Í vikunni héldum við námskeiðið Sigraðu sjálfan þig aftur og aftur þar sem Ingvar Jónsson, eigandi Profectus fjallaði um það hvernig hægt er að brjótast úr fari vanans, stefna hærra og sækja lengra – bæði í starfi og einkalífi.
Ingvar nefndi í því samhengi um algengar eftirsjár fólks á dánarbeðinu, hvað þurfi að gera til að ná árangri og að sjálfsþekking sé forsenda hamingjunnar. Þá fjallaði hann um leiðir til að breyta lífi sínu en samkvæmt honum er galdurinn að spyrja sig réttu spurninganna og að horfast í augu við raunveruleikann og taka svo rökrétta afstöðu og ákvarðanir. Að lokum kynnti Ingvar mismunandi hugsnið (hugar- og eðlisfar) sem einkenni fólk en hvert snið hefur sinn lit og eftir námskeiðið mátti heyra fólk spyrja hvert annað hvernig það væri á litinn.
Mikil ánægja
Það var góð mæting á námskeiðið og ríkti mikil ánægja með það og flestir ef ekki allir gengu glaðir út í daginn eftir þessa fræðslu.
Samkvæmt könnun sem gerð var meðal þátttakenda voru 95% mjög ánægðir með fyrirlesarann og 89% sögðu að fræðslan hafi staðið undir væntingum.
Námskeiðið var haldið í hliðarsalnum á Kænunni við Óseyrarbraut og þökkum við Ingvari fyrir frábæra byrjun á deginum.