Stjórn markaðsstofunnar kom saman á fundi í lok síðustu viku. Dagskrá fundarins var að fara yfir tilnefningar til hvatningarverðlaunanna og ákveða hver skyldi hljóta þau ásamt viðurkenningum.
Margar tilnefningar
Í ár komust fjölmörg fyrirtæki á listann yfir tilnefnd fyrirtæki en hægt var að senda inn tilnefningu frá 18. til 31. janúar síðastliðinn og öllum velkomið að taka þátt.
Á fundinum urðu því töluverðar umræður og í raun ekki auðvelt að velja en að lokum voru allir sammála. Hvaða fyrirtæki hefur að mati stjórnar lyft upp bæjaranda Hafnarfjarðar með starfsemi sinni og athöfnum og hlýtur hvatningarverðlaunin 2023 verður opinberað á verðlaunahátíð markaðsstofunnar þann 16. febrúar næstkomandi. Þá verða einnig veittar nokkrar viðurkenningar til fyrirtækja, félaga eða einstaklings sem hafa með starfsemi sinni eflt atvinnulíf og bæjaranda í bænum okkar.
Önnur mál
Á fundinum sagði framkvæmdastjóri frá fyrirspurn frá hraðlinum AWE – Academy for women entrepreneurs sem er samstarfsverkefni milli Háskóla Íslands og bandaríska sendiráðsins. Hraðallinn vill gjarnan koma í samstarf við markaðsstofuna og halda viðburð í Hafnarfirði í kringum páskana. Stjórnin tók vel í þetta erindi og framkvæmdastjóra falið að taka málið áfram.
Næsti fundur verður haldinn þann 2. mars næstkomandi.