Göngu- og hjólastígar á Vellina
Markaðsstofan hefur sent umhverfis- og framkvæmdaráði, með afriti til bæjarstjóra og bæjarstjórnar, eftirfarandi erindi.
Efni: Göngu- og hjólastígar á Vellina.
Vallarhverfið eru það hverfi í Hafnarfirði þar sem uppbygging hefur verið hve mest undanfarin ár. Fyrirtæki eru mörg á svæðinu sem og íbúðarhúsnæði. Unnið hefur verið að því að byggja upp og bæta vegakerfið og brátt líta dagsins ljós ný gatnamót sem beðið hefur verið eftir við Krísuvíkurveg.
Fyrirtækjahverfið, ef svo má segja, hefur verið að breytast og þar er nú að finna fjölbreyttari starfsemi og þjónustu til að mynda hefur Apótek Hafnarfjarðar nýlega fært starfsemi sína að Selhellu, en var áður til húsa að Tjarnarvöllum.
Í dag er það svo að ekki er hægt að komast gangandi, með barnavagn eða hjólandi nema að vera úti á götu þar sem engir göngu- eða hjólastígar eru í þessum hluta hverfisins og hafa fyrirtæki kvartað mjög yfir þessu.
MsH telur afar brýnt að Hafnarfjarðarbær bregðist skjótt við og geri göngu- og hjólreiðastíga á svæðinu. Skapi þar með umhverfi sem hvetur íbúa og starfsmenn fyrirtækja til að nýta sér holla og heilnæma hreyfingu í takt við núgildandi stefnu um heilsueflandi samfélag. Svo ekki sé minnst á að tryggja þarf umferðaröryggi gangandi- og hjólandi vegfaranda á svæðinu.
Oft á tíðum eru göngu- og hjólastígar byggðir sem útivistarstígar og uppfylla þá ekki viðmið um greiðar og öruggar samgöngur. Ljóst er að þeim fer fjölgandi sem kjósa að nýta möguleikana sem felast í því að ferðast öruggir í og úr vinnu á göngu- eða hjólastígum.
MsH telur að með tilkomu öruggs og umhverfisvænna göngu- og hjólastíga verði það einnig hvatning fyrir íbúa á Völlum og aðra bæjarbúa að nýta sér þessa leið til að auka og bæta við lífsgæði sín.
Í heilsueflandi samfélagi á það að vera partur af skipulaginu að bjóða upp á og hvetja til fjölbreyttari samgöngumáta en einkabílinn. Markaðsstofan skorar á Hafnarfjarðarbæ að í framtíðinni sé það svo að þegar ný fyrirtækjahverfi séu byggð að göngu- og hjólastígar séu gerðir samhliða, það styrkir innviði hverfisins og eykur fýsileika fyrirtækja til að byggja upp og reka fyrirtæki í Hafnarfirði.