Dagskrá í upphafi árs

Við í markaðsstofunni tökum nýju ári fagnandi og hlökkum til að efla og styrkja samstöðu meðal atvinnurekenda í bænum okkar. Hluti af því er að setja upp öfluga dagskrá þar sem starfsfólki aðildarfyrirtækja gefst tækifæri til að sækja sér fræðslu en einnig styrkja tengslanetið.

Við kynnum því með stolti dagskrá okkar fram í miðjan mars. Fleiri viðburðir í mars, apríl og maí verða birtir fljótlega.

Nánari upplýsingar um námskeiðið, fyrirtækjaheimsóknirnar og fyrirtækjakaffið hér að neðan.

Skráning og fyrirvari

Mikilvægt er að skrá sig á námskeið og í fyrirtækjaheimsóknirnar með því að senda póst á msh@msh.is. Þessir viðburðir eru starfsfólki aðildarfyrirtækja að kostnaðarlausu. Fyrirtækjakaffið er hins vegar öllum opið.

Dagatal

Við erum búin að setja upp dagatal með öllum okkar viðburðum - við hvetjum fólk til að nýta sér það og setja viðburðina inn í sitt dagatal.

Skráning í markaðsstofuna

Ef þitt fyrirtæki er ekki skráð í markaðsstofuna má gera það hér


ATHYGLI OG ÁRANGUR Í MARKAÐSSTARFI

Spennandi námskeið með Gerði í Blush sem hefur vakið mikla athygli undanfarið fyrir skemmtilegt og árangursríkt markaðsstarf en hún var valin markaðsmanneskja ársins 2021 af ÍMARK, samtökum marks- og auglýsingafólks. Þá var fyrirtækið hennar Blush tilnefnt sem eitt af fimm markaðsfyrirtækjum ársins í desember síðastliðnum af ÍMARK.

Á námskeiðinu fer Gerður aðallega yfir þessi fjögur atriði:

  • Leiðir til að byggja upp sjálfstraust í starfi

  • Hvaðan koma hugmyndir og tækifæri

  • Ómælanlegar herferðir

  • Hvernig setjum við upp einfalt markaðsplan og stefnu til að auðvelda okkur vinnuna 

Gerður segist hafa bilaða ástríðu fyrir markaðsmálum, og það sem henni þykir allra skemmtilegast er að notast við einfaldar og ódýrar aðferðir til að ná athygli og árangri i markaðstarfi.

Hver
Gerður Huld Arinbjarnardóttir, eigandi Blush og markaðsmanneskja ársins 2021 hjá ÍMARK

Hvenær og hvar
Fimmtudaginn 26. janúar kl. 9:00-11:00 á Kænunni. 

Skráning
Skráningarfrestur er til og með 20. janúar.
Það má að hámarki skrá tvo frá hverju aðildarfyrirtæki.

Skráning hér


FYRIRTÆKJAHEIMSÓKNIR

ARTIC THEORY

Tölvuleikjagerðarfyrirtækið Arctic Theory sem staðsett er á Strandgötu 29 býður okkur í heimsókn. Gísli Konráðsson, einn af stofnendum og eigendum fyrirtækisins tekur á móti okkur ásamt Ólöfu Svölu Magnúsdóttur sem hefur starfað hjá Arctic Theory frá stofnun. Þau kynna starfsemina og sýna frá tölvuleik í þróun og við fáum innsýn í þær aðferðir og verkfæri sem fyrirtækið er að nýta sér. Þá fáum við líka að heyra þeirra sögu og kynnast aðeins tölvuleikjageiranum almennt.

Hvenær: Miðvikudaginn 18. janúar kl. 9:00
Skráningarfrestur til og með 15. janúar - skrá hér

 

FLÚRLAMPAR

Flúrlampar eða lampar.is bjóða okkur í heimsókn til sín á Reykjavíkurveginn. Þetta fyrirtæki rekur sögu sína aftur til ársins 1977 en starfsemin er afar fjölbreytt í dag. Á fyrstu hæð er verslun, lager og skrifstofur sem kannski margir þekkja en í kjallara hússins er framleiðsla og verkstæði. Þar eru ljós smíðuð frá grunni og nýir ljósgjafar settir í gömul ljós. Þá er fyrirtækið jafnframt mikið í því að útbúa ljósastýringar fyrir stærri byggingar en þá er átt við forritaðan stjórnbúnað sem getur stýrt allri lýsingu.

Eigendurnir Jóhann og Elma taka á móti okkur og segja frá þeirri gífurlegu þróun sem hefur verið í ljósaheiminum á undanförnum árum og hversu miklu miklu hugviti og reynslu fyrirtækið hefur yfir að búa.

Hvenær: Þriðjudaginn 28. febrúar kl. 9:00
Skráningarfrestur til og með 24. febrúar - skrá hér

 

MÁLMSTEYPAN HELLA

Fjölskyldufyrirtækið Málmsteypan Hella á Kaplahrauni sem hefur verið starfandi í yfir 70 ár tekur á móti okkur og bræðurnir Grétar Már og Leifur Þorvaldssynir kynna starfsemina. Fyrirtækið framleiðir fjölbreyttar vörur fyrir iðnaðarfyrirtæki en einnig hina frægu íslensku pönnukökupönnuna, leiðisplötur og húsnúmer.

Við fáum að skoða verksmiðjuna og heyra þeirra löngu sögu.

Hvenær: Fimmtudaginn 16. mars kl. 9:00
Skráningarfrestur til og með 13. mars - skrá hér


FYRIRTÆKJAKAFFI

Frábær vettvangur fyrir fólk í atvinnulífinu í Hafnarfirði til að koma saman, styrkja tengslanetið og ræða mál líðandi stundar. Notaleg og óformleg stemmning en umræðuefnið ræðst af því hverjir mæta og brydda upp á efni.

Fyrirtækjaeigendur og lykilstarfsmenn fyrirtækja í Hafnarfirði velkomnir. Framkvæmdastjóri markaðsstofunnar sem og hluti stjórnar verða á staðnum.

Alltaf haldið á Betri stofunni á 7. hæð í Firði. Byrjar klukkan 9:00 og er oftast í um eina klukkustund.