Spennandi og áhugaverð kynning á Firði

Það var góð mæting í heimsókn okkar í Fjörð þar sem Guðmundur Bjarni Harðarson, framkvæmdastjóri Fjarðar sagði frá níu þúsund fermetra viðbyggingunni sem nú er komin á fullt skrið.

Bókasafnið hjartað

Í nýja Firði verða um 20 verslunarrými á um 4500 fermetrum og þar af stór matvöruverslun. Hjarta byggingarinnar verður nútímalegt og fallegt bókasafn með margvíslegri þjónustu. Þá verða í heildina 31 lúxusíbúðir, nokkrar hótelíbúðir og almenningsgarður. Að sögn Guðmundar verður Fjörður því ekki einungis verslunarmiðstöð heldur hlýlegur og notalegur áfangastaður þar sem allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi.

Á undan áætlun

Það hefur verið mikill gangur í byggingunni undanfarnar vikur, eins og vegfarendur um Strandgötu hafa ef til vill tekið eftir. Guðmundur er því farinn að sjá fram á steypulok næsta sumar sem er að hans sögn aðeins á undan áætlun. Verklok verða hins vegar líklega í kringum áramótin 2025 og 2026 ef allt gengur að óskum.

Ætlunin er jafnframt að endurnýja gamla hluta Fjarðar algjörlega bæði að innan og utan en sem dæmi mun bókasafnið bæði vera í nýja og gamla hluta byggingarinnar.  

Mikil eftirspurn

Nú þegar er töluverð eftirspurn eftir verslunarrýmum og Guðmundur telur að þau verði að öllum líkindum orðin uppseld innan skamms tíma. Þá hafa einnig margir haft samband og líst yfir áhuga á lúxusíbúðunum, sem verða í hæsta gæðaflokki. Þessir aðilar eru allir komnir á svokallaðan biðlista og fá fyrstir fréttir af því þegar sala hefst.

Endurmörkun

Samhliða byggingunni er ætlunin að fara með vörumerkið Fjörður í vissa endurmörkun (re-branding) enda mikil breyting framundan og búist við um tveimur milljónum gesta á ári í framtíðinni.   

 

Við þökkum kærlega fyrir okkur og hlökkum til að fylgjast með uppbyggingu að enn öflugri miðbæ Hafnarfjarðar. Þetta var virkilega áhugaverð og spennandi kynning og góðar og glæsilegar veitingar.

Nánari upplýsingar um nýbygginguna má skoða hér

Previous
Previous

Aukin sala, sterkari viðskiptavinavild og vörumerki

Next
Next

Fyrirtækjakaffi með kaffigest