Stjórn markaðsstofunnar kom saman á fund í gær eftir gott sumarfrí. Helsta umræðuefnið var dagskrá haustsins og svo tókum við á móti nýju fólki.
Mannabreytingar
Linda Hrönn Þórisdóttir er ný inn í stjórn markaðsstofunnar og tekur sæti Þóreyjar Önnu Matthíasdóttur fyrir hönd Framsóknarflokksins. Við bjóðum Lindu velkomna og þökkum Þórey Önnu sömuleiðis fyrir gott samstarf. Þá kom Sunna Magnúsdóttir á fundinn en hún er þessa dagana að taka við starfi Andra Ómarssonar sem verkefnastjóri menningar- og ferðamála og mun sitja stjórnarfundi markaðsstofunnar í framtíðinni sem áheyrnarfulltrúi. Við bjóðum því einnig Sunnu velkomna og þökkum Andra fyrir gott samstarf.
Dagskrá samþykkt
Framkvæmdastjóri lagði fyrir lokadrög að dagskrá haustsins en í henni má finna nokkrar nýjungar. Þar ber helst að nefna að við ætlum tvisvar að fá til okkar kaffigest í fyrirtækjakaffi og einnig prófa að vera með eitt síðdegisfyrirtækjakaffi. Þá höldum við þrjú námskeið fram að áramótum, förum í tvær fyrirtækjaheimsóknir og endurtökum fyrirtækjagleði í desember, sem fékk svo glimrandi góðar viðtökur í fyrra. Stjórn samþykkti dagskrána einróma en hún verður kynnt í næstu viku.
Verkefni haustsins
Á fundinum var einnig farið yfir nokkur verkefni sem þarf að fara í á næstu vikum og mánuðum. Þar á meðal er ákvörðun á árgjaldi 2024 og lagt til að nefndin sem er með það mál á sínum höndum kynni tillögur á næsta stjórnarfundi. Þá var ákveðið að endurskoða starfsreglur stjórnar, fara yfir og kynna fyrir nýju fólki síðustu stefnumótunarvinnu. Formaður setur sig síðan í samband við bæjaryfirvöld í tengslum við endurnýjun samnings og til að fá fund með bæjarráði.
Fundi var slitið kl. 9:40 en næsti fundur verður haldinn fimmtudaginn 7. september.