Byggingaverktakafyrirtækið Og synir ehf starfaði til fjölda ára á Reyðarfirði en flutti í Hafnarfjörðinn árið 2020. Við hittum hjónin og eigendurna Þorstein Erlingsson og Heiði Hreinsdóttur til að kynnast rekstrinum.
Húmor sem festist
Starfsemi Og synir má rekja aftur til ársins 2003 þó fyrirtækið hafi ekki verið formlega stofnað fyrr en árið 2007 og þá fengið nafnið sitt. Aðspurður um nafnið segir Þorsteinn að öll nöfn sem hann var spenntur fyrir hafi verið í notkun og þá hafi hann farið að fíflast með að vera bara Og synir og vísa þar með í fjölmörg fyrirtæki sem eru með það í seinni hluta síns heitis. „Þetta var því í raun smá húmor í upphafi en svo fannst okkur þetta bara vera hið fínasta nafn og ég ávallt verið sáttur við það.“
Fyrirtækið hefur í gegnum árin sinnt fjölbreyttum viðhaldsverkefnum, unnið í nýbyggingum, tekið þátt í útboðsverkefnum og þjónustað húsbyggjendur við byggingarstjórn og verkefnastýringu. Þá taka þau einnig að sér ástandsskoðanir fasteigna og mygluskoðanir til dæmis með hitamyndavélum, rakamælum og öðrum mælitækjum.
Auknir vaxtarmöguleikar
Fyrirtækið var orðið rótgróið á Reyðarfirði og starfaði með mörgum góðum iðnaðarmönnum þegar þau hjónin tóku ákvörðun um að flytja á höfuðborgarsvæðið. „Þetta var vissulega mjög stórt skref og við þurftum í raun að byrja upp á nýtt. Finna nýja samstarfsaðila, byggja upp nýtt tengslanet og leita eftir verkefnum á alveg nýjum markaði,“ segir Heiður en í dag hefur fyrirtækið náð að koma sér upp góðum hóp af samstarfsaðilum en fyrir byggingaverktakafyrirtæki eins og þau er nauðsynlegt að eiga í góðu samstarfi við iðnmeistara í öllum greinum sem koma að byggingum ásamt jarðverktökum og öðrum þjónustuaðilum.
Á sama tíma eru að sögn Þorsteins mun meiri vaxtarmöguleikar hér á höfuðborgarsvæðinu og í raun hafi flutningurinn gert fyrirtækinu gott og áherslur þess breyst. „Við getum tekið þátt í mun fleiri útboðum en áður og þurfum ekki heldur að eiga eins mikinn lager enda stutt að nálgast birgðir, eitthvað sem var ekki raunin fyrir austan.“
Stórir verkkaupar
Og Synir leggur áherslu á að vera með heildarlausnir og hafa umsjón með verkefni frá A til Ö. „Okkar stærstu verkkaupar eru Kópavogsbær, Reykjavíkurborg, Ofanleiti og Landspítalinn en öll þau verkefni snúast um viðhald á byggingum,“ segir Heiður og bætir við að stærsta verkefnið þeirra þessa dagana sé Verzlunarskólinn en þar er verið að skipta um alla glugga og sinna öðru viðhaldi. Þorsteinn nefnir í því samhengi að þau hafi keypt gluggauppsetningardeild fyrirtækisins Megna í fyrra og þeim kaupum hafi fylgt ýmis tæki og tól sem og verkefni.
Þá er fyrirtækið einnig með nokkur verkefni fyrir einstaklinga og húsfélög sem snúa bæði að viðhaldi og nýbyggingum.
Nýtt gæðakerfi
Stefna fyrirtækisins í gæðamálum er mjög skýr, allur frágangur og efnisval fullnægir ströngustu kröfum kaupenda og til að tryggja gæði vinnur fyrirtækið eftir gæðahandbók. „Við vorum líka að taka nýtt gæðakerfi í notkun fyrir tveimur mánuðum og það er gjörbylting í utanumhaldi og rekjanleika,“ segir Þorsteinn og bætir við að kröfurnar séu orðnar afar strangar og skýrar frá verkkaupum. Heiður bætir við að það sé mikið öryggi fólgið í því að vera með allt verkferli rekjanlegt. „Ef eitthvað kemur upp á er mjög gott að geta farið inn í kerfið og sótt allar upplýsingar á einu stað.“
Flokkun úrgangs og vistvæn hús
Umhverfismál eru Þorsteini hugleikinn og hann segir að það sé nauðsynlegt að huga að þeim af fjölmörgum ástæðum. „Eitt stærsta skrefið er að flokka úrganginn á vinnustöðum og setja ekki allt í einn gám eins og venja var áður. Þetta hefur reynst auðveldara á nýbyggingasvæðum en erfiðara í viðhaldsverkefnum. Við leggjum okkur núna fram við að flokka byggingaúrganginn í sundur og farga því í sitthvoru lagi s.s. málma, plastefni, timbur og urðun. Þó það taki stundum tíma þá fylgir því fjárhagslega mikill sparnaður. Það er sem dæmi hátt í 70% dýrara að henda timbri í bland/urðunar gáminn í staðin fyrir timburgáminn,“ segir Þorsteinn.
Þá vilja Þorsteinn og Heiður taka að sér fleiri verkefni sem tengjast byggingu vistvænna húsnæða. „Það er bullandi þróun í gangi, sólarselluþök, hreinsibúnaður fyrir klósett og ýmis byltingarkennd hönnun sem við viljum gjarnan fá að taka þátt í.“
Á teikniborðinu er núna parhús sem Þorsteinn hannaði með vistvænar lausnir að leiðarljósi ásamt því að hönnunin á að fyrirbyggja myglumyndun.
Skemmtilegast að sjá árangur
Aðspurð að því hvað sé skemmtilegast við vinnuna segja þau eftir nokkra umhugsun að það sé að sjá árangurinn af því sem maður er að gera. Hlutir sem maður hefur stefnt að gangi upp. „Við erum núna sem dæmi að sjá árangurinn að því að hafa flutt, þetta var erfitt en árangur erfiðisins er að skila sér og við munum skila hagnaði á þessu ári.“
Hraunvallaskóli og Hvaleyrarvatn
Fjölskyldan býr á Völlunum og kann mjög vel við sig. „Við höfðum heyrt góðar sögur af Hraunvallskóla og það var í raun ástæðan fyrir því að við komum í Hafnarfjörðinn,“ segir Þorsteinn og bætir við að honum finnist geggjað að búa hérna og vilji núna alls ekki fara eitthvað annað. Heiður segir að það sé þeim líka mikilvægt að vera nálægt náttúrunni, eitthvað sem margir sem koma utan af landi leggja áherslu á. „Hvaleyrarvatnið er æði og þangað fer ég oft,“ segir hún og er einnig ánægð með að hafa skrifstofuna nálægt heimilinu, eins og þau voru vön fyrir austan.
Veiði og fjallgöngur
Þegar spurt er um áhugamál er Þorsteinn fljótur að svara og segir veiði. „Ég fer bæði í skot- og stangveiði en nú er vissulega oft aðeins lengra að fara í skotveiði.“ Heiður segir að þau fjölskyldan séu mikið fyrir útivist og ferðalög og sjálf fari hún mikið í fjallgöngur. „Ég er búin að kynnast fullt af nýjum fjöllum að undanförnu og dásamlegt að hafa nokkur hér í nágrenninu,“ segir Heiður að lokum.