Liðurinn fyrirtæki vikunnar hefur fengið frábærar móttökur og 50 hafnfirsk fyrirtæki nú fengið veglega umfjöllun um starfsemi sína. Með þessum lið viljum við vekja athygli á fyrirtækjum úr öllum hverfum bæjarins, stórum og smáum sem stunda afar fjölbreytta starfsemi.
Þetta hefur verið ákaflega gefandi og skemmtilegt verkefni og við þökkum öllum sem hafa nú þegar tekið á móti okkur. Við hlökkum jafnframt til að heimsækja og kynnast næstu 50 fyrirtækjum enn betur.
Hverjir í pottinum
Öll aðildarfyrirtækja markaðsstofunnar eru með í pottinum góða, sem dregið er úr á hverjum mánudegi, og ef nafn þeirra er á miða vikunnar förum við í heimsókn, tökum myndir og skrifum grein. Fyrsta umfjöllunin birtist þann 21. ágúst 2020 og var um Súfistann.
Fyrirfram þekking mismikil
Viðtökurnar hafa verið afar góðar, heimsóknir á vefsíðu okkar hefur aukist til muna og við fengið um 26 þúsund heimsóknir á þessum tíma. Margir segjast alltaf bíða spenntir eftir næstu umfjöllun en fyrirfram þekking er mismikil eða eins og einhver sagði: Stundum er
· fyrirtæki sem ég vissi ekki að væri til, hvað þá að það væri í Hafnarfirði
· fyrirtæki sem ég þekki en vissi ekki að væri í Hafnarfirði
· fyrirtæki sem ég þekki en gaman að kynnast því betur og sjá fólkið á bak við það.
Mikil aukning aðildarfyrirtækja
Umfjallanirnar hafa m.a. orðið til þess að mikil aukning hefur verið á aðildarfyrirtækjum enda markaðsstofan sýnilegri, minnir á sig í hverri viku, og fyrirtæki vilja gjarnan slást í þennan góða hóp. Frá því fyrsta umfjöllunin fór í loftið hafa 39 hafnfirsk fyrirtæki skráð sig og miði með nafni þeirra sett í pottinn.
Fylgist með
Eins og fyrr segir er dregið um fyrirtæki vikunnar á hverjum mánudegi. Hægt að fylgjast með útdrættinum í story á Facebook og Instagram en greinarnar eru ávallt birtar á vefsíðu markaðsstofunnar sem og á samfélagsmiðlum í kjölfarið.
Hægt er að skoða allar umfjallanir hér.