Í gær fræddist hópur starfsmanna aðildarfyrirtækja markaðsstofunnar um Facebook auglýsingar en það var Júlía Skagfjörð, viðskipta-og markaðsfræðingur sem fór í gegnum það ferli með okkur.
Júlía fór yfir áherslur, uppsetningar, hvað beri að varast og gaf nokkur hagnýt og mikilvæg ráð í auglýsingagerðinni. Þá lagði hún mikla áherslu á það að gera auglýsingar í gegnum business manager í staðin fyrir að nýta boost takkann. Þar væru miklu fleiri möguleikar og auðveldara að ná í sinn markhóp og þá sem hafa áhuga á þinni vöru eða þjónustu. Þetta sé sérstaklega mikilvægt fyrir lítil fyrirtæki með takmarkað fjármagn.
Auka aðstoð í lok námskeiðs
Að fyrirlestrinum loknum gekk Júlía á milli aðila sem sátu enn í salnum og aðstoðaði við hin ýmsu mál tengdri markaðssetningu. Vert er að taka fram að sá hópur var einstaklega ánægður með þessa morgunstund sem varð vissulega lengri en áætlað var. Bestu þakkir Júlía fyrir að gefa þér lengri tíma og allar þessar flottu ráðleggingar.
Ánægja með fyrirlesara
Það var góð mæting á námskeiðið og í raun fullbókað þó einhver forföll hafi orðið.
Samkvæmt könnun sem gerð var meðal þátttakenda voru 96% ánægðir með Júlíu sem fyrirlesara og 88% telja að fræðslan eigi eftir að nýtast þeim í starfi.
Námskeiðið var haldið í hliðarsalnum á Kænunni við Óseyrarbraut og þökkum við Júlíu fyrir ákaflega áhugaverða fræðslu.