Hvatningaverðlaun Markaðsstofu Hafnarfjarðar fóru fram í Hafnarborg 18. febrúar 2020. VON mathús fékk Hvatningaverðlaun MsH og Fjarðarkaup, Lífsgæðasetur St. Jó og Þorgeir Haraldsson fengu viðurkenningar MsH. Leikarinn og fyrirlesarinn Bjartur Guðmundsson hitaði salinn upp með jákvæðni áður en sjálf viðurkenningin fór fram og er óhætt að segja að hann hafi slegið rækilega í gegn.
Hér eru umsagnir um viðurkenningarhafana:
VON mathús: Ber nafn með rentu
„VON ber svo sannarlega nafn með rentu enda voru miklar væntingar bundnar við þá starfsemi sem kom í gömlu iðnaðarhúsin sem höfðu staðið tóm við Strandgötuna um árabil.VON Mathús hefur stimplað sig rækilega inn í þá fjölbreyttu flóru veitingastaða sem er að finna í Hafnarfirði og hefur verið drifkraftur í nýtingu á árstíðarbundinni íslenskri matargerð og hráefnanotkun svo eftir hefur verið tekið. VON hefur þannig bæði náð að hafa áhrif á bæjarbrag og sett bæinn endanlega á kortið sem áfangastað fyrir matgæðinga.“
Fjarðarkaup: Tryggð og rækt við viðskiptavini
„Fjarðarkaup leggur mikla áherslu á góða þjónustu og mikið vöruúrval, enda skilgreinir verslunin sig sem þjónustuverslun. Frá opnun hefur Fjarðarkaup náð að verða gildandi samkeppnisaðili á íslenskum matvörumarkaði, fyrst og fremst með því að höfða til þeirra gilda sem upphaflega var lagt upp með, þjónustu og vöruúrval. Á Íslandi eru örfáar matvöruverslanir sem hafa náð að þróa með sér og móta sín eigin sérkenni og menningu og sem viðskiptavinir tengjast sérstökum tryggðarböndum.“
Lífsgæðasetur St. Jó: Frumkvölastarf og eldmóður
„Það var ljóst að það þyrfti að vanda til verka með þá starfsemi sem myndi hæfa þessari virðulegu byggingu og þeim endurbótum sem ráðist var í. Í húsinu er nú fjölbreytt og lifandi starfsemi á sviði heilsuverndar og sköpunar í samræmi við heilsustefnu Hafnarfjarðar. Lífsgæðasetrið er samfélag sem býður upp á forvarnir, heilsuvernd, snemmtæka íhlutun, fræðslu og skapandi setur. Allir rekstraraðilar eiga það sameiginlegt að auka lífsgæði fólks með einum eða öðrum hætti.“
Þorgeir Haraldsson: Hagsmunir heildarinnar mikilvægastir
„Þorgeir Haraldsson hefur verið formaður handknattleiksdeildar Hauka til fjölda ára og á stóran þátt í þeirri velgengni sem Haukar hafa átt á síðustu tveimur áratugum. Hann hefur setið í stjórn HSÍ auk þess sem hann hefur sinnt ótal verkefnum fyrir handknattleikshreyfinguna alla. Þorgeir hefur sýnt það bæði í orði sem og á borði að hagsmunir heildarinnar skipta höfuðmáli þegar ná þarf árangri og er óumdeildur í stöðu burðarása í íslenskum handknattleik.“
Ólafur Már Svavarsson ljósmyndari tók myndirnar