Við í markaðsstofunni erum þess fullviss að með fræðslu, samtali og sterku tengslaneti eflum við og styrkjum samstöðu meðal atvinnurekenda í bænum okkar.
Fyrr í mánuðinum kynntum við dagskrá okkar fram í miðjan mars en hér má líta á spennandi viðburði á okkar vegum alveg fram á sumar. Þar á meðal eru áhugaverð námskeið, spennandi fyrirtækjaheimsóknir, hvatningarverðlaunahátið, reynslusaga og ört stækkandi fyrirtækjakaffi.
Nánari upplýsingar um viðburðina má sjá hér að neðan.
Skráning og fyrirvari
Mikilvægt er að skrá sig á námskeið og í fyrirtækjaheimsóknirnar. Þessir viðburðir eru starfsfólki aðildarfyrirtækja að kostnaðarlausu. Fyrirtækjakaffið er hins vegar öllum opið og óþarfi að skrá sig í það.
Dagatal
Við erum búin að setja upp dagatal með öllum okkar viðburðum - við hvetjum fólk til að nýta sér það og setja viðburðina inn í sitt dagatal.
Skráning í markaðsstofuna
Ef þitt fyrirtæki er ekki skráð í markaðstofuna getur þú gert það hér
námskeið og reynslusaga
ATHYGLI OG ÁRANGUR Í MARKAÐSSTARFI
Spennandi námskeið með Gerði í Blush sem hefur vakið mikla athygli undanfarið fyrir skemmtilegt og árangursríkt markaðsstarf en hún var valin markaðsmanneskja ársins 2021 af ÍMARK, samtökum marks- og auglýsingafólks. Þá var fyrirtækið hennar Blush tilnefnt sem eitt af fimm markaðsfyrirtækjum ársins í desember síðastliðnum af ÍMARK.
Á námskeiðinu fer Gerður aðallega yfir þessi fjögur atriði:
Leiðir til að byggja upp sjálfstraust í starfi
Hvaðan koma hugmyndir og tækifæri
Ómælanlegar herferðir
Hvernig setjum við upp einfalt markaðsplan og stefnu til að auðvelda okkur vinnuna
Gerður segist hafa bilaða ástríðu fyrir markaðsmálum, og það sem henni þykir allra skemmtilegast er að notast við einfaldar og ódýrar aðferðir til að ná athygli og árangri i markaðstarfi.
Hver
Gerður Huld Arinbjarnardóttir, eigandi Blush og markaðsmanneskja ársins 2021 hjá ÍMARK
Hvenær og hvar
Fimmtudaginn 26. janúar kl. 9:00-11:00 á Kænunni.
Skráning
Skráningarfrestur er til og með 20. janúar.
Það má að hámarki skrá tvo frá hverju aðildarfyrirtæki.
Skráning hér
Hvernig gengur að finna fyrirtækið þitt á vefnum? Það er ekki sjálfgefið að vefir komi ofarlega upp í leitarvélum og mikilvægt að hafa allar stillingar réttar. Á þessu námskeiði ætlar Óli Jóns sem hefur starfað í heimi markaðssmála meira og minna frá árinu 2008 að fræða okkur um mikilvægi leitarvélarbestunar.
Hann fer yfir það hvernig leitarvélar virka og hvað leitarvélabestun sé í raun og veru. Þá svarar hann eftirfarandi spurningum:
Eru fleiri leitarvélar en Google?
Hvað er fyrsta skrefið og mikilvægasta varðandi leitarvélabestun?
Hvernig veit ég hver staðan mín er á leitarvélum?
Er best/nauðsynlegt að vera efst?
Hvað get ég gert fyrir minn vef?
Hvernig mæli ég árangurinn?
Hvenær er ég búinn að leitarvélabesta vefinn minn?
Hvenær er tímabært að kaupa utanaðkomandi þjónustu?
Hvað er gott að vita þegar ég kaupi þjónustu í leitarvélabestun?
Að lokum kynnir hann nokkur tól og tæki sem gott er að þekkja.
Hver
Ólafur Jónsson, Managing Director hjá MCM Iceland, ráðgjafi, markaðssetningarþjálfari og hlaðvarpsframleiðandi á Jóns.
Hvenær og hvar
Þriðjudaginn 28. mars kl. 9:00-11:00 á Kænunni.
Skráning
Skráning - skráningarfrestur er til og með 23. mars.
Það geta hámark tveir komið frá hverju aðildarfyrirtæki.
Skráning hér
Erindi þar sem stiklað verður á stóru í reynslusögu Hópbíla (case studie) sem hefur verið starfandi í hátt í 30 ár og er með yfir 200 starfsmenn.
Farið verður yfir sögu fyrirtækisins og hverjar hafa verið þeirra helstu áskoranir og hindranir í gegnum árin. Þá verður farið yfir það hvernig umhverfið hafi breyst á undanförnum árum og hverjar séu þeirra helstu framtíðarpælingar. Að lokum verður rætt um vinnu fyrirtækisins í tengslum við umhverfismál sem skipta gríðarlega miklu máli í þeirra rekstri.
Hver
Pálmar Sigurðsson, skrifstofustjóri Hópbíla
Hvenær og hvar
Fim. 27. apríl
Skráning
Skráningarfrestur er til og með 21. apríl.
Skráning hér
Sköpunargleði er forsenda nýsköpunar og fyrirtæki þurfa heldur betur að einbeita sér að henni til þess að ná árangri í ört breytandi umhverfi.
Rannsóknir benda á að þau fyrirtæki sem eru skapandi vaxa að meðaltali 160% hraðar en þau sem eru það ekki. Aukin sköpunargleði getur ýtt undir meiri starfsánægju, innri hvata, bætt upplifun starfsfólks og aukið helgun þeirra í starfi.
Sköpunargleði hefur verið rannsökuð í marga áratugi og á þessu námskeiði deilir Birna Dröfn með ykkur hvað gott er að hafa í huga til þess að nýta og efla sköpunargleði starfsfólks. Þá kynnir hún aðferðir sem þátttakendur geta nýtt sér til þess að sjá ný tækifæri og styðja við sína eigin skapandi hugsun.
Hver
Birna Dröfn Birgisdóttir, sköpunargleðifræðingur hefur þjálfað hundruðir einstaklinga og fyrirtæki í sköpunargleði og rannsakar núna í doktorsnámi sínu við HR hvernig efla megi sköpunargleði á meðal starfsmanna.
Birna Dröfn er viðskiptafræðingur með meistaragráðu í alþjóðaviðskiptum sem og stjórnendamarkþjálfi. Hún er meðstofnandi Bulby sem er sköpunargleðihugbúnaður sem byggir á rannsökuðum aðferðum til að efla sköpunargleðina.
Hvenær og hvar
Miðvikudaginn 24. maí kl. 9:00-11:00 á Kænunni.
Skráning
Skráning - skráningarfrestur er til og með 19. maí.
Það geta hámark tveir komið frá hverju aðildarfyrirtæki.
Skráning hér
FYRIRTÆKJAHEIMSÓKNIR
Flúrlampar eða lampar.is bjóða okkur í heimsókn til sín á Reykjavíkurveginn. Þetta fyrirtæki rekur sögu sína aftur til ársins 1977 en starfsemin er afar fjölbreytt í dag. Á fyrstu hæð er verslun, lager og skrifstofur sem kannski margir þekkja en í kjallara hússins er framleiðsla og verkstæði. Þar eru ljós smíðuð frá grunni og nýir ljósgjafar settir í gömul ljós. Þá er fyrirtækið jafnframt mikið í því að útbúa ljósastýringar fyrir stærri byggingar en þá er átt við forritaðan stjórnbúnað sem getur stýrt allri lýsingu.
Eigendurnir Jóhann og Elma taka á móti okkur og segja frá þeirri gífurlegu þróun sem hefur verið í ljósaheiminum á undanförnum árum og hversu miklu miklu hugviti og reynslu fyrirtækið hefur yfir að búa.
Hvenær: Þriðjudaginn 28. febrúar kl. 9:00
Skráningarfrestur til og með 24. febrúar
Skráning hér
Fjölskyldufyrirtækið Málmsteypan Hella á Kaplahrauni sem hefur verið starfandi í yfir 70 ár tekur á móti okkur og bræðurnir Grétar Már og Leifur Þorvaldssynir kynna starfsemina. Fyrirtækið framleiðir fjölbreyttar vörur fyrir iðnaðarfyrirtæki en einnig hina frægu íslensku pönnukökupönnuna, leiðisplötur og húsnúmer.
Við fáum að skoða verksmiðjuna og heyra þeirra löngu sögu.
Hvenær: Fimmtudaginn 16. mars kl. 9:00
Skráningarfrestur til og með 13. mars
Skráning hér
HAFIÐ FISKVINNSLA
Hafið fiskverslun, sem er leiðandi á innanlandsmarkaði í sölu á ferskum fiski er með höfuðstöðvar sínar á bryggjunni að Fornubúðum 1. Við fáum að koma þangað í heimsókn og eigendurnir þeir Eyjólfur Pálsson og Halldór Halldórsson taka á móti okkur og kynna sína starfsemi. Í Fornubúðum er heildverslun fyrirtækisins, fiskvinnslan sem og skrifstofurnar.
Hvenær: Þriðjudaginn 9. maí kl. 9:00
Skráningarfrestur til og með 5. maí - skrá hér
FYRIRTÆKJAKAFFI
Frábær vettvangur fyrir fólk í atvinnulífinu í Hafnarfirði til að koma saman, styrkja tengslanetið og ræða mál líðandi stundar. Notaleg og óformleg stemmning en umræðuefnið ræðst af því hverjir mæta og brydda upp á efni.
Fyrirtækjaeigendur og lykilstarfsmenn fyrirtækja í Hafnarfirði velkomnir. Framkvæmdastjóri markaðsstofunnar sem og hluti stjórnar verða á staðnum.
Alltaf haldið á Betri stofunni á 7. hæð í Firði. Byrjar klukkan 9:00 og er oftast í um eina klukkustund.