Betri svefn - Betra líf með Dr. Erlu Björnsdóttur
Erla er klínískur sálfræðingur með doktorspróf í líf- og læknavísindum og hefur sérhæft sig í hugrænni atferlismeðferð við svefnleysi og unnið að rannsóknum á því sviði. Hún hefur skrifað fjölda greina í erlend ritrýnd tímarit og einnig á innlendum vettvangi. Erla gaf út bók um svefn árið 2017 og nýlega (2020) kom hennar fyrsta barnabók út, Svefnfiðrildin. Erla sinnir kennslu og rannsóknum hjá Háskólanum í Reykjavík og er stofnandi og framkvæmdastjóri Betri svefns, sem sérhæfir sig í rannsóknum og meðferð á svefni og svefnvandamálum.
Fræðsla um svefn og svefnráð
Farið verður yfir mikilvægi svefns fyrir heilsu, líðan, árangur og frammistöðu. Meðal annars er fjallað um eftirfarandi atriði:
Hversu mikið þurfum við að sofa og hvaða áhrif hefur of lítill svefn?
Uppbygging svefns, svefnstig og hlutverk.
Hvað hefur áhrif á svefn og svefngæði?
Hvernig virkar líkamsklukkan?
Áhrif svefns og svefnleysis á andlega og líkamlega heilsu.
Hvaða úrræði er til við svefnleysi
Hvað getum við sjálf gert til að tryggja góðan nætursvefn?