Fyrr í vikunni héldum við námskeiðið Instagram – tips & trix þar sem Júlía Skagfjörð, viðskipta-og markaðsfræðingur leiddi okkur í gegnum Instagram frumskóginn.
Júlía lagði mikla áherslu á mikilvægi þess að þekkja sinn markhóp og vita hvaða samfélagsmiðla hann nýtir, hvenær og hversu oft og finna þannig út hvernig hann hagar sér. Öll tölfræði kemur sér því ákaflega vel og á Instagram er að finna töluvert af henni. Þá talaði Júlía um muninn á Instagram og Facebook og ítrekaði að á Instagram skipti myndir mestu máli og texti ætti að vera einfaldur og hnitmiðaður. Þá fjallaði hún um muninn á Post, Story og Reels ásamt því að tala um highlights, gif, hashtags og margt fleira áhugavert.
Allir ánægðir
Það var mjög góð mæting á námskeiðið og í raun fullbókað þó einhver forföll hafi orðið.
Samkvæmt könnun sem gerð var meðal þátttakenda var hver og einn einasti ánægður með Júlíu sem fyrirlesara og 96% ánægðir með fræðsluna í heild sinni og á því að hún eigi eftir að nýtast þeim í starfi.
Námskeiðið var haldið í hliðarsalnum á Kænunni við Óseyrarbraut og þökkum við Júlíu fyrir ákaflega áhugaverða fræðslu og aldrei að vita nema við fáum hana aftur til okkar.