Góðar umræður á stjórnarfundi

Stjórn markaðsstofunnar kom saman á fundi nýverið. Dagskrá fundarins var samningurinn við Hafnarfjarðarbæ, ársreikningur, komandi aðalfundur og samstarfið við AWE hraðalinn.

Samningur til eins árs

Samningurinn við Hafnarfjarðarbæ verður undirritaður af bæjarstjóra og stjórnarformanni innan skamms. Hann mun einungis gilda til eins árs og kemur til endurnýjunar um næstu áramót. Það eru vonbrigði að samningurinn sé ekki lengri en við vildum gjarnan að hann myndi gilda út kjörtímabilið, þó með endurskoðun á fjárframlagi á hverju hausti.

Ársreikningur og aðalfundur

Reikningar verða sendir til endurskoðanda á næstu dögum. Hafnarfjarðarbæ fer fram á að láta endurskoða reikninginn og því megum við ekki láta bókhaldsstofuna útbúa ársreikning.

Innheimta árgjalda hefur gengið mjög vel en þó eiga nokkrir enn eftir að greiða. Þau fyrirtæki fá senda ítrekun innan skamms.  Aðalfundur verður haldinn fimmtudaginn 13. apríl kl. 18:15 í Apótekinu.

AWE hraðallinn

Frumkvöðlahraðallinn AWE eða Academy for Woman Entrepreneurs kemur í Hafnarfjörðinn í apríl. Framkvæmdastjóri að vinna að skipulagningu ásamt starfsmanni hraðalsins og ætlar að fá nokkrar hafnfirskar konur í rekstri til að vera með innlegg.

Tekjumódel og aukin tengsl

Þremur stjórnarmönnum hefur verið falið það verkefni að skoða tekjumódel MSH sem hefur vissulega verið mikið til umræðu undanfarin ár. Það er vilji til að gera breytingu á því og skoða hvernig við getum aflað meiri tekna til framtíðar.

Á fundinum skapaðist jafnframt góð umræða hvernig við getum eflt fyrirtækjatengsl þannig að fyrirtækin innan MSH tengist enn betur. Hádegisverðarboð og mentorverkefni báru þar á góma.

Að lokum sagði framkvæmdastjóri frá nýrri undirsíðu á vefnum okkar þar sem finna má á einfaldan hátt alla viðburði á næstunni.

 

Næsti fundur verður haldinn þann 30. mars næstkomandi.