Aðalfundur Markaðsstofu Hafnarfjarðar verður haldinn þriðjudaginn, 21. maí kl. 18:00, kosið verður um fjóra aðalmenn í stjórn, fimmti maður inn telst réttkjörinn varamaður. Það eru aðildarfyrirtæki MsH sem velja fulltrúa atvinnulífsins í stjórnina.
Vert er að taka fram að ekki er greitt fyrir stjórnarsetu. Kjörgengi og kosningarétt til stjórnarkjörs hafa þeir sem greitt hafa árgjald 2019, skv. 1. mgr. samþykkta/skipulagsskrá.
Eitt atkvæði fylgir hverju greiddu árgjaldi.
Eftirtaldir hafa gefið kost á sér í stjórn Markaðsstofu Hafnarfjarðar einnig er hægt að bjóða sig fram á aðalfundinum:
Ég heiti Anna María Karlsdóttir og er mannfræðingur að mennt. Við maðurinn minn, Ólafur Gunnar Sverrisson, starfrækjum fyrirtækið Íshús Hafnarfjarðar í gamla frystihúsinu við fallegu smábátahöfnina í Hafnarfirði. Þar leigjum við út misstór opin rými fyrir vinnustofur hönnuða, iðn- og listamanna. Íshúsið er einn stofnaðila Markaðsstofu Hafnarfjarðar og stoltur handhafi fyrstu Hvatningarverðlauna MsH. Ég hef setið í stjórn Markaðsstofunnar síðasta árið og gef kost á mér í þá vinnu sem framundan er, að efla og stækka Markaðsstofu Hafnarfjarða með góðu fólki í þágu allra fyrirtækja í bænum.
Ég heiti Anna Jórunn Ólafsdóttir og rek Litlu Gæludýrabúðina í Strandgötu að auki er ég með netverslun fyrir gæludýravörur og hef aðsetur fyrir hana ásamt lager að Melabraut 19 hér í Hafnarfirði.Ég býð mig fram í stjórn Markaðsstofunnar þar sem ég hef mikinn áhuga á að efla það góða starf sem þar fer fram og styrkja samstarf meðal fyrirtækja í bænum.
Sigríður Margrét Jónsdóttir heiti ég og á og rek Litlu Hönnunar Búðina sem er staðsett í miðbæ Hafnarfjarðar, við erum einnig eitt af stofnfyrirtækjum MSH. Ég hef setið í stjórn Markaðsstofunnar í 2 ár, og hef áhuga á að halda áfram að starfa þar, mörg krefjandi verkefni eru framundan bæði þau sem við höfum verið að vinna í og einnig ný og spennandi verkefni sem ég veit að bíða okkar m.a. markaðsstefnumótunin okkar er að renna úr hlaði og því endalaus tækifæri þar til að vinna í fyrir fyrirtækin okkar í MSH. Í fyrra vildi ég leggja áherslu á að byggja upp innviði MSH, svosem starfsreglur stjórnar og höfum við skilað þeim af okkur ásamt siðareglum og frekari uppbyggingu og sóknarfærum. Ég sit í stjórn Ferðamálasamtaka Hafnarfjarðar annað árið í röð og er einnig starfandi í stjórn deildar innan, Hundaræktarfélags Íslands, með10 ár í vinnu þar. Ég er þakklát aðildarfélögum MSH fyrir að hafa kosið mig inn 2 ár í röð og hef áhuga á að bjóða mig áfram til starfa því ég trúi á MSH og hvað við höfum fram að bjóða, þetta er búin að vera skemmtileg og lærdómsrík reynsla.
Ég heiti Örn H. Magnússon og er framkvæmdastjóri Ásafls ehf. hér í Hafnarfirði.
Það er óhætt að segja að ég mikill Hafnfirðingur í mér og hef mikin áhuga á því starfi sem Markaðsstofan er að sinna í dag. Ég tel mig geta lagt eitthvað til mála og finnst því rétt að gefa kost á mér í stjórn. Ég nefnilega trúi því að það hjálpi ekkert að sitja útí horni og gagnrýna störf annara, maður þarf að vera tilbúinn til að takast á við áskoranir. Það er von mín að við náum að efla starf Markaðsstofunar og vil leita að möguleikum á því að efla sóknarfæri fyrir Fjörðinn okkar í gegnum starf Markaðsstofunnar!
Hef verið mikið tengdur íþróttastarfinu hér í bænum ef hef t.d. gengt formennsku í handknattleiksdeild FH auk annarra starfa fyrir félagið. Þá gengdi ég, á sínum tíma, framkvæmdastjórastarfi Handknattleikssamband Íslands og átti sæti í stjórn Handknattleiksráðs Hafnarfjarðar. Þá hef ég komið að mörgum öðrum málum sem vonandi geta nýst í starfi fyrir Markaðsstofuna.