Verslunin Sassy á Flatahrauni selur meðal annars undirföt og aðalhaldsfatnað fyrir öll kyn en allt hófst þetta með leitinni að hinum fullkomu leggings. Við hittum Anítu Guðnýjardóttur eiganda verslunarinnar til að kynnast rekstrinum.
Leitin að fullkomnum leggings
Upphafið af Sassy ævintýri Anítu má rekja til ársins 2019 þegar hún var að leita að leggings þar sem aðhaldið er frá lífbeini og alla leiðina upp. „Ég eignaðist þrjú börn á þremur árum og líkami minn breyttist mikið á stuttum tíma. Ég var búin að leita og leita og prófa margar gerðir en engar þeirra hentuðu mér. Ég var því komin á það að láta framleiða svona buxur en áttaði mig fljótt á því að það væri of langt og flókið ferli. Þegar ég var við það að gefast upp datt ég niður á leggings frá kólumbíska merkinu Leonisa og sá strax að þarna væri þetta komið,“ segir Aníta sem ákvað að hafa samband við framleiðandann og spyrja hvort hún gæti ekki fengið að selja þær hér á landi. Úr varð að hún pantaði 20 stykki, beið í sex vikur og hoppaði af gleði þegar hún mátaði.
Stór fylgjendahópur á samfélagsmiðlum
Aníta hafði í nokkur ár verið virk á samfélagsmiðlum og hélt meðal annars út mömmubloggi og var dugleg á Snap Chat og var með nokkuð stóran fylgjendahóp. „Ég kynnti mínum fylgjendum buxurnar og áhuginn lét ekki á sér standa. Ég pantaði því fleiri og enn og aftur kláraðist lagerinn strax. Fyrir jólin 2019 pantaði ég því 200 leggings og allt fór á fullt, ég var komin í business og heim til mín streymdu konur sem fengu að máta. Á þessum tíma starfaði ég sem dagforeldri en er faglærður þjónn og var í þeim geira í tíu ár,“ segir Anita sem ætlaði sér aldrei í búðarrekstur og segist bara einhvern veginn hafa lent í þessu af hreinni tilviljun.
Flutti á Flatahraunið
Eftir að hafa verið með netverslun í um 18 mánuði og mikið með konur heima hjá sér að máta ákvað hún að leita eftir húsnæði fyrir verslunina. Úr varð að Sassy opnaði á Flatahrauninu í júlí árið 2021 enda einnig farin að selja aðhaldsnærbuxur, aðhaldssamfellur, sundboli og hjólabuxur frá Leonisa. „Á þessu tæpa ári erum við tvisvar búin að breyta og stækka verslunina enda framboðið alltaf að verða meira og fjölbreyttara,“ segir Aníta sem er annars sátt við staðsetninguna, hér séu næg bílastæði og auðvelt að finna verslunina en viðurkennir þó að hana dreymi um enn stærra húsnæði.
Aðgerðarfatnaður
Eitt að því sem hægt er að fá í Sassy er svokallaður aðgerðarfatnaður sem nýtist ákaflega vel og er í raun nauðsynlegur eftir hinar ýmsu lýtaraðgerðir. „Þetta gerðist eins og svo margt annað hér í Sassy hálf óvart. Viðskiptavinur sem var að fara í aðgerð sá á netinu að Leonisa væri einnig með aðgerðarfatnað og spurði hvort ég gæti pantað fyrir sig. Ég gerði það að sjálfsögðu og er í dag komin með fjölbreytt úrval af aðgerðarfatnaði og lýtalæknar farnir að benda á mig.“
Aðhaldsfatnaður fyrir karlmenn
Karlmenn eru einnig velkomnir í Sassy en Aníta segist vera sú eina á Íslandi sem selji aðhaldsfatnað fyrir karlmenn. „Ég varð vör við eftirspurn og ákvað að taka inn þessar vörur. Af hverju eiga karlmenn ekki að nýta sér aðhaldsfatnað eins og konur? Þetta snýst oft á tíðum ekki einungis um útlit heldur einnig um stuðning. Til mín koma sem dæmi margir sjómenn sem eru að vinna erfiðisvinnu og kaupa sér aðhaldsvesti sem veitir góðan stuðning við bakið. Þá er einnig hægt að fá aðhaldsboxers yfir magann og hlýraboli sem veita gott aðhald,“ segir Aníta sem skipulagði m.a. vel heppnað karlakvöld í versluninni í vetur og fékk manninn sinn til að standa vaktina. Hún segir að karlmenn séu í auknum mæli farnir að þora að koma í búðina en meirihlutinn versli þó í gegnum netið.
Brjóstaheilsa mikilvæg
Talandi um stuðning og aðhald þá er Anítu mjög umhugað að konur séu í réttum brjóstahaldarastærðum og þá sérstaklega þær sem eru með stærri brjóst. Hún fór nýverið til New York á undirfataráðstefnu og þar á meðal á brjóstahaldaranámskeið og lærði ótrúlega mikið um brjóstaheilsu. „Það minnkar sem dæmi vöðvabólgu mjög mikið að vera í réttri brjóstahaldarastærð þar sem áherslan er á að ummálið beri brjóstin frekar en axlirnar. Þetta skiptir svo miklu máli og mér finnst í raun ætti konum að vera kennt í grunnskóla hvað það gerir að vera í réttum haldara og mig langar svo að ná til þeirra allra yngstu með þetta mál,“ segir Aníta ákveðin og mælir jafnframt með að konur láti mæla brjóstaummálið reglulega þar sem brjóstin breytist og það sé ákaflega mismunandi hvaða brjóstahaldaragerð passar hverri og einni.
Fleiri merki og margar stærðir
Á ráðstefnunni í New York kynntist Aníta jafnframt mörgum nýjum merkjum og ákvað að taka nokkur þeirra inn í búðina. Þar á meðal er Nessa, pólskt brjóstahaldarafyrirtæki með skálastærðar frá B til S og nærbuxurnar má fá allt upp í 5 XL. Þá tók hún einnig inn nokkrar vörur frá bandaríska gæðamerkinu Commando, ásamt samfellum fyrir brúðarkjóla frá brasilíska merkinu Plie og þá er sending af brjóstahaldaralími frá Nood á leiðinni til landsins.
Aníta segist annars fá mikla aðstoð við val á vörum frá viðskiptavinum og fylgjendum sínum á samfélagsmiðlum. „Ég sýni oft vörurnar fyrst á Instagram og athuga viðbrögðin og ákveð þá í kjölfarið hversu mikið ég eigi að panta inn. Þessa dagana er ég að bíða eftir að fá samfellu sem fékk svo hrikalega góð viðbrögð að það duttu strax inn 70 forpantanir og enn fleiri sem vilja kaupa og ég þarf því að gera aðra pöntun strax,“ segir Aníta sem er sjálf mjög dugleg að sýna vörurnar á Instagram og fagnar sínum mjúku línum.
Persónuleg þjónusta
Viðskiptavinir Sassy eru á öllum aldri og þá á hún mjög dyggjan hóp viðskiptavina sem kemur alltaf aftur og aftur. „Ég legg mikið upp úr því að veita góða og persónulega þjónustu enda skiptir hún höfuðmáli. Ánægðir viðskiptavinir eru mín besta auglýsing og það er í raun ósjaldan sem vinnustaðahópar koma til mín en þá hefur ein í hópnum verið að dásama einhverja vöru og hinar vilja prófa,“ segir Aníta sem stendur mikið til vaktina sjálf.
Þá hefur hún einnig verið að fara út á land að selja og var sem dæmi um síðustu mánaðarmót með markað á Selfossi, Egilsstöðum og í Grundarfirði. „Ég tek þá bara búðina niður og kem öllu í bílinn og bruna af stað. Verandi sjálf utan af landi finnst mér þessi þjónusta vera mikilvæg og hluti af landsbyggðarástinni minni.“ Þá tekur Aníta einnig gjarnan við hópum í versluninni, svo sem mömmu- eða vinkonuhópum og þá komi reglulega til hennar gæsunarhópar. „Ég loka þá bara búðinni og hér myndast skemmtileg stemmning, hóparnir mega koma með veitingar og ég tek ekkert gjald og býð upp á afslátt.“
Fólkið og Skarðshlíðin
Aníta hefur búið í Hafnarfirði í átta ár en kemur frá Grundarfirði. „Maðurinn minn er úr Hafnarfirði og mér finnst frábært að búa hér og vil hvergi annars staðar vera með verslunina mína.“ Aðspurð um hvað sé best við Hafnarfjörðinn er hún fljót að svara að það sé fólkið. „Hér eru allir svo vinalegir og hér búa líka margir Grundfirðingar,“ segir Aníta og hlær.
Ef hún ætti að nefna einhvern uppáhalds stað í bænum er það í raun Skarðshlíðin en þar eru þau fjölskyldan að byggja hús. Þá finnst henni miðbærinn og höfnin líka ávallt heillandi og hér ríki einhver sjarmerandi bæjarandi.
Ferðalög og söngur
Aníta segist elska að ferðast og hafi alltaf gert mikið af því. „Ég er mikill farfugl í mér og finnst frábært að upplifa ný lönd.“ Þá segist hún gjarnan syngja og kemur frá mjög söngelsku heimili. „Ég hef verið að syngja í brúðkaupum og öðrum veislum en það hefur reyndar eitthvað minnkað enda mikið að gera á stóru heimili og í eigin rekstri,“ segir Aníta með bros á vör að lokum.