt allt frá árinu 1949 þegar Leifur Halldórsson, móðurafi Leifs og Grétars, stofnaði fyrirtækið ásamt nokkrum öðrum. „Í fyrstu voru framleidd búsáhöld, svo sem pottar og pönnur, og ýmsir hlutir til viðhalds á vélum og tækjum. Þar á meðal ýmislegt fyrir sjávarútveg og landbúnað enda mikið um innflutningshöft á þessum tíma og menn urðu að bjarga sér“, segir Leifur og bætir við að fyrirtækið hafi strax á upphafsárunum byrjað að framleiða íslensku pönnukökupönnuna sem er enn í dag framleidd og seld hjá Hellu.

Rótgróið fjölskyldufyrirtæki

Eins og fyrr segir stofnaði móðurafi Leifs og Grétars Hellu í slagtogi við nokkra aðra. Í kringum árið 1980 var fyrirtækið hins vegar alfarið komið í hendur móðurfjölskyldu þeirra og Þorvaldur faðir þeirra varð síðar framkvæmdastjóri. „Við bræður höfum unnið alla okkar starfsævi hér, byrjuðum ungir og þekkjum ekkert annað. Fyrir nokkrum árum keyptum við foreldra okkar út úr rekstrinum og eigum þetta tveir í dag“, segir Grétar en aðspurður um næsta ættlið segir hann að það sé algjörlega óráðið. Leifur bætir þá við að sonur hans starfi hjá þeim í dag og elsta dóttir Grétars taki einnig að sér ýmis störf samhliða skóla. „Við bræður verðum nú samt hér í mörg ár í viðbót og ótímabært að huga að því hvað næsti ættliður gerir“, segir Leifur og brosir.

Fjölbreytni og persónuleg þjónusta

Í dag hefur fjölbreytnin í framleiðslu Hellu aukist töluvert og alltaf einhver þróun í gangi. „Við erum með mikið af föstum viðskiptavinum s.s. álverið í Straumsvík og hafnfirsku vélsmiðjurnar Héðinn og Hamar og þá kaupa Trefjar líka mikið af okkur. Við framleiðum líka raflínubúnað í háspennulínur, fastsetningapolla fyrir skip og báta, upphækkunarsett fyrir bíla, ýmis tæki til matvælavinnslu sem og vegvísa og skilti“.

Grétar segir að oft á tíðum standi viðskiptavinurinn frammi fyrir einhverjum vanda og þeir bræður séu þá oft fengnir með í lið til að finna hentuga lausn. „Persónuleg þjónusta er því klárlega einn af okkar styrkleikum. Við höfum gaman að því að takast á við nýjar áskoranir og mikið um tilraunar- og þróunarstarf hér innandyra“.

Endurvinna ál

Hella kaupir mikið af brotamálm frá vélsmiðjum og öðrum fyrirtækjum sem yrði annars hent eða flutt úr landi. „Hátt í 40% af okkar framleiðslu er úr endurunnu áli og við erum þeir einu á landinu sem erum að endurvinna ál í miklu magni“, segir Leifur og bætir við að í gegnum tíðina hafi sem dæmi nokkur starfsmannafélög komið til þeirra með ál úr gömlum tækjum sem fyrirtæki eru að endurnýja og leyfa starfsmönnum að selja og nýta í sinn sjóð.

Eitt af því sem framleitt er í Hellu úr endurunni áli eru fallegu útibekkirnir sem finna má víðsvegar um landið. Þá var Hella meðal styrktaraðila í verkefninu Brúkum bekki þar sem Félag eldri borgara kom meðal annars að átaki í fjölgun bekkja við göngustíga bæjarins. Ýmis fyrirtæki studdu framtakið með kaupum á bekkjum sem allir voru framleiddir í Hellu, sem gaf einnig ellefta hvern bekk.

Krossar, leiðisplötur, húsnúmer ofl.

Í anddyri Hellu er jafnframt verslun þar sem hægt er að panta krossa, leiðisplötur og ýmis konar aukahluti fyrir leiði. Þá má kaupa húsnúmer og nafnamerkingar á hús eða sumarbústaði sem og frægu pönnukökupönnuna og samlokugrill.

Þar má líka sjá hin ýmsu skilti en samkvæmt þeim bræðrum hefur Hella líklega framleitt flest ef ekki öll skilti sem eru á íslenskum brúm. „Við framleiðum einnig lögreglusylgjur sem allir lögreglumenn fá við útskrift og höfum einnig steypt ýmis listaverk í gegnum tíðina“.

Áhrif Covid

Heimsfaraldurinn hefur ekki haft mikil áhrif á rekstur Hellu. „Í fyrstu bylgjunni byrjuðum við reyndar á því að skipta okkur niður á vaktir og minnkuðu starfshlutfall enda mikil óvissa“, segir Grétar en þetta ástand stóð einungis yfir í nokkrar vikur.

Það hefur því flest gengið sinn vanagang og þeir bræður segja að það komi sér vel að vera nokkuð sjálfbærir og þurfa lítið að treysta á innflutning. „Vissir aðilar sem voru farnir að kaupa hluti af samkeppnisaðilum okkar erlendis eru nú komnir aftur til okkar og margir að átta sig á því hversu mikilvægt er að fyrirtæki eins og okkar sé starfandi hér á landi“, segir Leifur.

Upplandið í uppáhaldi
Þeir bræður hafa alla tíð búið í Hafnarfirði og Grétar er meiri að segja sannur Gaflari, einn af þeim síðustu sem fæddist á Sólvangi. Aðspurðir um hvað sé best við Hafnarfjörðinn segja þeir að bærinn sé einstaklega vel staðsettur, er ekki í Reykjavík en samt svo miðsvæðis. „Viðskiptavinir okkar eru sem dæmi flestir ekki lengi á leiðinni til okkar í Kaplahraunið“.

Þá segjast þeir nota upplandið ákaflega mikið enda náttúran þeim mikilvæg. „Við viljum helst fara þangað beint eftir vinnu, annað hvort á hjólum eða bara í göngu“, segir Leifur en hann er mjög tíður gestur á Helgafellinu. Grétar segir að hann sé meira á hjóli en fari af og til á Helgafellið með bróður sínum. „Við fórum sem dæmi upp á gamlársdag í fyrra og skutum upp rakettum og aldrei að vita nema við endurtökum það í ár“.  

Útivist og mótorhjól

Þeir bræður eru greinilega mjög samrýmdir og eru líka mikið saman í frítíma sínum enda áhugamálin af svipuðum toga. „Við erum útikarlar, förum gjarnan upp á hálendið og í fjallaferðir í stórum hópum“, segir Leifur bætir við að þeir séu félagar í Jöklarannsóknarfélagi Íslands og fari gjarnan í ferðir með þeim.

Þá eru þeir báðir á mótorhjólum, þá gjarnan í einhverjum torfærum og brölti en einnig komnir á rafmagnsfjallahjól. „Við fórum í rafmagnið fyrir um þremur árum, svona til að kolefnisjafna“, segir Grétar brosandi en bætir við að rafmagnshjólið sé öðruvísi en samt margt svipað og alltaf ákaflega skemmtilegt.

Read More