Hvatningarverðlaun rædd á stjórnarfundi

Stjórn markaðsstofunnar kom saman á rafrænum fundi þann 3. febrúar síðastliðinn. Meginmálefni fundarins voru Hvatningarverðlaunin okkar.

Athöfn frestað

Lagt var til að fresta afhendingu Hvatningarverðlaunanna um þrjár vikur til 10. mars næstkomandi með von um að þá verði engar samkomutakmarkanir og við getum fagnað vel í fjölmennum hópi. Sú tillaga var samþykkt einróma. Í kjölfarið voru umræður um staðsetningu og dagskrá athafnarinnar og ákveðið að framkvæmdastjóri og varaformaður ynnu að þeim atriðum í sameiningu.

Verðlaun og viðurkenningar

Alls bárust nú yfir 100 tilnefningar til hvatningarverðlauna sem eru margfalt fleiri en undanfarin ár. Það skýrist þó líklega á því að ákveðið var að allir gætu að þessu sinni sent inn tilnefningar ekki einungis aðildarfyrirtæki markaðsstofunnar. Eftir miklar og góðar umræður kom stjórnin sér saman um hver skyldi hljóta hvatningarverðlaunin í ár sem eru ávallt veitt fyrirtæki sem hefur lyft upp bæjaranda Hafnarfjarðar með starfsemi sinni og athöfnum. Þá var jafnframt ákveðið að veita fjórar viðurkenningar fyrir óeigingjarnt starf við að gera Hafnarfjörð að betra samfélagi.

Árgjald

Að lokum upplýsti framkvæmdastjóri að reikningur fyrir árgjaldi hafi verið sendur út í byrjun vikunnar og nú þegar hafi margir gengið frá greiðslu.