Sníða stakk eftir vexti og aldrei tekið lán

Fjarðarkaup fagnar 50 ára afmæli næsta sumar og er eitt af þekktustu fyrirtækjum Hafnarfjarðar. Hópur fulltrúa aðildarfyrirtækja markaðsstofunnar fór nýverið í heimsókn í Fjarðarkaup til að heyra þeirra reynslusögu og hver væri lykillinn að velgengni fyrirtækisins.

Feðginin Sveinn Sigurbergsson, framkvæmdastjóri og Ingibjörg Sveinsdóttir, mannauðs- og markaðsstjóri Fjarðarkaupa tóku á móti hópnum í sal á þriðju hæð verslunarinnar.  

Munaði mjóu að færu til Garðabæjar

Sveinn er mikill Hafnfirðingur og greinilega stoltur af bænum og talaði sérstaklega um hversu mikil gæfa það væri sem dæmi að eiga Hvaleyrina og Hellisgerði þar sem hægt er að spila golf og eiga gæðastundir með fjölskyldunni fyrir jólin. Honum er jafnframt umhugað um ásýnd bæjarins, hún skipti miklu máli og geri bæinn fallegri og betri og þá sé vettvangur eins og markaðsstofan mikilvægur fyrir öflugt tengslanet og samstöðu.

Fjarðarkaup byrjaði reksturinn á Trönuhrauninu í júlí 1973 en flutti á Hólshraunið árið 1982. Sveinn sagði að það hafi nú reyndar munað mjóu að verslunin hefði endað á Garðatorgi í Garðabæ en kvaðirnar hafi verið svo miklar og áhrifamenn í Hafnarfirði hafi svo sem betur fer kippt í einhverja spotta og verslunin fékk lóðina á Hólshrauninu.

Kolahagfræðin – aldrei tekið lán

Í erindi Sveins var honum tíðrætt um hina svokölluðu kolahagfræði sem var Sigurbergi föður hans og Bjarna Blomsterberg meðeiganda hans hugleikin. Þar er átt við vissa aðhaldssemi og að þú verðir að eiga fyrir hlutunum áður en þú kaupir þá. Þessi hugsun hefur ávallt einkennt rekstur Fjarðarkaupa en fyrirtækið hefur aldrei tekið lán, nema í eitt sinn tók Sigurbergur yfirdrátt en leið svo illa yfir því að hann greiddi hann upp eftir 12 klukkustundir. Verslunin hefur því ávallt vaxið hægt og rólega og sniðið sér stakk eftir vexti.

Lykillinn að velgengninni

Sveinn sagði að hann hafi oft verið spurður af því hvernig stæði á því að Fjarðarkaup skuli enn vera starfandi en í gegnum árin hafa fjölmargar matvöruverslanir farið í gjaldþrot. Að hans mati er það ekki bara eitthvað eitt sem skiptir máli heldur samspil ýmissa hluta. Það að skulda engum neitt er vissulega eitt af því þar sem auðvelt hefur verið að draga saman seglin ef illa hefur árað.   

Lykilatriðin eru þó líklega sýnileg og áþreifanleg þjónusta, mikið vöruúrval, góð verðlagning og fullt af öðrum litlum hlutum.

Bók og gjafabréf

Við í markaðsstofunni þökkum Sveini og Ingibjörgu innilega fyrir að taka á móti okkur. Það var ánægður hópur sem gekk út í daginn eftir fróðlegt og skemmtilegt erindi með bók um þessa einstöku verslun í farteskinu sem og gjafabréf í Fjarðarkaup.