Stjórn Markaðsstofu Hafnarfjarðar hefur fengið Þóru Hrund Guðbrandsdóttur til að leiða starf markaðsstofunnar.
Þóra Hrund tekur við af Thelmu Jónsdóttur sem stýrt hefur starfi markaðsstofunnar frá árinu 2020 en hún lét af störfum í febrúar. Markaðsstofa Hafnarfjarðar hefur undir stjórn Thelmu vaxið og dafnað verulega og þakkar stjórn MSH henni fyrir vel unnin störf og óskar henni velfarnaðar í nýjum verkefnum.
Þóra Hrund hefur víðtæka reynslu af markaðsmálum og viðburðastjórnun en hún starfaði meðal annars sem framkvæmdastjóri Ímark 2020-2023. Þóra Hrund er viðskipta- og markaðsfræðingur að mennt með meistaragráðu í stjórnun, stefnumótun ásamt því að vera markþjálfi.
Stjórn MSH býður Þóru Hrund velkomna til starfa og hlakkar til að takast á við ný og spennandi verkefni sem framundan eru. Framtíðarsýn MSH er að efla enn frekar starfsemina, koma betur til móts við þarfir aðildarfyrirtækja, styrkja tengsl þeirra og umfram allt kynna fjölbreytt og öflugt atvinnulíf í Hafnarfirði.
Spennandi vordagskrá er framundan, m.a. LinkedIN námskeið sem haldið verður þriðjudaginn 12. mars en LinkedIn þykir einn öflugasti miðillinn í að styrkja tengslanet og skapa ný tækifæri á markaði. Þá má sérstaklega nefna val á Fyrirtæki ársins í Hafnarfirði sem tilkynnt verður þriðjudaginn 9. apríl. Þessi skemmtilegi viðburður verður nánar kynntur á næstu dögum en fjöldi aðildarfyrirtækja tók þátt í valinu og verður spennandi að sjá hvaða fyrirtæki hlýtur í fyrsta sinn nafnbótina FYRIRTÆKI ÁRSINS.