Hópbílar á Melabrautinni fagna brátt 30 ára afmæli en allt byrjaði þetta með tveimur rútum árið 1995 en starfsemin hefur aldeilis stækkað á þessum árum. Hópur fulltrúa aðildarfyrirtækja markaðsstofunnar fór nýverið í heimsókn til Hópbíla til að heyra þeirra reynslusögu og hver væri lykillinn að velgengni fyrirtækisins.
Pálmar Sigurðsson skrifstofustjóri Hópbíla, sem hefur starfað hjá fyrirtækinu í 24 ár tók á móti hópnum. Við byrjuðum á að fara í rútuferð niður á Kænu þar sem Pálmar var með kynningu en snerum síðan aftur á Melabrautina og fengum að skoða skrifstofuna, verkstæðið og þvottastöðina.
Fjölbreytileiki og frábær mannauður
Samsteypan sem á Hópbíla hefur stækkað töluvert á undanförnum árum og í dag eru 400 starfsmenn á launaskrá og 30 verktakar. Þá telur bílaflotinn núna 269 bíla. Aðilar að samsteypunni eru m.a. nýjasti meðlimurinn Gray Line, ásamt Reykjavík Sightseeing, Airport Direct ofl. fyrirtæki sem starfa aðallega í ferðaþjónustu.
Fjölbreytileiki akstursverkefna er að mati Pálmars einn af styrkleikum fyrirtækisins og lykill að velgengni. Bílstjórar geta valið úr mismunandi verkefnum og einnig farið á milli starfsstöðva. Þá nefndi hann að framsýni eigenda, gott orðspor, dugnaður og eljusemi sem og frábær mannauður hafi verið þeirra aðalsmerki í gegnum árin. Starfsaldur helstu stjórnenda er einnig ákaflega hár og því gífurleg reynsla og þekking sem fyrirtækið hefur yfir að ráða. Helstu áskoranir stjórnenda samsteypunnar eru í dag helst breytingar á vinnumarkaði og að takast á við efnahagsástandið.
Umhverfis -og öryggisstjórnun
Pálmar talaði jafnframt um hvað umhverfis-og öryggismál skipti gríðarlega miklu máli í þeirra rekstri enda gerir félagið sér vel grein fyrir neikvæðum umhverfisáhrifum í rekstri sínum og vinnur stöðugt að því að minnka þau áhrif. Umhverfismál hafi mætt minni skilning fyrir um 20 árum þegar félagið fór af stað að innleiða alþjóðlega umhverfisstjórnunarkerfið ISO 14000 sem síðar var vottað en þá voru eingöngu þrjú önnur félög komin með slíka vottun. Að hans sögn hafa þó sem betur fer orðnar miklar viðhorfsbreytingar í þeim málum og bæði yfirvöld og markaðurinn gera orðið meiri kröfur.
Takk fyrir okkur
Við í markaðsstofunni þökkum Pálmari og Hópbílum fyrir að taka á móti okkur. Það var gaman að fræðast um starfseminni sem og eiga góðar umræður um áskoranir í rekstri í dag.