Öflug nýsköpun í yfir 100 ára fyrirtæki
14. nóvember 2023
Góður hópur fulltrúa aðildarfyrirtækja markaðsstofunnar fór nýverið í heimsókn til Héðins á Gjáhellu, sem er meðal stærstu fyrirtækja bæjarins sem og eitt af okkar aðildarfyrirtækjum.
Vel var tekið á móti hópnum af Rögnvaldi, framkvæmdastjóra, Matthíasi fjármálastjóra og Jóni Trausta framleiðslustjóra.
Yfir 100 ára reynsla
Héðinn fagnaði 100 ára afmæli á síðasta ári og er eitt stærsta fyrirtæki landsins á sviði málmvinnslu og véltækni. Fyrirtækið þjónar einna helst sjávarútveginum en meðal viðskiptavina eru einnig orkufyrirtæki, stóriðjufyrirtæki ásamt ýmsum nýsköpunar- og þróunarfyrirtækjum.
Hópurinn fékk að skoða starfsemina og húsnæðið sem er virkilega glæsilegt og rúmgott en það er um tíu þúsund fermetrar og ákaflega vel tækjum búið.
Nýsköpun mikilvæg
Fyrirtækið er duglegt að þróa sig áfram og leggur mikið upp úr nýsköpun. Þessa dagana er m.a. verið að setja upp nýsköpunarsetur sem verður vonandi opnað fljótlega og þegar búið að ráða nýsköpunarstjóra. Þá fékk Héðinn nýverið viðurkenningu frá Creditinfo um að vera framúrskarandi í nýsköpun.
Sem dæmi er Héðinn að taka upp nýja aðferð við að vinna ryðfrítt stál sem er mun umhverfisvænna en þær aðferðir sem hafa verið nýttar hingað til. Þeir eru fyrsta fyrirtæki landsins og í raun með þeim fyrstu í Evrópu til að tileinka sér þessa aðferð. Í heimsókninni fengum við líka stutta kynningu á starfi HPP, Héðinn Protein Plant, sem hannar og þróar mjölverksmiðjur í skip og á landi sem nota 30% minni orku, taka 30% minna pláss og framleiða þar af leiðandi enn betra prótein.
Öflugur hópur starfsfólks
Hjá Héðni starfa að jafnaði um 130 starfsmenn með dótturfélaginu Héðinshurðum og þá eru þeir einnig með hóp verktaka sem sinna ýmsum verkefnum. Margir hafa starfað lengi hjá fyrirtækinu, einn í heil 50 ár og framkvæmdastjórinn á bráðum 30 ára starfsafmæli. Meðalaldur starfsmanna hefur þó farið lækkandi á undanförnum árum en mikið er lagt upp úr því að hafa gaman í vinnunni og hjá þeim starfar öflugt starfsmannafélag.
Takk fyrir okkur
Við þökkum þeim í Héðni fyrir að taka ákaflega vel á móti okkur. Það var afar áhugavert að fá að skoða starfsemina og heyra um allt sem þið eruð að fást við. Þá voru allir mjög ánægðir með hafnfirsku lyklakippurnar sem þeir skáru út í gær til að færa okkur.