Frumkvöðlahraðall í heimsókn í Hafnfjörð

Síðastliðinn miðvikudag kom hópur kvenna frá AWE frumkvöðlahraðlinum í heimsókn til okkar í Hafnarfjörðinn til að kynnast kvenleiddum fyrirtækjum í miðbænum okkar.

Það er Háskóli Íslands sem stendur fyrir frumkvöðlahraðlinum undir merkjum AWE eða Academy for Woman Entrepreneurs í samvinnu við bandaríska sendiráðið á Íslandi.

Þrjár kynningar

Ein af mentorum hraðalsins hefur lengi heillast af öllum kvenleiddu fyrirtækjunum á Strandgötunni og vildi gjarnan leyfa hópnum að kynnast þeim betur. Hún fékk okkur í markaðsstofunni í samstarf og sáum við um að skipuleggja viðburðinn eftir þeirra óskum.

Við fengum Sigríði Margréti Jónsdóttur frá Litlu Hönnunar Búðinni, Guðbjörgu Jóhannesdóttur frá Gatsby – kjólar og fylgihlutir og Sigríði Arnfjörð Ólafsdóttur frá Allora Bambino til að vera með kynningu í Apótekinu í Hafnarborg. Þar stikluðu þær á stóru um rekstur sinn, sögðu frá því hvað hafi komið til að þær fóru út í rekstur og hver vaxtarsaga síns fyrirtækis sé. Þá töluðu þær um allar þær áskoranir sem þær hafa þurft að kljást við og frá sínum styrkleikum svo eitthvað sé nefnt. Allar fengu þær síðan spurningar frá áhugasömum konum í salnum sem kunnu vel að meta einlægar og hreinskilnar kynningar.

Vettvangsferð um miðbæinn

Að loknum kynningunum rölti hópurinn saman niður Strandgötuna og heimsóttu Gatsby, Allora og Litlu Hönnunar Búðina þar sem nokkrar komu út með einhverjar gersemar í poka. Þá lá leiðin í drykk á Betri stofuna þar sem Signý Eiríksdóttir, ein af eigendum staðarins, kynnti þeirra starfsemi í stuttu máli.  

Við þökkum öllum í AWE hraðlinum fyrir komuna í Hafnarfjörðinn fagra og Sigríði Margréti, Guðbjörgu og Sigríði Arnfjörð fyrir sínar kynningar. Þetta var ákaflega skemmtilegur og áhugaverður dagur þar sem ný tengsl mynduðust.