Í morgun héldum við námskeiðið Athygli og árangur í markaðsstarfi með Gerði í Blush fyrir starfsfólk aðildarfyrirtækja markaðsstofunnar. Það má með sanni segja að námskeiðið hafi fengið frábærar viðtökur en samkvæmt námsmati sem við lögðum fyrir í lok námskeiðs var hver einasti þátttakandi ánægður með fræðsluna í heild sinni og þar af 92% mjög ánægðir.
Einlægni og ástríða
Í kynningu á námskeiðinu kom fram að Gerður hafi bilaða ástríðu fyrir markaðsmálum og það sem henni þykir allra skemmtilegast er að notast við einfaldar og ódýrar aðferðir til að ná athygli og árangri i markaðstarfi. Þessi ástríða kom vel í ljós í morgun og Gerður ótrúlega einlæg og sagði bæði frá því sem hefur gengið vel en einnig því sem hafi síður heppnast.
Tilfinningar og mælingar
Grunntónninn í fyrirlestri Gerðar var hvernig við getum notað öðruvísi aðferðir til að markaðssetja á sem ódýrastan hátt. Hún talaði þá meðal annars um mikilvægi þess að ná til fólks á tilfinningalegan hátt, hugsa um heildarupplifun viðskiptavina, grípa tækifæri úr daglegri umræðu hverju sinni, vera með viðburði, fara í samstarf og mikilvægi góðs umtals svo eitthvað sé nefnt.
Þá sagði hún einnig frá því að þessar aðferðir væri oft erfitt að mæla samanborið við heimsóknarfjölda á vefsíðu, smelli á auglýsingar og fleira en þessar aðferðir væru samt sem áður ekki síður mikilvægar.
Stóð undir væntingum
Við þökkum öllum sem mættu fyrir komuna og góðar spurningar en hver og einn einasti sagði í námsmatinu að fræðslan hafi staðið undir væntingum. Þá voru líka allir á því að fræðslan muni nýtast sér í starfi, þar af sögðu 79% að það væri mjög líklegt en 21% nokkuð líklegt.
Að lokum þökkum við Gerði fyrir frábæra fræðslu.