Fyrirtækjagleði, jólagjafahugmyndir ofl.

Stjórn markaðsstofunnar kom saman á fundi í morgun. Dagskrá fundarins var nokkuð víðtæk en fyrirtækjagleði í desember, jólagjafahugmyndir og dagskrá vorsins voru meðal annars til umræðu.

Fyrirtækjagleði og jólagjafahugmyndir

Í upphafi fundar sagði formaður stjórnar að Hafnarfjarðarbær hefði fengið sendar okkar tillögur að breytingum á samstarfssamningi og nú væri beðið eftir fundi sem verður vonandi mjög fljótlega.

Formaður bar jafnframt upp tillögu að halda fyrirtækjagleði í desember líkt og gert var árið 2019 en þó með aðeins breyttu sniði. Stjórnarmenn tóku vel í þessa hugmynd og framkvæmdastjóra falið að halda áfram að skipuleggja viðburðinn.

Líkt og undanfarin tvö ár ætlar markaðsstofan að hvetja sem flesta til að gera jólainnkaupin í Hafnarfirði og útbúa hugmyndalista með 13 hafnfirskum jólagjöfum en þessir listar hafa vakið mikla lukku undanfarin ár. Framkvæmdastjóri kynnti drög að lista ársins sem var einróma samþykktur.

Dagskrá eftir áramót

Eftir áramót er ætlunin að halda áfram að vera með veglega dagskrá fyrir aðildarfyrirtæki stofunnar. Á fundinum var farið yfir nokkrar hugmyndir að námskeiðum en stjórnarmenn jafnframt beðnir um að senda inn fleiri hugmyndir. Góður listi af hugsanlegum fyrirtækjaheimsóknum varð til og ákvörðun tekin um hvaða fyrirtæki verði beðið um segja okkur sína reynslusögu. Þá var ákveðið að halda fyrirtækjakaffið með óbreyttu sniði.  

Nokkur erindi

Framkvæmdastjóra hefur undanfarið borist nokkur erindi frá fyrirtækjum og stofnunum sem hún bar undir stjórn. Góðar umræður mynduðust í tengslum við þessi mál og framkvæmdastjóra falið að vinna þau áfram.

Næsti fundur

Næsti fundur stjórnar verður haldinn þann 1. desember næstkomandi.