Véltak hefur verið starfandi í yfir 50 ár og var á sínum tíma með verslun og vélsmiðju en í dag framleiðir fyrirtækið mengunarbúnað fyrir vélarrúm skipa og flytur inn ýmsar vörur í tengslum við mengunarvarnir. Við hittum Guðbjart Einarsson eigenda fyrirtækisins til að kynnast rekstrinum.
Varð að hætta á sjó
Guðbjartur er vélstjóri og starfaði sem slíkur á sjó til nokkurra ára en varð að hætta út af of mikilli mengun í vélarúminu, eitthvað sem lungun hans þoldu ekki. Eftir nokkur ár í landi stofnaði hann því fyrirtækið Véltak sem hefur verið á Hvaleyrarbraut 3 frá árinu 1976 en hóf starfsemi sína í Reykjavík árið 1970. „Ég var að leita að húsnæði fyrir fyrirtækið í nálægð við höfn og hafði oft keyrt hér framhjá á leið minni um hafnarsvæðið og svo fór að ég keypti allt húsnæðið, en hér var þá starfandi netaverkstæði,“ segir Guðbjartur um komu fyrirtækisins til Hafnarfjarðar og bætir við að húsnæðið hafi verið afar illa farið og hann hafi í raun þurft að rífa niður helming þess og endurbyggja.
Vélsmiðja og verslun
Véltak var fyrstu árin aðallega að framleiða vélar og vélarhluti í skip og þjónusta þau í tengslum við þessa smíði og almennt viðhald. Vélar þeirra fóru víða og voru meðal annars seldar til Hollands, Noregs og Bretlands. Árið 1980 opnaði fyrirtækið síðan verslun á jarðhæðinni sem seldi meðal annars háþrýstrivökvabúnað, flutti inn krana og var með úrval verkfæra og tækja til iðnaðar sem og ýmsar pappírsvörur. „Á þessum tíma vorum við með um 20 til 25 manns í vinnu og nóg að gera,“ segir Guðbjartur en bætir þó við að stærsta verkefni fyrirtækisins á þessum rúmum 50 árum er smíði á tveimur stórum asfalttönkum og bygging malbikunarstöðvar árið 1973 fyrir Reykjavíkurborg.
Heilsufar sjómanna
Mengunarvarnir hafa verið Guðbjarti afar hugleiknar til fjölda ára og svo fór að hann smíðaði sérstaka vél sem hreinsar andrúmsloftið í vélarrúmi stærri skipa og flytur inn mengunarbúnað á minni vélar. „Olíumettað andrúmsloft í vélarúmum getur valdið ýmsum kvillum og jafnvel krabbameini og það er betra að hreinsa vélina en lungun,“ segir Guðbjartur ákveðinn og bendir á úttekt Dr. Vilhjálms Rafnssonar sem finna má á vefsíðu Véltaks.
Vélin sem hann kallar OGS (Oil/Gas Crank Case Separator) kom fyrst á markað árið 2000 en um er að ræða sjálfstæða einingu til uppsetningar í vélarrúmi og hægt er að tengja við allar tegundir véla. Hún dregur úr smurolíunotkun og kemur í veg fyrir olíueim í vélarúmi sem og minnkar hættu á eldi svo eitthvað sé nefnt. „Við erum nú komin með OGS 2 tölvuútgáfu af búnaðinum en það er stöðug þróun í gangi enda fleytir tækninni ört áfram.“
Vélar smita út frá sér með aldrinum
Véltak flytur einnig inn vökvakerfi, hreinsibúnað og eldsneytissíur frá Bandaríkjunum, Þýskalandi og Bretlandi sem varna mengun í skipum. Guðbjartur segir að þó vélar í skipum séu orðnar minna mengandi í dag þá eigi sér alltaf stað viss mengun inn í sjálfu vélarrúminu og sérstaklega þegar vélar eru orðnar fimm til tíu ára gamlar þá byrji þær að smita út frá sér. Hann segir að sem betur fer séu útgerðir orðnar meðvitaðar um þetta og vélin hans komin í þónokkur skip bæði hér heima sem og erlendis. „Það er samt mikilvægt að vera alltaf á verða og minna á mengunarvarnir en fólk á það til að verða bara samdauna. Það er jú mikið rætt um mengun á götum borga en innri mengun í skipum er því miður alls ekki minni. Þetta snýr að heilsu fólks og í loftmengun eru allskyns efni sem eru ekki góð fyrir fólk,“ segir Guðbjartur.
Skemmtilegast að hitta fólk
Þó Guðbjartur sé orðinn rúmlega áttræður vill hann alls ekki hætta að vinna og segir að hún gefi sér enn ákaflega mikið. Það skemmtilegasta sé að hitta fólk og hafa eitthvað að sýsla. „Mér finnst frábært að umgangast fólk sem maður þekkir og talar mitt mál, þá á ég við fagmál,“ segir Guðbjartur sem hefur alla tíð verið öflugur í félagsmálum tengdu starfinu og var meðal annars forseti iðnnemasambandsins þegar hann var að læra, formaður félags járniðnaðarnema og sat í stjórn meistarafélagsins í mörg ár og hittir enn í dag mánaðarlega hóp skólabræðra sinna úr vélskólanum.
Höfnin og upplandið
Guðbjartur hefur búið í Hafnarfirði frá árinu 1974 og kann ákaflega vel við sig og segir að stór hluti fjölskyldu sinnar búi í bænum. Aðspurður um uppáhaldsstaðinn er hann fljótur að nefna höfnina. „Ég held að það sé með mig eins og marga sem koma frá litlum sjávarplássum úti á landi að höfnin sé visst aðdráttarafl og ég fer líka oft í göngutúr út á manir til að vera nálægt sjónum,“ segir Guðbjartur sem ólst upp á Patreksfirði.
Þá er upplandið honum jafnframt mikilvægt en hann gengur reglulega á Helgafellið og segist í raun alltaf fara í um fjögurra tíma göngu á sunnudögum í upplandinu og það hafi hann gert í mörg ár. „Ég geng reyndar minna á sumrin en finnst eiginlega best að ganga í stormi og rigningu á veturna, þá er sérstaklega gaman.“
Útivist og félagsmál
Þegar Guðbjartur er ekki í vinnunni þá nýtur hann þess að vera úti. Gengur mikið, eins og kom fram hér að ofan, og ferðast líka gjarnan um landið og segist hafa farið nokkra hringi í kringum það í gegnum árin. „Við erum líka með sumarbústað í Stykkishólmi og eyðum mörgum stundum þar með fjölskyldunni.“
Guðbjartur er einnig félagi í Rótarýklúbb Hafnarfjarðar og búinn að vera þar í 44 ár og segir þann félagsskap vera ákaflega gefandi. „Þegar ég var forseti komum við fallegu útsýnisskífunni fyrir upp á Helgafellið, eitthvað sem ég er ákaflega stoltur af,“ segir Guðbjartur brosandi að lokum.