Markaðsstofan er samfélag – mikil ánægja í viðhorfskönnun

Við í markaðsstofunni viljum alltaf gera betur og hlusta á þarfir og væntingar aðildarfyrirtækja okkar. Nýverið gerðum við því viðhorfskönnun með von um að heyra álit þeirra á starfi okkar sem og að fá hugmyndir og ábendingar.

Könnunin var send í tölvupósti og eftir tvær ítrekanir svöruðu um 68% af þeim sem opnuðu tölvupóstana sem verður að teljast góð þátttaka.

Mikil jákvæðni

Í heildina má segja að niðurstöðurnar hafi verið mjög ánægjulegar og aðildarfyrirtæki greinilega jákvæð í okkar garð.  

91,5% voru ánægðir með dagskrá stofunnar síðastliðinn vetur (51,1% mjög ánægðir og 40,4% ánægðir) en 8,5% svarenda hökuðu við hvorki né. Þá er ljóst að námskeið og fyrirlestrar vekja mestan áhuga en 84,6% merktu við þann möguleika, 48,1% við fyrirtækjaheimsóknir og 40,4% við fyrirtækjakaffi en vert er að taka fram að hægt var að velja fleiri en einn möguleika.

Þá var spurt hvaða tímasetning henti viðkomandi best fyrir viðburði. 55,1% vilja mæta fyrir hádegi á milli kl. 9 og 12 en 32,7% síðdegis á milli 16 og 19, aðrir völdu annan tíma.

Af þeim sem svöruðu höfðu 86,3% sótt viðburði á vegum stofunnar síðastliðinn vetur og þarf af voru yfir 50% sem höfðu sótt þrjá eða fleiri viðburði.

Þá gafst kostur á því að koma einhverju á framfæri varðandi dagskrána og nýttu sér nokkrir það. Svörin má lesa hér að neðan:

  • Flott starf sem þið vinnið

  • Halda áfram á þessari braut, mjög flott dagskrá og metnaður.

  • Frábær dagskrá, það mætti kannski rótera betur á milli daga viðburðunum. Flott starf sem er klárlega að skila árangri og betri tengslum meðal fyrirtækja í Hafnarfirði, metnaðarfullt og faglegt starf.

  • Meira um einyrkja kaffihittinga.

  • Bara vel gert og frábært að hafa þetta concept.

  • Þið eruð að standa ykkur alveg ótrúlega vel.

  • Um námskeið og fyrirlestra þá væri gott að geta fylgst með á netinu og jafnvel upptöku seinna meir.

  • Finnst þið vera að sinna frábæru starfi og náið að gera sitt lítið af hverju sem hentar fjölbreyttum hópi.

Vera hluti af samfélagi

Rúmlega 60% af þeim sem tóku þátt í könnuninni skráðu fyrirtækið í markaðsstofuna á síðustu þremur árum. Okkur lá forvitni á að vita hvað varð til þess að fyrirtækið var skráð og svörin létu ekki á sér standa og augljóst að flestir vilja efla tengslanetið og vera hluti af samfélagi, sem markaðsstofan vissulega er. Hér að neðan má sjá nokkur af þeim svörum sem við fengum:

  • Til að efla tengslanet.

  • Vera með í hópnum.

  • Ég hafði fylgst með starfinu og leyst vel á það og vildi komast inn í þetta samfélag.

  • Námskeiðin í boði.

  • Við höfum áhuga á að taka þátt í að efla þjónustu í Hafnarfirði og besta leiðin til þess er að þekkja og vinna samhliða og með Markaðsstofunni og öðrum rekstraraðilum í bæjarfélaginu okkar.

  • Vildum kynnast atvinnulífinu í Hafnarfirði.

  • Efla samstarf innan bæjarfélags og fá að kíkja í og nýta viskubrunn annarra.

  • Kom ekki annað til greina.

  • Tengslanet.

  • Heyrði af frábæru starfi markaðsstofunnar.

  • Óbilandi bjartsýni og umhyggja fyrir atvinnulífi í Hafnarfirði.

  • Til að efla tengslanetið og kynnast öðrum fyrirtækjum og nærsamfélaginu í leiðinni.

  • Fannst áhugavert að vera með í markaðsstofunni, vera smá hluti af stærri heild þar sem ég rek mjög smátt fyrirtæki og möguleika til þess að skapa tengslanet. Einnig frábært að fá aðgang að fræðslu fyrirlestrum.

Misjafnar skoðanir á árgjaldi

Stjórn markaðsstofunnar hefur í nokkurn tíma velt fyrir sér árgjaldinu sem er 25.000 kr. og allir borga það sama óháð stærð fyrirtækja. 78% af þeim sem svöruðu finnst gjaldið vera hæfilegt, 14% segja það of hátt og 8% of lágt. Þá eru mjög skiptar skoðanir á því hvort þrepaskipta ætti gjaldinu eftir stærð fyrirtækja en 42% finnst að allir ættu að greiða það sama en 58% eru á því að fyrirtæki ættu að greiða árgjald eftir stærð.

98% mæla með MSH

Við vildum gjarnan vita hversu ánægður viðkomandi væri almennt með starfsemi markaðsstofunnar og þar voru 60% mjög ánægðir, 32% ánægðir og 8% eru hvorki né.

98% svarenda sagðist þá mæla með markaðsstofunni við önnur fyrirtæki, eitthvað sem gleður okkur mikið að heyra.

Í lokin gafst svarendum tækifæri til að koma einhverju öðru á framfæri. Lesa má þau svör hér að neðan:

  • Flott, faglegt starf, sýnilegt. Spurning hvort væri hægt að hafa tvo stærri viðburði, jólagleðin og vorgleði eða eitthvað annað.

  • Gætum ef til vill leitt ólík fyrirtæki meira saman í að vinna að verkefnum til að efla starfsemi í heimabyggð og virkja hjá fyrirtækjum að versla í heimabyggð. Annars mjög gott starf sem Markaðsstofa Hafnarfjarðar er að gera!

  • Þið standið ykkur mjög vel, flott námskeið og fróðlegar fyrirtækjaheimsóknir.

  • Virkilega gott og MIKILVÆGT starf sem MSH er að vinna.

 

Við þökkum öllum sem tóku þátt kærlega fyrir svörin. Þau hjálpa okkur að gera enn betur í framtíðinni.