Stjórn markaðsstofunnar kom saman á fyrsta fundi ársins í síðustu viku. Dagskrá fundarins var nokkuð víðtæk en fjárhagsáætlun, innheimta aðildargjalda, væntanlegur aðalfundur, staða samnings við Hafnarfjarðarbæ og hvatningarverðlaunin voru meðal annars til umræðu.
Fjárhagsáætlun og aðildargjöld ársins
Í upphafi fundar lagði formaður fram fjárhagsáætlun ársins sem er nokkuð áþekk áætlunum síðustu ára. Fjárframlag Hafnarfjarðarbæjar er hið sama en fjölgun aðildarfyrirtækja hefur verið töluverð og þá er einnig gert ráð fyrir áframhaldandi fjölgun og því ætti að vera mögulegt að halda úti svipuðu starfi og á síðasta ári.
Reikningur fyrir aðildargjaldi ársins sem er 25.000 kr. líkt og í fyrra verður sendur út í lok vikunnar. Að þessu sinni fá rúmlega 140 fyrirtæki sendan reikning. Í upphafi mánaðarins voru fyrirtæki hvött til að hafa samband vildu þau dreifa reikningnum á fleiri greiðslur en lítið sem ekkert hefur verið óskað eftir því.
Hvatningarverðlaun og aðalfundur
Hvatningarverðlaunahátíðin verður haldin fimmtudaginn 16. febrúar næstkomandi og verða með svipuðu sniði og í fyrra. Byrjað verður í næstu viku að óska eftir tilnefningum og líkt og á síðasta ári geta allir sent inn tilnefningu en endaleg ákvörðun um hver hljóti verðlaunin og aðrar viðurkenningar liggur hjá stjórn.
Ákveðið var að halda aðalfund okkar um miðjan apríl, líklega þann 12. apríl en framkvæmdastjóri og formaður skoða það betur.
Samningur við Hafnarfjarðarbæ
Formaður greindi frá því að fjárframlag Hafnarfjarðarbæjar til stofunnar haldist óbreytt sem séu vissulega vonbrigði þar sem við höfðum óskað eftir hærri upphæð enda með fjölmargar hugmyndir sem við viljum gjarnan hrinda í framkvæmd sem og hækkun á ýmsum gjöldum. Lengd samningsins hefur hins vegar ekki verið ákveðin endanlega en formaður er í sambandi við formann bæjarráðs og vonast til að hægt verði að ákveða það og undirrita samning sem fyrst.
Dagskrá, fyrirtækjagleðin og jólagjafahugmyndirnar
Framkvæmdastjóri lagði fram tillögur að tveimur námskeiðum til að halda í mars og maí. Þær tillögur voru báðar samþykktar og framkvæmdastjóri stefnir því að að klára dagskrá fram til vorsins í næstu viku.
Á fundinum bar fyrirtækjagleðin í desember einnig á góma og allir á því að hún hafi heppnast með eindæmum vel og vakið mikla athygli á starfi markaðsstofunnar.
Að lokum sagði framkvæmdstjóri frá því að umfjöllunin um 13 hafnfirskar jólagjafahugmyndir hafið fengið mjög mikla athygli og var listinn skoðaður yfir sex þúsund sinnum sem er meira en hefur verið undanfarin tvö ár.