Sköpunargleði, samvinna og samfélag – heimsókn til Arctic Theory

Við fórum í heimsókn til tölvuleikjafyrirtækisins Arctic Theory í gær. Fyrirtækið er staðsett i fallega húsinu við Strandgötu 29 og þar tóku eigendurnir þeir Gísli og Matthías á móti hópnum ásamt Ólöfu sem hefur starfað hjá fyrirtækinu allt frá upphafi.

Eftirvænting fyrir leiknum

Arctic Theory hefur verið starfandi frá árinu 2020 og er komið langt með uppbyggingu og þróun á tölvuleiknum sínum sem er þó ekki enn kominn formlega út og hefur heldur ekki fengið nafn, einungis vinnuheiti. Þau eru þó reglulega með svokölluð „public playtests“ og fá þá viðbrögð frá spilurum víðs vegar um heiminn um hvað sé gott og hvað megi betur fara.

Þrátt fyrir að fara ekki endanlega í loftið fyrr en líklega seinni hluta þessa árs hefur leikurinn nú þegar vakið athygli í virtum erlendum miðlum og nokkur eftirvænting nú þegar að myndast. Að sögn Gísla hjálpar það þeim í þessum stóra heimi að stofnendur fyrirtækisins hafa mikla og langa reynslu í tölvuleikjaiðnaðinum og hafa starfað víðs vegar um  heiminn þar á meðal við leikina EVE online og Fortnite. Þess má geta að tölvuleikjaiðnaðurinn er orðinn gífurlega stór og er stærri en tónlistar- og kvikmyndaiðnaðurinn til samans.

Í heimsókn okkar fengum við að skyggnast aðeins inn í sýndarheiminn þeirra en þar er lögð áhersla á sköpunargleði, samvinnu og samfélag. Spilarar eiga að vinna saman að því að búa til samfélög, byggja brýr, reisa hús og ýmislegt fleira.

Starfsfólk með ólíkan bakgrunn

Hjá Arctic Theory eru í dag tíu fastir starfsmenn með mjög ólíkan bakgrunn en þar á meðal eru verkfræðingar, forritarar, hönnuðir og listamenn. Þá starfa þau jafnframt með ýmsum verktökum víðs vegar úr heiminum. Gísli sagði að það hafi verið meðvituð ákvörðun hjá þeim félögum að velja gamalt hús og það í Hafnarfirði. Þeir vildu vera í húsi með sjarma þar sem er kósý og þægilegt, eitthvað sem er mikilvægt fyrir sköpunargleðina.

 

Takk allir sem mættu og takk Gísli, Matthías og Ólöf fyrir að taka á móti okkur. Það verður gaman að fylgjast með ykkur í framtíðinni.