Skýrsla stjórnar 2018-2019


Skýrsla stjórnar Markaðsstofu Hafnarfjarðar
 

Starfsárið 2018 - 2019 

 

Inngangur 

Á ársfundi 2018 voru kosnir inn fjórir fulltrúar atvinnulífsins í stjórn Markaðsstofu Hafnarfjarðar (MsH). Endurkjörnir voru Þór Bæring og Sigríður Margrét Jónsdóttir, nýir komu inn Anna María Karlsdóttir og Baldur Ólafsson, varamenn voru Linda Hilmarsdóttir og Valgerður Halldórsdóttir. Eftir aðalfund dró Þór Bæring stjórnarsetu sína til baka og sæti hans tók fyrsti varamaður, Linda Hilmarsdóttir. 

Stjórn skipti með sér verkum svo að Sigríður Margrét Jónsdóttir var kosin formaður, Linda Hilmarsdóttir var kosin varaformaður og ritari, Baldur Ólafsson gjaldkeri. Í byrjun árs 2019  sagði Linda Hilmarsdóttir af sér stjórnarsetu og tók 2. varamaður, Valgerður Halldórsdóttir, sæti í stjórn í hennar stað 

Auk fulltrúa atvinnulífsins skipar Hafnarfjarðarbær þrjá stjórnarmenn og einn varamann í stjórn MsH. Í byrjun starfsárs sátu Arnbjörn Ólafsson fyrir Bæjarlistann, Kristín Thoroddsen fyrir Sjálfstæðisflokk og Jóhanna Erla Guðjónsdóttir fyrir Framsókn og óháða. Sökum anna bað Jóhanna sig frá stjórnarsetu. Við tók Einar Baldvin Brimar og síðar meir Anna Karen Svövudóttir sem hefur setið í stjórn síðan um miðjan nóvember 2018 . Breytingar urðu einnig á fulltrúum sjálfstæðisflokks í stjórn, en Kristín vék úr stjórn í lok febrúar  2019  og tók Skarphéðinn Orri Björnsson sæti hennar. Varamaður er Kristinn Andersen, Sjálfstæðisflokki.

Á starfsári stjórnar voru haldnir 23 stjórnarfundir og sex lengri vinnufundir. Mörg önnur mál voru unnin í gegnum tölvupóstssamskipti og á Facebook hóp stjórnar. 

Mikil vinna var í byrjun starfsárs lögð í að vinna að innviðum stjórnarstarfsins, skýra starfsreglur stjórnar (sem eru á heimasíðu MsH) og setja fram siðareglur. Einnig var unnið að markvissari skipulagningu á starfinu og utanumhaldi verkefna, meðal annars með uppsetningu á Trello þar sem öll gögn og vinna stjórnar fer fram. Stjórn vinnur einnig að stefnumótun og skorkorti fyrir MsH.  

Endurnýjun á samningi við Hafnarfjarðarbæ markaði mjög vinnu stjórnar á starfsárinu þar sem unnið var að því að framlengja samstarfssamningum. Það er ánægjulegt að tilkynna aðildarfélögum að nú liggur fyrir samningur til þriggja ára og var hann samþykktur einróma í bæjarstjórn. Enn á eftir að skýra línur í samstarfi bæjarins og MsH sem og auka samtal þeirra á milli. MsH óskaði eftir reglubundnum fundum sem nú hefur verið komið á og með nýju þjónustu- og þróunarsviði bæjarins bindur MsH vonir um að samtal og samstarf aukist til muna. 

 

Skrifstofa og starfsemi 

Skrifstofa MSH er til húsa að Linnetsstíg 3 og er hún opin alla virka daga 09:00 – 16:00. 

Einn starfsmaður er á launaskrá Markaðsstofunnar, Ása Sigríður Þórisdóttir. Hún er starfandi framkvæmdastjóri í 100% starfshlutfalli. Í lok árs 2018 fór Ása Sigríður í veikindaleyfi. Hún kom aftur til starfa í lok janúar, í skertu starfshlutfalli til að byrja með, en reiknað er með að framkvæmdastjóri verði komin í fullt starfshlutfall á nýju starfsári stjórnar. Á liðnu starfsári lagði stjórn áherslu á mikilvægi reglulegra starfsmannasamtala, og eru slíkir fundir nú komnir í fastar skorður í vinnureglum stjórnar.

Eins og áður segir er skrifstofa MSH til húsa að Linnetsstíg í húsnæði sem Hafnarfjarðarbær hefur til umráða. Stjórn MsH hefur farið þess á leit við Hafnarfjarðarbæ  að Markaðsstofan  fái aðstöðu í hentugra húsnæði, til dæmis í nýju Lífsgæðasetri St. Jó, en þar er bæði meiri nálægð við fyrirtæki og atvinnulíf, auk betri starfsaðstöðu til funda og móttöku gesta. Þá vill stjórn reyna að tryggja gott aðgengi aðildarfyrirtækja að reglulegri starfsemi Markaðsstofunnar, þar með talið framkvæmdarstjóra, á nýju starfsári.

Bókhald MsH er gert af UN bókhald og endurskoðandi reikninga er APAL ehf. 

Aðildarfyrirtæki 

Í byrjun starfsárs voru 82 aðildarfyrirtæki skráð í MsH og eru þau nú í lok starfsársins 90 talsins. Hefur því aðildarfélögum Markaðsstofunnar fjölgað um 10% milli ára.

 

Viðburðir 

Viðburðir á starfsárinu voru fjölmargir, svo sem reglulegir hádegisfundir fyrirtækja og einyrkjakaffi, Hvatningarverðlaun MsH, íbúafundir og vinnufundir tengdir  markaðsstefnumótun, opnar kynningar á starfseminni til fyrirtækja og félagasamtaka, o.fl 

Hvatningaverðlaun MsH 

Í byrjun árs 2019 hlaut KRYDD veitingahús Hvatningarverðlaun Markaðsstofu Hafnarfjarðar, en þau voru veitt í þriðja sinn við hátíðlega athöfn í Hafnarborg þann 31. janúar. Að auki hlutu NÚ skólinn og TRU Flight Training Iceland og Karel Karelsson sérstakar viðurkenningar. Hvatningarverðlaunin eru mikilvægur viðburður í starfi Markaðsstofunnar og er augljóst að þau - líkt og nafnið gefur til kynna - eru fyrirtækjum, stofnunum og einstaklingum hvatning og viðurkenning á því góða starfi sem þau hafa staðið fyrir í Hafnarfirði.

 

Samstarf 

MsH á gott og virkt samstarf við fyrirtæki í Hafnarfirði, bæði þau fyrirtæki sem eiga aðild að félaginu, sem og fyrirtæki, einstaklinga og félagasamtök sem sóst hafa eftir samstarfi við stofuna,til að mynda fyrirtæki sem líta á Hafnarfjörð sem ákjósanlegan stað til að flytja starfsemi sína.

Fulltrúar MsH sitja einnig í nokkrum nefndum og samstarfshópum á vegum bæjarins, svo sem, heilsueflandi samfélag, jólaþorpið, deiliskipulagi miðbæjar og fl.

 

Á döfinni á komandi starfsári 

Hæst á döfinni á komandi starfsári er vinna úr Markaðsstefnumótuninni sem MsH stýrði fyrir hönd Hafnarfjarðarbæjar. Einnig er stefnt á Fyrirtækjadaga í hverfum Hafnarfjarðar með haustinu, ásamt að halda utan um reglulega viðburði svo sem hádegisfræðslu, einyrkjakaffi og fundi með hverfafélögunum. Þá verður eftir sem áður lögð áhersla á góða upplýsingagjöf til aðildarfélaga, meðal annars í rafrænu fréttabréfi, á samfélagsmiðlum og á heimasíðu félagsins.

Meðal annarra verkefna á döfinni er skipulagsvinna sem snýr að frekari sjálfbærni Markaðsstofunnar,  úrvinnsla og eftirfylgni á ánægjukönnun aðildarfyrirtækja sem MsH stóð fyrir á á vordögum, skipulögð vinna í  aukningu aðildarfélaga, gerð markaðs- og kynningarefnis fyrir MsH, hönnun og útfærslu á merki fyrir aðildarfélaga sem þeir geta haft sýnilegt bæði á rafrænum miðlum og í fyrirtækjum, og margt fleira.

Þessi samantekt á verkefnum stofunnar er ekki tæmandi og mun ný stjórn MsH sem verður kosin á aðalfundi félagsins móta og vinna áfram starfsáætlun félagsins á komandi starfsári meðal annars með nánari útlistun á einstökum verkefnum.