Sköpunargleði getur leitt af sér meiri starfsánægju og aukna helgun í starfi. Þá benda rannsóknir til að fyrirtæki sem eru skapandi vaxa að meðaltali 160% hraðar en þau sem eru það ekki. Þetta og margt fleira áhugavert kom fram á námskeiðinu Með sköpunargleðina að vopni sem við héldum fyrir starfsfólk aðildarfyrirtækja okkar.
Hugsanamynstur sem krefst eldsneyti
Það var Birna Dröfn Birgisdóttir, sköpunargleðifræðingur sem hélt námskeiðið og fræddi okkur um þann ofurkraft sem fylgir sköpunargleðinni og hún sé í raun visst hugsanamynstur. Þá talaði Birna um að til að virkja hana þurfi að veita henni eldsneyti. Það samanstandi meðal annars af forvitni, fókus, að átta sig á rétta vandamálinu, gera sér grein fyrir að það geta verið margar mögulegar lausnir, að stýra þurfi hugsanamynstri á mismunandi slóðir og þá sé mikilvægt að hugsa eins og vísindafólk sem gerir endalausar tilraunir og reyna að vera eins og kaffið.
Já en eða já og
Það var góður og skemmtilegur andi á námskeiðinu en Birna Dröfn fékk hópinn til að gera nokkrar æfingar sem fólust meðal annars í því að teikna hús og fara í leikinn „Já en eða já og“ þar sem mikið var hlegið .
Þá hvatti hún alla til að prófa að brjóta vissar reglur, eiga sína eigin sköpunargleðisbók og gefa sér rými til að skapa.
Ánægðir þátttakendur
Við þökkum öllum sem mættu fyrir komuna. Eins og vanalega gerðum við námsmat í lokin og þar kom fram að 93% voru ánægðir með námskeiðið sem og fyrirlesarann. Sama var upp á teningnum þegar spurt var hvort fræðslan hafi staðið undir væntingum. Þá voru 86% á því að fræðslan muni mjög líklega nýtast sér í starfi.
Að lokum þökkum við Birnu Dröfn fyrir frábæra fræðslu og vonum að þátttakendur finni sína sköpunargleði og nýti sér hana sem best.