Í lok síðustu viku fór hópur fulltrúa aðildarfyrirtækja markaðsstofunnar í heimsókn til Málmsteypunnar Hellu á Kaplahrauni. Þetta fjölskyldufyrirtæki sem rekur sögu sína aftur til ársins 1949 er í dag rekið af bræðrunum Grétari og Leifi Þorvaldssonum sem tóku á móti hópnum.
Fylgdumst með framleiðslu
Hella framleiðir fjölbreyttar vörur fyrir hin ýmsu iðnaðarfyrirtæki eins og álverið í Straumsvík og vélsmiðjuna Héðinn. Þá fengum við að sjá hluta af raflínubúnaði í háspennulínur sem þeir sérhanna fyrir íslenska veðráttu.
Þegar okkur bar að garði var verið að framleiða svokallaðar rósettur sem halda uppi borðfótum í húsbílum GO Campers, en starfsmenn húsbílaleigunnar voru einmitt með í för, en GO er líka aðildarfyrirtæki markaðsstofunnar. Við fylgdust fyrst með því hvernig mótin voru formuð en síðan sótti Leifur 820 gráðu heitt fljótandi ál og hellti í formin sem vakti lukku hjá hópnum. Þá fengum við einnig að fylgjast með þegar hann tók rósetturnar úr mótunum.
Endurvinna ál
Hella kaupir mikið af brotamálm frá vélsmiðjum og öðrum fyrirtækjum sem yrði annars hent eða flutt úr landi. Þeir bræður sögðu að rúmlega 30% af þeirra framleiðslu sé úr endurunnu áli og að þeir séu þeir einu á landinu sem endurvinna ál í svona miklu magni. Ál er að þeirra sögn hægt að endurvinna aftur og aftur og missir ekki eiginleika sína ef það er meðhöndlað rétt.
Pönnukökupanna, leiðisplötur og húsnúmer
Heimsókninni lauk með veitingum og góðum umræðum í anddyri Hellu þar sem má sjá ýmsar vörur sem þau selja. Þar á meðal er fræga pönnukökupannan en einnig samlokugrill, húsnúmer og nafnamerkingar á hús eða sumarbústaði. Krossar, leiðisplötur og ýmis konar aukahlutir fyrir leiði sem og vegvísar og skilti má einnig fá á Kaplahrauninu.
Takk fyrir okkur
Við þökkum Grétari og Leifi fyrir að taka á móti okkur. Það var afar áhugavert að fá að fylgjast með framleiðslu hjá ykkur og heyra um allt sem þið eruð að fást við.