Hafnarfjarðarbær og Markaðsstofa Hafnarfjarðar hafa gert með sér nýjan samstarfssamning. Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri og Örn H. Magnússon, stjórnarformaður markaðsstofunnar undirrituðu hann nýverið. Samningurinn er gerður til eins árs og er fjárframlag til stofunnar óbreytt frá fyrri samningi.
Markaðsstofan mun halda áfram því öfluga starfi sem unnið hefur verið á undanförnum árum við eflingu samstarfs fyrirtækja í bænum og vekja athygli á hafnfirsku atvinnulífi. Er það meðal annars gert með fjölbreyttum fræðsluerindum, fyrirtækjaheimsóknum, reynslusögum, kynningum á aðildarfyrirtækjum stofunnar og svokölluðu fyrirtækjakaffi. Við erum þess fullviss að með fræðslu, samtali og sterku tengslaneti eflum við og styrkjum samstöðu meðal atvinnurekenda í bænum okkar.