Vegvísir ráðgjöf
Vegvísir ráðgjöf veitir fjölþætta þjónustu sem felur í sér ráðgjöf, stuðningsviðtöl, meðferð og fræðslu. Við hittum eigandann Katrínu G. Alfreðsdóttur félagsráðgjafa og fjölskyldufræðing til að kynnast rekstrinum.
Fyrirtæki vikunnar
Vegvísir ráðgjöf veitir fjölþætta þjónustu sem felur í sér ráðgjöf, stuðningsviðtöl, meðferð og fræðslu
Úr fluginu í félagsráðgjöf
Vegvísir ráðgjöf tekur á móti einstaklingum, pörum og fjölskyldum sem eru að takast á við persónulegan eða félagslegan vanda eða eiga í erfiðum samskiptum. Einnig þeim sem hafa tekist á við áskoranir lífsins og vilja auka vellíðan sína. Vegvísir ráðgjöf hefur verið starfandi frá árinu 2015 og var með aðsetur á Strandgötunni þangað til fyrr í þessum mánuði þegar skrifstofan flutti á Reykjavíkurveginn.
„Ég var búin að starfa sem flugfreyja í 30 ár árið 2007 þegar ég ákvað að fara í nám samhliða starfi og valdi félagsráðgjöf. Flugið var hætt að næra mig og efla eins og það gerði áður og mig langaði að gera eitthvað annað. Það er svo skemmtilegt að félagsráðgjafarstarfið og flugfreyjustarfið eru alls ekki svo ólík störf þar sem við erum að þjóna fólki og leggja okkur fram við að mæta þörfum hvers og eins“ ,“ segir Katrín sem kláraði námið árið 2012 og fór í kjölfarið að starfa á geðdeild Landspítalans með fluginu. Hana þyrsti þó í enn meiri fróðleik og fór því að læra fjölskyldumeðferð hjá Endurmenntun Háskóla Íslands og að því loknu lá leiðin í Háskólann á Akureyri í nám um afleiðingar áfalla. Þegar hún kláraði á Akureyri ákvað Katrín að stofna Vegvísir ráðgjöf, sérstaklega þar sem það hentaði betur að vera í sjálfstæðum rekstri og geta skipulagt tímann sinn sjálf þar sem hún var á þessum tíma enn að starfa sem flugfreyja.
„Það var ekki fyrr en árið 2017 sem ég hætti endanlega í fluginu eftir 41 ár en þá slasaði ég mig og var þetta því í raun sjálfhætt. Í dag er ég afar þakklát fyrir það og finnst það mikil gæfa að geta einbeitt mér að ráðgjafastarfinu og tel það líka vera mikil lífsgæði að geta skipt alveg um starfsferil á sextugsaldri.“
Tekur að sér erfiðu málin
Katrín vinnur samkvæmt áfallamiðaðri nálgun og hefur allt frá upphafi verið í erfiðum og flóknum málum. „Barnaverndarnefndir flestra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu senda til mín mikið af málum en þá er það mitt að vinna með foreldrum sem vilja styrkja sig í foreldrahlutverkinu og efla tengsl foreldra og barna. Þá hef ég að undanförnu unnið með flóttafólki og þeim sem eru að óska eftir alþjóðlegri vernd. Þau mál koma þá til mín í gegnum Hafnarfjarðarbæ þar sem er samræmd móttaka flóttafólks. Þessi mál geta verið afar flókin þar sem einstaklingar og fjölskyldur eru komnar langt að og eiga erfiða áfallasögu að baki. Menningarmunur getur verið mikill ásamt tungumálaerfiðleikum. Sem betur fer er góð og fjölbreytt túlkaþjónusta í boði hér á höfuðborgarsvæðinu sem getur leyst þann vanda en á sama tíma getur það verið flókið að vinna málin í gegnum túlk.“
Hún segir að strax í námi sínu hafi hugurinn stefnt á að vinna í svona erfiðum og flóknum málum. Hún var því alltaf að leita sér aukinnar þekkingar og sérhæfa sig í þeim. Verkefnin hafa svo í gegnum árin bara komið í fangið á henni. Þar á meðal eru fjölbreytt mál sem tengjast vímuefnavanda og þeim vanda sem getur fylgt bæði fyrir einstaklinga og fjölskyldur þeirra. „Ég vinn eftir hugmyndafræði Skaðaminnkunar, Harm reduction, sem fellur mjög vel að félagsráðgjöf. Til mín kemur fólk sem er enn í virkri neyslu en ég legg mig fram við að nálgast einstaklingana þar sem þeir eru staddir og mæta þörfum hvers og eins. Einnig er stór hópur fólks sem hefur náð takmarki sínu að vera án vímuefna og mín aðstoð felur í sér að styðja við einstaklinga og fjölskyldur við að byggja upp líf sitt. Það er ekki allt fagfólk sem fylgir hugmyndafræði skaðaminnkunar en sá hópurinn fer sem betur fer ört stækkandi“, segir Katrín sem telur þessa vinnu vera ákaflega mikilvæga.
Kennsla og stjórnarstörf
Katrín er annars með mjög marga bolta á lofti. Fyrir utan starfið á stofunni sinni, hefur hún veitt ráðgjafarviðtöl sem verktaki í Bjarkarhlíð sem er miðstöð fyrir þolendur ofbeldis og leitt hópastarf þar. Þá leiðbeinir hún reglulega á námskeiðinu Stattu með sjálfri þér - virkni til farsældar hjá Hjálparstarfi kirkjunnar og kemur það í hennar hlut að fræða konurnar sem það sækja hverjar séu afleiðingar áfalla og ofbeldis. Katrín er einnig stundakennari við Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands og kennir þar um konur og vímuefni ásamt því að vera prófdómari. Þá situr hún í stjórn Kvennaathvarfsins. „Ég vann líka sem sjálfboðaliði í Konukoti og í Frú Ragnheiði fyrir nokkrum árum en því miður hef ég ekki tíma fyrir þau verkefni lengur en fylgist þó áfram vel með því góða starfi.“
Galdrastafurinn Vegvísir
Aðspurð um nafnið á stofunni sinni Vegvísir þá segir hún að það hafi komið fljótt til sín. „Vegvísir er íslenskur galdrastafur ætlaður til að varna því að röng leið sé valin á ferðalagi. Ef maður ber hann þá ratar maður réttan veg, bæði andlega og líkamlega, og mitt starf felst jú í því að hjálpa fólki í rétta átt,“ segir Katrín en þau fjölskyldan eiga hús rétt við Hólmavík og því verið mikið á Ströndum þar sem finna má marga galdrastafi.
Árangur skemmtilegastur
Margir skjólstæðingar Vegvísis hafa komið reglulega til Katrínar, jafnvel í nokkur ár en tekið sér hlé inn á milli. Hún segir að það skemmtilegasta við vinnuna sína sé að sjá þegar einstaklingar ná persónulegum árangri. Það sé ávallt takmarkið og gleðji hana mikið.
Stolt af Hafnarfirðinum
Katrín hefur búið í Hafnarfirði í yfir 40 ár og segist vera stolt af því að búa hér. „Mér finnst ég samt ekki geta kallað mig Hafnfirðing en líklega er það þar sem ég er gift alvöru Gaflara og öll tengdafjölskyldan eru miklir Hafnfirðingar,“ segir Katrín og brosir.
Hún hefur alltaf búið í Norðurbænum, verslar í Fjarðarkaup og börnin hennar búa öll hér. „Það besta við Hafnarfjörðinn er bara andrúmsloftið sem er svo gott og vinalegt. Þá finnst mér Strandgatan og Hellisgerði og svæðið þar í kring líklega í mestu uppáhaldi.“
Barnabörnin og ferðalög
Þegar Katrín er spurð um áhugamálin er hún fljót að nefna barnabörnin fimm sem henni finnst vera svo skemmtileg. „Við erum líka mjög samheldin fjölskylda og ferðumst mikið saman bæði innanlands og utanlands en draumastaðurinn er í húsinu okkar við Steingrímsfjörð á Ströndum. Við förum líka gjarnan í veiði og mér finnst öll útivist vera ákaflega góð og gefandi,“ segir Katrín að lokum.