Ársreikningur, aðalfundur og bréf til oddvita

Stjórn markaðsstofunnar kom saman til fundar fimmtudaginn 7. apríl síðastliðinn.

Megin málefni fundarins var ársreikningur, aðalfundur, rekstrarformið, uppfærð skipulagsskrá og bréf til oddvita flokkanna. 

Ársreikningur og aðalfundur

Ársreikningurinn var samþykktur einhljóða og ákveðið var að halda aðalfundinn þriðjudaginn 17. maí næstkomandi kl. 18:15 í Hafnarborg. Tveir stjórnarmenn eru að hætta og því verður kosið um tvo nýja stjórnarmenn og það auglýst vel meðal aðildarfyrirtækja.

Rekstrarformið og skipulagsskrá

Enn og aftur urðu umræður um rekstrarform stofunnar, hvort aftur ætti að reyna að breyta því, eitthvað sem var reynt á síðasta ári en gekk ekki eftir. Ákveðið að setja málið í hendur nýrrar stjórnar en gera greinargerð um ferlið. Framkvæmdastjóri benti á að uppfæra þyrfti skipulagsskrá stofunnar á vefsíðunni þar sem breytingar frá árinu 2019 koma ekki fram. Rætt var um málið og ákveðið að formaður og framkvæmdastjóri klári það sem fyrst. 

Bréf til oddvita flokkanna

Varaformaður las upp bréf sem hann og formaður senda út í næstu viku á oddvita stjórnmálaflokkanna. Þar er starfsemi stofunnar kynnt stuttlega og óskað eftir afstöðu flokksins til áframhaldandi uppbyggingar og starfsemi markaðsstofunnar. Þá er þeim einnig boðið að koma í heimsókn eða fá kynningu til sín. Gerðar voru smávegis breytingar á bréfinu á fundinum.