Mikil endurnýjun á stjórn

Aðalfundur Markaðsstofu Hafnarfjarðar var haldinn þann 17. maí síðastliðinn í Apótekinu í Hafnarborg.  

Á dagskrá fundarins voru almenn aðalfundarstörf. Sigríður Margrét formaður kynnti skýrslu stjórnar, Örn H. Magnússon varaformaður fór yfir ársreikning og fjárhagsáætlun og að lokum kynnti Thelma Jónsdóttir, framkvæmdarstjóri markaðsstofunnar starfsáætlun stofunnar þar sem haldið verður áfram á sömu braut en jafnframt eru ýmsar hugmyndir uppi á borðum.

Formaður hættir eftir fimm ára starf

Núverandi formaður stofunnar Sigríður Margrét Jónsdóttir lætur af störfum eftir fimm ára stjórnarsetu sem og Jóhann Davíð Barðason sem hefur verið í stjórn í tvö ár. Þá hætta jafnframt pólitískir fulltrúar störfum en það eru þau Guðbjörg Oddný Jónasdóttir, Sjálfstæðisflokki, Anna Karen Svövudóttir, Framsókn og óháðir og Arnbjörn Ólafsson, Bæjarlistanum.

Framkvæmdastjóra bárust fjölmargar fyrirspurnir varðandi stjórnarsetu og greinilega mikill áhugi á að taka þátt í starfinu. Að lokum voru það hins vegar einungis tveir sem buðu sig fram og voru þá sjálfkjörin með lófaklappi eftir að hafa kynnt sig. Nýir stjórnarmenn eru Guðný Stefánsdóttir, eigandi Rambastore.is og Jóhannes Egilsson, eigandi VON harðfiskverkunar.

Við þökkum fráfarandi stjórnarmönnum fyrir þeirra störf og góða samveru. Þá bjóðum við Guðný og Jóhannes velkomin til starfa og bíðum spennt eftir að vita hvaða pólitískir fulltrúar starfi með okkur í framtíðinni.

Glærur, fundarstjórn ofl.

Fundarstjóri var Sigríður Margrét Jónsdóttir og fundarritari Arnbjörn Ólafsson. Hér að neðan má skoða glærur fundarins um skýrslu stjórnar, ársreikning og framkvæmdaáætlun 2022-2023.

Myndir af fundinum tók Olga Björt Þórðardóttir.