Aukin sala, sterkari viðskiptavinavild og vörumerki
Markaðssetning í tölvupósti getur aukið sölu, byggt upp sterkari viðskiptavinavild og styrkt vörumerkið þitt. Það eru þó ýmis atriði sem hafa þarf í huga til að gera tölvupósta markvissa og góða. Á námskeiðinu okkar Póstlisti sem öflugt tól í markaðssetningu sem við héldum fyrir starfsfólk aðildarfyrirtækja var farið yfir þessi mikilvægu atriði.
Tölvupóstar eru samskipti
Það var Ásgeir Hólm, sérfræðingur í markaðsmálum sem hélt námskeiðið og lagði áherslu á að tölvupóstum sé ætlað að auka samskipti. Þá talaði hann um hvernig eigi að byggja upp netfangalista, hversu mismunandi skráningarform geti verið og ítrekaði mikilvægi þess að hafa skráningarsíðuna sýnilega og gjarnan á fleiri en einum stað á vefsíðunni okkar.
Þá er nauðsynlegt að hafa póstana einfalda og stílhreina, afskráningar- og uppfærslusíða þarf einnig að vera til staðar og mikilvægt að virða persónuverndarlög þegar kemur öflun netfanga og senda ekki póst nema að hafa fengið leyfi til þess.
Yfir 100 mismunandi forrit
Það eru til yfir 100 mismunandi markpóstaforrit sem hægt er að nýta en vissulega eru sum vinsælli og betri en önnur. Ásgeir fór yfir nokkur atriði sem gott er að hafa í huga við val á forriti og benti á sniðugar vefsíður til að kynna sér málið betur.
Á námskeiðinu var líka rætt um hversu oft ætti að senda pósta, hvernig hægt er að mæla árangur og mikilvægi þess að skilgreina markhópa og setja sér skilgreind markmið.
Ánægðir þátttakendur
Við þökkum öllum sem mættu fyrir komuna. Eins og vanalega gerðum við námsmat í lokin og þar kom fram að 88% voru ánægðir með námskeiðið sem og fyrirlesarann. Sama var upp á teningnum þegar spurt var hvort fræðslan hafi staðið undir væntingum. Þá voru einnig 88% á því að fræðslan muni nýtast sér í starfi og þar af 75% sem telja það mjög líklegt.
Að lokum þökkum við Ásgeiri fyrir frábæra fræðslu og vonum að þátttakendur eigi eftir að nýta sér fróðleikinn sem best.