Við lifum á undarlegum og erfiðum tímum í augnablikinu. Við vitum hinsvegar að með samheldni, áræðni og kærleikann að leiðarljósi munum við komast í gegnum þetta tímabil eins og öll önnur. Við erum öll í þessu saman og verðum að leggjast á eitt ef við ætlum að sigrast á þessum vágesti.
Stór og smá fyrirtæki, ferðaþjónustuaðilar, veitingastaðir og kaffihús munu finna fyrir tímabundnum samdrætti í verslun og þjónustu. Þá munu sérstaklega minni fyrirtækin og einyrkjarnir finna fyrir erfiðum tímum framundan.
Hérna eru nokkrar hugmyndir um hvernig við Hafnfirðingar getum stutt við verslun og þjónustu í bænum okkar:
Ef verslanir og veitingastaðir eru opnir og þú treystir þér til að fara út; farðu endilega og sæktu þjónustu hjá þeim. Vel flestir þjónustuaðilar hafa tekið nauðsynlegar ráðstafanir, aukið þrif og endurbætt aðstöðu sína til að geta tekið á móti gestum samkvæmt ráðleggingum Landlæknis.
Pantaðu vörur eða fáðu heimsendingu. Margir hverjir eru farnir að bjóða upp á slíka þjónustu. Þau pakka jafnvel inn og senda gjafir heim til þín eða þeirra sem þú vilt gleðja.
Láttu vita af þér og sendu þeim stöðum sem þú heimsækir reglulega póst. Við höfum öll þörf á að heyra hvatningarorð og stuðning.
Verslaðu gjafabréf sem þú eða aðrir geta notað síðar.
Haltu áfram að versla við þá staði sem þú sækir reglulega. Taktu með þér kaffi af uppáhalds kaffihúsinu þínu. Fáðu heimsendingu á mat af veitingastaðnum sem þig hefur alltaf langað til að prófa. Pantaðu gjafir frá versluninni sem þú veist að gengur í gegnum erfiða tíma. Haltu áfram að styðja við þá verslun og þjónustu sem þú vilt sjá blómstra í Hafnarfirði til framtíðar.
Sýnum stuðning. Styðjum verslun í heimabyggð. Höldum hjólunum gangandi og horfum til móts bjartari tíma.