Dagskrá samþykkt á stjórnarfundi

Stjórn markaðsstofunnar kom saman á fundi þann 18. ágúst síðastliðinn. Meðal efni fundarins var dagskrá okkar fram til áramóta, fjárhagsstaðan og verkefnin framundan.

Nýjungar í dagskrá

Framkvæmdastjóri fór yfir tillögu að dagskrá markaðsstofunnar fram til áramóta þar sem má finna, eins og undanfarin misseri, námskeið, fyrirtækjaheimsóknir og einyrkjakaffi. Tvær nýjungar eða breytingar eru í dagskránni sem eru hluti af tillögum nýrrar stjórnar. Í staðin fyrir að halda hefðbundið námskeið eða fyrirlestur í október förum við í heimsókn til fyrirtækis í bænum og fáum að heyra þeirra reynslusögu (Case Studie) og þá verður fyrirtækjaheimsóknin í nóvember haldin seinnipart dags í staðin fyrir að morgni til eins og verið hefur að undanförnu.

Dagskráin var einróma samþykkt af stjórn og einnig var ákveðið að breyta nafninu á einyrkjakaffinu í fyrirtækjakaffi til að höfða til stærri hóps. Dagskráin verður gerð opinber í næstu viku.

Fjárhagsstaða og fjölgun aðildarfyrirtækja

Allar kröfur fyrir árgjaldi aðildafyrirtækja fyrir árið 2022 eru greiddar en alls eru það 120 fyrirtæki. Sex fyrirtæki hafa sagt sig úr markaðsstofunni á árinu af ýmsum ástæðum en flest hafa hætt starfsemi eða flutt úr bænum. Til að ná því markmiði sem fráfarandi stjórn setti sér í upphafi árs varðandi fjölgun aðildarfyrirtækja og þar af leiðandi auknum tekjum er nauðsynlegt að fá nokkur ný fyrirtæki inn í stofuna. Allir stjórnarmenn eru reiðubúnir til að leggjast á árarnar til að vinna að þessu markmiði.

Útgjöldin hafa verið aðeins lægri en áætlað var meðal annars vegna Covid í byrjun árs og því er fjárhagsstaðan í góðu lagi eins og er, en það vantar vissulega meira fjármagn til að ráðast í ný verkefni.

Samningaviðræður og tekjumódel

Verkefni haustsins er að hefja viðræður við Hafnarfjarðarbæ þar sem samningurinn okkar rennur út um áramótin. Formaður og framkvæmdastjóri munu leiða þá vinnu. Í framhaldi af þeirri umræðu er nauðsynlegt að vinna að nýju tekjumódeli en fyrir liggja nokkrar hugmyndir. Að lokum bar formaður upp hugmynd um að halda jólaboð en það heppnaðist mjög vel árið 2019. Ákveðið að skoða það betur þegar nær dregur.

Næsti fundur

Næsti fundur verður haldinn þann 1. september kl. 9:00.