GO Campers í appelsínugula húsinu á Helluhrauni leigir út bíla sem þeir innrétta sjálfir og fólk getur sofið í. Við hittum Benedikt Helgason framkvæmdastjóra og einn af tveimur eigendum fyrirtækisins til að kynnast rekstrinum.
Úr 24 bílum í 220
GO Campers leigir út sendibíla í mismunandi stærðum sem fólk getur jafnframt gist í. „Við erum búin að vera starfandi frá árinu 2014 en fyrsta árið var ég eini starfsmaðurinn, alltaf á hlaupum og svaf frekar lítið. Þá vorum við með 24 bíla og opið allan sólarhringinn,“ segir Benedikt og bætir við að það hafi verið mikill vöxtur í upphafi og fyrirtækið strax komið með helmingi fleiri bíla árið eftir en í dag eru þeir með um 220 bíla til leigu.
Fyrstu árin var fyrirtækið að kaupa notaða sendibíla og lét breyta þeim fyrir sig. Í dag kaupa þeir hins vegar einungis nýja bíla og eru með sitt eigið breytingaverkstæði sem sér um að strípa bílanna alveg að innan, síðan eru þeir einangraðir og innréttaðir allt frá gólfi upp í topp. „Það er misjafnt hvað þetta ferli tekur langan tíma, stundum tvo til þrjá daga en getur farið upp í tvær vikur, allt eftir stærð og gerð bílsins,“ segir Benedikt en fyrirtækið er með tvo til þrjá starfsmenn á breytingaverkstæðinu í fullri vinnu allan ársins hring.
Starfstöðvar víðsvegar um Hafnarfjörð
Höfuðstöðvar GO Campers eru á Hellnahrauni en þar er móttakan, skrifstofur, verkstæði, þvottastöð og bílaplan fyrir hluta flotans. „Við erum samt á nokkrum stöðum í Hafnarfirði enda með okkar eigið breytingaverktæði sem og dekkjaverkstæði og þá þurfum við líka að leigja nokkur bílaplön, bæði hér í bænum en einnig suður með sjó í nálægð við Leifstöð.“ Benedikt á fyrirtækið ásamt Steinarri Lár, en þeir hafa þekkst frá unglingsaldri en þó ekki verið áður saman í rekstri. Á Hellnahrauni er jafnframt systurfyrirtæki GO Campers sem er GO Car Rental sem Steinarr á jafnframt ásamt öðrum og fyrirtækin samnýta ýmsa aðstöðu sem og starfsfólk.
„Ég er núna með 22 starfsmenn í vinnu enda háannatími en í vetur verðum við líklega með um 10 starfsmenn en flestir þeirra hafa verið hjá okkur í nokkur ár og einhverjir alveg frá upphafi,“ segir Benedikt og talar um mikilvægi þess að hafa gott starfsfólk enda ákaflega mikilvægt að veita framúrskarandi þjónustu og skila af sér ánægjum viðskiptavinum.
Átta ára rússibanareið
Á þessum átta árum sem fyrirtækið hefur verið starfandi hefur ýmislegt gengið á og margir óvæntir utanaðkomandi atburðir haft mikil áhrif á reksturinn. Eins og fyrr segir óx fyrirtækið hratt í byrjun en staðan var orðin nokkuð góð og þægileg árið 2019 þegar WOW fer á hausinn og ferðamannastraumurinn snarminnkaði. „Við vorum því ekki sáttir við árið 2019 en vissum þá ekki hvað beið okkar með komu Covid. Eins og gefur að skilja var árið 2020 það allra versta frá upphafi en við reyndum samt að klóra í bakkann með því að leigja bílana út til Íslendinga um sumarið sem gekk mjög vel en tekjurnar voru vissulega bara brotabrot af því sem við höfðum reiknað með. Síðasta sumar var ágætt og við náðum að standa þetta erfiða Covid tímabil af okkur án þess að segja upp fólki, eitthvað sem ég er ákaflega stoltur af. Úrræði stjórnvalda komu sér mjög vel fyrir okkur en annars nýttum við líka tímann í almenna tiltekt í rekstri, fórum í verkefni sem höfðu legið á hakanum, skárum niður allan óþarfa kostnað og fórum í góða naflaskoðun.“
Árið 2022 hefur gengið ákaflega vel og stefnir í að verða metár þeirra í rekstri. Samkvæmt Benedikt hafa áætlanir gengið eftir og sumarið var að mestu fullbókað strax í vor en flestar bókanir koma vanalega inn í apríl og maí. Varðandi framtíðina þá segir Benedikt að ætlunin sé ekkert endilega að stækka flotann mikið heldur leggja upp úr því að endurnýja bílana og halda sömu gæðum í allri þjónustu.
Minnstu bílarnir vinsælastir
Nær allir viðskiptavinir GO Campers eru erlendir ferðamenn og þá eru Bandaríkjamenn stærsti hópurinn en Frakkar og Þjóðverjar fylgja þar strax á eftir, eitthvað sem er í samræmi við þann hóp sem sækir landið heim. „Við höfum verið að fá fólk til okkar alls staðar að úr heiminum en á einu ári voru viðskiptavinir okkar frá um 60 mismunandi þjóðum.“
Flestir bóka bílana með um tveggja til þriggja mánaða fyrirvara og oft í tengslum við bókun sína á flugi en meðallengd bókana er um átta dagar. „Minnstu bílarnir okkar eru vinsælastir en í þeim geta tveir gist og þeir nokkurs konar kúlutjald á hjólum,“ segir Benedikt en í stærri bílunum er svefnpláss fyrir allt að fimm manns. Þá er fyrirtækið líka með nokkra fjórhjóladrifna jeppa sem hægt er að gista í.
Skemmtilegast að sjá hluti ganga upp
Aðspurður um hvað sé skemmtilegast við vinnuna segir Benedikt það vera þegar hann sjái sumarið vera að ganga upp. „Allir bílarnir eru tilbúnir, starfsfólkið komið til starfa, viðskiptavinirnir mættir og þar er allt að gerast sem ég var búinn að vera að ímynda mér og stefna að. Mitt helsta hlutverk sem stjórnandi er nefnilega að skipuleggja og sjá til að allt gangi upp. Þó að mesti annatími fyrirtækisins sé vissulega á sumrin þá er oftast meira að gera hjá mér í aðdraganda sumarsins.“
Hann segist þó alltaf af og til hoppa í hin ýmsu störf, afgreiði sem dæmi eða þrífi bíla. „Það er líka stundum fínt að fara á skutluna en þá er ég að sækja og skila viðskiptavinum og fæ að heyra af þeirra upplifunum sem getur verið afar gefandi. Fæstir vita þá líka að ég sé framkvæmdastjóri fyrirtækisins heldur bara gaurinn á skutlunni,“ segir Benedikt og brosir.
Gott að reka fyrirtæki í Hafnarfirði
Benedikt býr ekki í Hafnarfirði, eins og stendur, en segist samt hafa annað hvort búið hér eða unnið síðan á unglingsaldri og þekki því bæinn orðið ansi vel. „Þetta er frábær og fallegur bær með góðu fólki og bæjarbrag. Æðislegir veitingastaðir og menningin blómstrar, sérstaklega núna með Bæjarbíó og svo fer ég náttúrulega í Hellisgerði fyrir jólin.“
Hann er annars ákaflega ánægður með að reka fyrirtæki í bænum. „Það er afar þægilegt að vera í bílatengdum rekstri hér enda mikið um frábær fyrirtæki allt í kring og við þurfum sjaldan að leita út fyrir Hafnarfjörðinn með aðföng eða þjónustu.“
Leikur sér úti í náttúrunni
„Ég hef átt allskyns hjól í gegnum tíðina, mótorkross og fjallahjól en nú er ég einna helst á Enduro hjóli sem sérstök týpa af mótorhjóli sem hentar vel í náttúrulegu landslagi,“ segir Benedikt þegar hann er spurður út í áhugamálin. Þá segist hann líka gjarnan þeytast um á vélsleða og fari einnig á ýmsar veiðar þá oft með vinnufélögunum en fjölskyldan elski að ferðast bæði um landið og um heiminn.