Í morgun fór áhugasamur hópur fulltrúa aðildarfyrirtækja markaðsstofunnar í heimsókn til Te & Kaffi í Stapahrauninu.
Kristín María Dýrfjörð, einn af eigendum fyrirtækisins, Guðmundur Halldórsson framkvæmdastjóri og Halldór Guðmundsson framkvæmdastjóri kaffihúsa Te & Kaffi tóku á móti okkur og kynntu starfsemina.
Sjálfbærnistefna og framleiðsluferli
Hópurinn hittist á kaffihúsi staðsettu í skrifstofuhúsnæði þeirra þar sem Guðmundur fór yfir sögu fyrirtækisins og Kristín talaði sérstaklega um sjálfbærnistefnu Te & Kaffi en þau hafa unnið að margvíslegum umhverfisvænum breytingum undanfarin ár og leggja mikla áherslu á að þekkja kolefnisfótspor sitt. Þau eru með sérstakt loftslagsbókhald og kaffibrennslan m.a. keyrð áfram á metangasi. Eftir kynninguna gekk hópurinn upp í framleiðsluhúsnæðið ofar í götunni þar sem Halldór fór yfir framleiðsluferlið.
Kaffilyktin, vélmenni ofl.
Skemmst er frá því að segja að mikil ánægja var með heimsóknina. Sjálfbærnistefnan, góða kaffilyktin, pökkunarvélmennið og umfang fyrirtækisins heillaði hópinn sérstaklega og mátti heyra fólk tala um aðdáunarverða starfsemi.
Takk allir sem mættu og bestu þakkir fyrir okkur til ykkar í Te & Kaffi.