
MSH FRÉTTIR
Fjölbreytt akstursverkefni og dýrmæt reynsla
Hópbílar á Melabrautinni fagna brátt 30 ára afmæli og hefur aldeilis stækkað á þessum árum. Hópur fulltrúa aðildarfyrirtækja markaðsstofunnar fór nýverið í heimsókn til Hópbíla til að heyra þeirra reynslusögu og hver væri lykillinn að velgengni fyrirtækisins.
Hópbílar á Melabrautinni fagna brátt 30 ára afmæli en allt byrjaði þetta með tveimur rútum árið 1995 en starfsemin hefur aldeilis stækkað á þessum árum. Hópur fulltrúa aðildarfyrirtækja markaðsstofunnar fór nýverið í heimsókn til Hópbíla til að heyra þeirra reynslusögu og hver væri lykillinn að velgengni fyrirtækisins.
Pálmar Sigurðsson skrifstofustjóri Hópbíla, sem hefur starfað hjá fyrirtækinu í 24 ár tók á móti hópnum. Við byrjuðum á að fara í rútuferð niður á Kænu þar sem Pálmar var með kynningu en snerum síðan aftur á Melabrautina og fengum að skoða skrifstofuna, verkstæðið og þvottastöðina.
Fjölbreytileiki og frábær mannauður
Samsteypan sem á Hópbíla hefur stækkað töluvert á undanförnum árum og í dag eru 400 starfsmenn á launaskrá og 30 verktakar. Þá telur bílaflotinn núna 269 bíla. Aðilar að samsteypunni eru m.a. nýjasti meðlimurinn Gray Line, ásamt Reykjavík Sightseeing, Airport Direct ofl. fyrirtæki sem starfa aðallega í ferðaþjónustu.
Fjölbreytileiki akstursverkefna er að mati Pálmars einn af styrkleikum fyrirtækisins og lykill að velgengni. Bílstjórar geta valið úr mismunandi verkefnum og einnig farið á milli starfsstöðva. Þá nefndi hann að framsýni eigenda, gott orðspor, dugnaður og eljusemi sem og frábær mannauður hafi verið þeirra aðalsmerki í gegnum árin. Starfsaldur helstu stjórnenda er einnig ákaflega hár og því gífurleg reynsla og þekking sem fyrirtækið hefur yfir að ráða. Helstu áskoranir stjórnenda samsteypunnar eru í dag helst breytingar á vinnumarkaði og að takast á við efnahagsástandið.
Umhverfis -og öryggisstjórnun
Pálmar talaði jafnframt um hvað umhverfis-og öryggismál skipti gríðarlega miklu máli í þeirra rekstri enda gerir félagið sér vel grein fyrir neikvæðum umhverfisáhrifum í rekstri sínum og vinnur stöðugt að því að minnka þau áhrif. Umhverfismál hafi mætt minni skilning fyrir um 20 árum þegar félagið fór af stað að innleiða alþjóðlega umhverfisstjórnunarkerfið ISO 14000 sem síðar var vottað en þá voru eingöngu þrjú önnur félög komin með slíka vottun. Að hans sögn hafa þó sem betur fer orðnar miklar viðhorfsbreytingar í þeim málum og bæði yfirvöld og markaðurinn gera orðið meiri kröfur.
Takk fyrir okkur
Við í markaðsstofunni þökkum Pálmari og Hópbílum fyrir að taka á móti okkur. Það var gaman að fræðast um starfseminni sem og eiga góðar umræður um áskoranir í rekstri í dag.
Frumkvöðlahraðall í heimsókn í Hafnfjörð
Nýverið kom hópur kvenna frá AWE frumkvöðlahraðlinum í heimsókn til okkar í Hafnarfjörðinn til að kynnast kvenleiddum fyrirtækjum í miðbænum okkar.
Síðastliðinn miðvikudag kom hópur kvenna frá AWE frumkvöðlahraðlinum í heimsókn til okkar í Hafnarfjörðinn til að kynnast kvenleiddum fyrirtækjum í miðbænum okkar.
Það er Háskóli Íslands sem stendur fyrir frumkvöðlahraðlinum undir merkjum AWE eða Academy for Woman Entrepreneurs í samvinnu við bandaríska sendiráðið á Íslandi.
Þrjár kynningar
Ein af mentorum hraðalsins hefur lengi heillast af öllum kvenleiddu fyrirtækjunum á Strandgötunni og vildi gjarnan leyfa hópnum að kynnast þeim betur. Hún fékk okkur í markaðsstofunni í samstarf og sáum við um að skipuleggja viðburðinn eftir þeirra óskum.
Við fengum Sigríði Margréti Jónsdóttur frá Litlu Hönnunar Búðinni, Guðbjörgu Jóhannesdóttur frá Gatsby – kjólar og fylgihlutir og Sigríði Arnfjörð Ólafsdóttur frá Allora Bambino til að vera með kynningu í Apótekinu í Hafnarborg. Þar stikluðu þær á stóru um rekstur sinn, sögðu frá því hvað hafi komið til að þær fóru út í rekstur og hver vaxtarsaga síns fyrirtækis sé. Þá töluðu þær um allar þær áskoranir sem þær hafa þurft að kljást við og frá sínum styrkleikum svo eitthvað sé nefnt. Allar fengu þær síðan spurningar frá áhugasömum konum í salnum sem kunnu vel að meta einlægar og hreinskilnar kynningar.
Vettvangsferð um miðbæinn
Að loknum kynningunum rölti hópurinn saman niður Strandgötuna og heimsóttu Gatsby, Allora og Litlu Hönnunar Búðina þar sem nokkrar komu út með einhverjar gersemar í poka. Þá lá leiðin í drykk á Betri stofuna þar sem Signý Eiríksdóttir, ein af eigendum staðarins, kynnti þeirra starfsemi í stuttu máli.
Við þökkum öllum í AWE hraðlinum fyrir komuna í Hafnarfjörðinn fagra og Sigríði Margréti, Guðbjörgu og Sigríði Arnfjörð fyrir sínar kynningar. Þetta var ákaflega skemmtilegur og áhugaverður dagur þar sem ný tengsl mynduðust.
Atli nýr inn í stjórn
Aðalfundur Markaðsstofu Hafnarfjarðar var haldinn þann 13. apríl síðastliðinn í Apótekinu í Hafnarborg.
Aðalfundur Markaðsstofu Hafnarfjarðar var haldinn þann 13. apríl síðastliðinn í Apótekinu í Hafnarborg.
Á dagskrá fundarins voru almenn aðalfundarstörf. Örn H. Magnússon formaður kynnti skýrslu stjórnar sem og fjárhags- og starfsáætlun stofunnar næsta árið þar sem haldið verður áfram á sömu braut en jafnframt eru ýmsar hugmyndir uppi á borðum. Jóhannes Egilsson varaformaður fór yfir ársreikninginn.
Breytingar á stjórn
Á fundinum var kosið um tvö stjórnarsæti og sæti varamanns til tveggja ára. Núverandi varamaður, Olga Björt Þórðardóttir, ákvað að láta af störfum og var henni þakkað fyrir góð störf með blómvendi.
Framkvæmdastjóra bárust fjölmargar fyrirspurnir varðandi stjórnarsetu og greinilega mikill áhugi á að taka þátt í starfinu. Að lokum voru fjórir aðilar sem buðu sig fram. Kosningarnar fóru þannig að Atli Þór Albertsson frá fasteignasölunni Stofunni kemur nýr inn í stjórn, núverandi formaður Örn H. Magnússon heldur sæti sínu og varamaður verður Anna Jórunn Ólafsdóttir.
Við bjóðum Atla velkominn til starfa og hlökkum til að kynnast honum.
Glærur, fundarstjórn ofl.
Fundarstjóri var Örn H. Magnússon og fundarritari Bjarni Geir Lúðvíksson. Hér að neðan má skoða glærur fundarins um skýrslu stjórnar, ársreikning og starfsáætlun 2023-2024.
Fyrirtækjakaffi í maí
Fyrirtækjakaffi maímánaðar verður haldið fimmtudaginn 4. maí næstkomandi kl. 9:00 á Betri Stofunni.
Fyrirtækjakaffi maímánaðar verður haldið miðvikudaginn 3. maí næstkomandi kl. 9:00 á Betri Stofunni.
Frábær vettvangur fyrir fólk í atvinnulífinu í Hafnarfirði til að koma saman, styrkja tengslanetið og ræða mál líðandi stundar. Notaleg og óformleg stemmning en umræðuefnið ræðst af því hverjir mæta og brydda upp á efni.
Fyrirtækjaeigendur og lykilstarfsmenn fyrirtækja í Hafnarfirði velkomnir. Framkvæmdastjóri markaðsstofunnar sem og hluti stjórnar verða á staðnum. Við hlökkum til að sjá sem flesta.
Hér að neðan má sjá myndir frá síðasta fyrirtækjakaffi.
Viltu taka sæti í stjórn?
Á næsta aðalfundi markaðsstofunnar verður kosið um tvö sæti í stjórn auk varamanns. Þessir aðilar taka sæti fyrir hönd aðildarfyrirtækja markaðsstofunnar.
Í stjórn markaðsstofunnar sitja fjórir aðilar frá aðildarfyrirtækjum stofunnar og þrír fyrir hönd Hafnarfjarðarbæjar, auk tveggja varamanna
Á næsta aðalfundi okkar, þann 13. apríl næstkomandi, verður kosið um tvö sæti í stjórn auk varamanns. Þessir aðilar taka sæti fyrir hönd aðildarfyrirtækja markaðsstofunnar
Við hvetjum alla sem hafa áhuga á að taka sæti í stjórn að láta framkvæmdastjóra vita en hún veitir jafnframt nánari upplýsingar. Hægt er að senda póst á msh@msh.is eða hringja í síma 840 0464.
Ánægðir þátttakendur með heimavinnu í farteskinu
Námskeiðið okkar um Leitarvélarbestun fékk ákaflega góðar viðtökur. Það var Óli Jóns sem fór yfir það hvernig leitarvélar virka og hvað leitarvélabestun sé í raun og veru.
Í gær héldum við námskeið um Leitarvélarbestun. Það var Óli Jóns sem fór yfir það hvernig leitarvélar virka og hvað leitarvélabestun sé í raun og veru.
Mikilvægar stillingar
Til að vefir finnist eða komi ofarlega upp í leitarvélum eru ýmsar stillingar sem mikilvægt er að hafa réttar og benti Óli þátttakendum námskeiðsins á ýmis tól sem þeir geta nýtt til að skoða stöðuna á sínum vef. Hann ítrekaði að það séu annars mjög mörg atriði sem hafa áhrif á það hvernig vefsíður finnast í leitarvélum. Fyrir utan það að hafa stillingar réttar er sem dæmi gott að gefa myndum lýsandi nöfn og þá er einnig mikilvægt að búa reglulega til efni til að sýna leitarvélum að við búum yfir vissri þekkingu.
Heimavinna
Þátttakendur fóru heim ákveðnir í að skoða stöðuna á sínum vef og nýta tólin sem Óli benti á. Sumir eru ef til vill í fínum málum og gott að fá staðfestingu á því. Aðrir þurfa að fara yfir sína vefi og reyna að nýta sér þau tól og tæki sem Óli benti þeim á. Þá er ef til vill mikilvægt fyrir einhverja að kaupa utanaðkomandi þjónustu en eftir námskeiðið veit viðkomandi allavega hvað gott er að vita þegar kaupa eigi þannig þjónustu.
Allir ánægðir
Við þökkum öllum sem mættu fyrir komuna. Það voru allir ánægðir með námskeiðið, þar af 61% mjög ánægðir en 39% ánægðir. Þá sögðu 90% í námsmatinu að fræðslan hafi staðið undir væntingum. Allir nema einn voru á því að fræðslan muni nýtast sér í starfi.
Að lokum þökkum við Óla fyrir frábæra fræðslu.
Nýr samningur undirritaður
Hafnarfjarðarbær og Markaðsstofa Hafnarfjarðar hafa gert með sér nýjan samstarfssamning. Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri og Örn H. Magnússon, stjórnarformaður markaðsstofunnar undirrituðu hann nýverið.
Hafnarfjarðarbær og Markaðsstofa Hafnarfjarðar hafa gert með sér nýjan samstarfssamning. Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri og Örn H. Magnússon, stjórnarformaður markaðsstofunnar undirrituðu hann nýverið. Samningurinn er gerður til eins árs og er fjárframlag til stofunnar óbreytt frá fyrri samningi.
Markaðsstofan mun halda áfram því öfluga starfi sem unnið hefur verið á undanförnum árum við eflingu samstarfs fyrirtækja í bænum og vekja athygli á hafnfirsku atvinnulífi. Er það meðal annars gert með fjölbreyttum fræðsluerindum, fyrirtækjaheimsóknum, reynslusögum, kynningum á aðildarfyrirtækjum stofunnar og svokölluðu fyrirtækjakaffi. Við erum þess fullviss að með fræðslu, samtali og sterku tengslaneti eflum við og styrkjum samstöðu meðal atvinnurekenda í bænum okkar.
Rósa Guðbjartsdóttur, bæjarstjóri og Örn H. Magnússon, stjórnarformaður markaðsstofunnar skrifa undir samninginn.
Andri Ómarsson, verkefnastjóri hjá Hafnarfjarðarbæ, áheyrnarfulltrúi Hafnarfjarðarbæjar í stjórn markaðsstofunnar, Thelma Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Hafnarfjarðar, Örn H. Magnússon formaður stjórnar Markaðsstofu Hafnarfjarðar, Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri og Sigurður Nordal, sviðsstjóri stjórnsýslu hjá Hafnarfjarðarbæ.
Aðalfundur
Aðalfundur markaðsstofunnar verður haldinn þann 13. apríl næstkomandi kl. 18:15 í Apótekinu í Hafnarborg.
Aðalfundur markaðsstofunnar verður haldinn þann 13. apríl næstkomandi kl. 18:15 í Apótekinu í Hafnarborg.
Dagskrá
• Kosning fundarstjóra og fundarritara
• Skýrsla stjórnar 2022-2023
• Ársreikningur 2022
• Starfs- og fjárhagsáætlun 2023
• Kosning stjórnar
• Kosning skoðunarmanna reikninga
• Önnur mál
Kosning stjórnar og skoðunarmanna
Í stjórn markaðsstofunnar sitja fjórir aðilar frá fyrirtækjum í bænum og þrír fyrir hönd Hafnarfjarðarbæjar, auk tveggja varamanna. Á aðalfundi er kosið um aðila frá fyrirtækjum til tveggja ára. Að þessu sinni verður kosið um tvö stjórnarsæti og sæti varamanns. Þeir sem hafa áhuga á að bjóða sig fram vinsamlegast látið vita með því að senda póst á msh@msh.is.
Á fundinum verða einnig kosnir tveir skoðunarmenn reikninga, áhugasamir eru einnig beðnir um að láta vita með því að senda póst á msh@msh.is.
Kjörgengi og kosningarétt til stjórnarkjörs hafa þeir sem greitt hafa árgjald 2023, skv. 1. mgr. samþykkta/skipulagsskrá. Eitt atkvæði fylgir hverju greiddu árgjaldi.
Ársreikningur og fundargerðir
Ársreikningur og fundargerðir stjórnar frá árinu 2022 munu liggja frammi á skrifstofu markaðsstofunnar að Linnetstíg 3 tveimur vikum fyrir aðalfund og er öllum velkomið að skoða þær. Skrifstofan er opin á þriðjudögum og fimmtudögum á milli kl. 10 og 14.
820 gráðu heitt hjá Hellu
Í lok síðustu viku fór hópur fulltrúa aðildarfyrirtækja markaðsstofunnar í heimsókn til Málmsteypunnar Hellu á Kaplahrauni. Þetta fjölskyldufyrirtæki sem rekur sögu sína aftur til ársins 1949 er í dag rekið af bræðrunum Grétari og Leifi Þorvaldssonum sem tóku á móti hópnum.
Í lok síðustu viku fór hópur fulltrúa aðildarfyrirtækja markaðsstofunnar í heimsókn til Málmsteypunnar Hellu á Kaplahrauni. Þetta fjölskyldufyrirtæki sem rekur sögu sína aftur til ársins 1949 er í dag rekið af bræðrunum Grétari og Leifi Þorvaldssonum sem tóku á móti hópnum.
Fylgdumst með framleiðslu
Hella framleiðir fjölbreyttar vörur fyrir hin ýmsu iðnaðarfyrirtæki eins og álverið í Straumsvík og vélsmiðjuna Héðinn. Þá fengum við að sjá hluta af raflínubúnaði í háspennulínur sem þeir sérhanna fyrir íslenska veðráttu.
Þegar okkur bar að garði var verið að framleiða svokallaðar rósettur sem halda uppi borðfótum í húsbílum GO Campers, en starfsmenn húsbílaleigunnar voru einmitt með í för, en GO er líka aðildarfyrirtæki markaðsstofunnar. Við fylgdust fyrst með því hvernig mótin voru formuð en síðan sótti Leifur 820 gráðu heitt fljótandi ál og hellti í formin sem vakti lukku hjá hópnum. Þá fengum við einnig að fylgjast með þegar hann tók rósetturnar úr mótunum.
Endurvinna ál
Hella kaupir mikið af brotamálm frá vélsmiðjum og öðrum fyrirtækjum sem yrði annars hent eða flutt úr landi. Þeir bræður sögðu að rúmlega 30% af þeirra framleiðslu sé úr endurunnu áli og að þeir séu þeir einu á landinu sem endurvinna ál í svona miklu magni. Ál er að þeirra sögn hægt að endurvinna aftur og aftur og missir ekki eiginleika sína ef það er meðhöndlað rétt.
Pönnukökupanna, leiðisplötur og húsnúmer
Heimsókninni lauk með veitingum og góðum umræðum í anddyri Hellu þar sem má sjá ýmsar vörur sem þau selja. Þar á meðal er fræga pönnukökupannan en einnig samlokugrill, húsnúmer og nafnamerkingar á hús eða sumarbústaði. Krossar, leiðisplötur og ýmis konar aukahlutir fyrir leiði sem og vegvísar og skilti má einnig fá á Kaplahrauninu.
Takk fyrir okkur
Við þökkum Grétari og Leifi fyrir að taka á móti okkur. Það var afar áhugavert að fá að fylgjast með framleiðslu hjá ykkur og heyra um allt sem þið eruð að fást við.
Góðar umræður á stjórnarfundi
Stjórn markaðsstofunnar kom saman á fundi nýverið. Dagskrá fundarins var samningurinn við Hafnarfjarðarbæ, ársreikningur, komandi aðalfundur og samstarfið við AWE hraðalinn.
Stjórn markaðsstofunnar kom saman á fundi nýverið. Dagskrá fundarins var samningurinn við Hafnarfjarðarbæ, ársreikningur, komandi aðalfundur og samstarfið við AWE hraðalinn.
Samningur til eins árs
Samningurinn við Hafnarfjarðarbæ verður undirritaður af bæjarstjóra og stjórnarformanni innan skamms. Hann mun einungis gilda til eins árs og kemur til endurnýjunar um næstu áramót. Það eru vonbrigði að samningurinn sé ekki lengri en við vildum gjarnan að hann myndi gilda út kjörtímabilið, þó með endurskoðun á fjárframlagi á hverju hausti.
Ársreikningur og aðalfundur
Reikningar verða sendir til endurskoðanda á næstu dögum. Hafnarfjarðarbæ fer fram á að láta endurskoða reikninginn og því megum við ekki láta bókhaldsstofuna útbúa ársreikning.
Innheimta árgjalda hefur gengið mjög vel en þó eiga nokkrir enn eftir að greiða. Þau fyrirtæki fá senda ítrekun innan skamms. Aðalfundur verður haldinn fimmtudaginn 13. apríl kl. 18:15 í Apótekinu.
AWE hraðallinn
Frumkvöðlahraðallinn AWE eða Academy for Woman Entrepreneurs kemur í Hafnarfjörðinn í apríl. Framkvæmdastjóri að vinna að skipulagningu ásamt starfsmanni hraðalsins og ætlar að fá nokkrar hafnfirskar konur í rekstri til að vera með innlegg.
Tekjumódel og aukin tengsl
Þremur stjórnarmönnum hefur verið falið það verkefni að skoða tekjumódel MSH sem hefur vissulega verið mikið til umræðu undanfarin ár. Það er vilji til að gera breytingu á því og skoða hvernig við getum aflað meiri tekna til framtíðar.
Á fundinum skapaðist jafnframt góð umræða hvernig við getum eflt fyrirtækjatengsl þannig að fyrirtækin innan MSH tengist enn betur. Hádegisverðarboð og mentorverkefni báru þar á góma.
Að lokum sagði framkvæmdastjóri frá nýrri undirsíðu á vefnum okkar þar sem finna má á einfaldan hátt alla viðburði á næstunni.
Næsti fundur verður haldinn þann 30. mars næstkomandi.