Öxum kastað í fyrirtækjaheimsókn

Í vikunni fórum við í heimsókn til Berserkja axarkasts á Hjallahrauninu til að kynnast starfseminni en þangað geta einstaklingar og hópar mætt og keppt í axarkasti.

Eigendur Berserkja þau Helga og Elvar tóku á móti okkur og kynntu starfsemina. Á þeim fjórum árum sem þau hafa starfað hafa þau fengið um 6000 heimsóknir en mikið er um að fyrirtæki komi til þeirra í hópefli en einnig er vinsælt að stoppa hjá þeim í steggjunum og gæsunum.

Eftir að hafa fengið stutta kennslu um reglur og tækni í axarkasti fengum við að prófa að kasta. Að nokkrum æfingaköstum loknum var haldið lítið mót þar sem gleðin var í fyrirrúmi en þó ekki langt í keppnisskapið hjá vissum aðilum. Allir fóru glaðir heim og staðráðnir í að koma aftur með vina- eða vinnuhópnum.

Takk allir sem mættu, fámennur en góður hópur þar sem óviðráðanlegar orsakir settu því miður strik í reikninginn hjá nokkrum skráðum þátttakendum á síðustu stundu.

Bestu þakkir fyrir okkur til ykkar í Berserkjum, við skemmtum okkur vel.